Yngri landslið
U23 kvenna
U23 kvenna spilaði einn leik á árinu. Var þar um að ræða vináttulandsleik gegn A-landsliði Eistlands. Ísland vann 2-0 sigur þar sem Sólveig Jóhannesdóttir Larsen og Dagný Rún Pétursdóttur skoruðu mörk Íslands.
U21 karla
Mynd - Mummi LúUndankeppni EM 2023 kláraðist á árinu, en mikil spenna var um hvaða lið myndi enda í öðru sæti riðilsins á eftir Portúgal. Fyrstu leikir ársins voru tveir leikir í mars, gegn Portúgal og Kýpur. Íslenska liðið náði frábærum úrslitum í Portúgal, 1-1 jafntefli þar sem Ísland komst yfir í fyrri hálfleik. Liðið náði ekki að fylgja þessum frábæru úrslitum eftir á Kýpur og annað 1-1 jafntefli staðreynd þar.
Þetta þýddi að þegar kom að leikjunum í júní var Grikkland í góðri stöðu í baráttu liðanna um 2. sæti riðilsins. Ísland hóf þriggja leikja hrinu leikja á heimavelli í júní með stórsigri, 9-0, gegn Liechtenstein. Það voru svo óvænt úrslit sem litu dagsins ljós þremur dögum síðar þegar Kýpur vann 3-0 sigur gegn Grikklandi. Með þeim úrslitum var ljóst að Ísland var komið í lykilstöðu í baráttu liðanna. Sigur í síðustu tveimur leikjunum myndi tryggja Íslandi 2. sæti riðilsins og sæti í umspilinu fyrir EM. Liðið nýtti sér það tækifæri og vann tvo góða sigra, 3-1 gegn Belarús og 5-0 gegn Kýpur og frábær endasprettur í undankeppninni staðreynd.
Mótherjar Íslands í umspilinu voru Tékkar, en þeir enduðu aðeins þremur stigum á eftir Englandi í sínum riðli og ljóst að sterkir mótherjar biðu Íslands. Fyrri leikur viðureignarinnar fór fram á Víkingsvelli. Sævar Atli Magnússon kom Íslandi yfir á 26. mínútu af vítapunktinum, en Tékkar voru ekki lengi að jafna leikinn þegar þeir skoruðu sitt fyrsta mark sjö mínútum síðar. Leikurinn var jafn og spennandi, en það voru Tékkar sem skoruðu sigurmarkið á 70. mínútu. Svekkjandi 1-2 tap í fyrri leik liðanna og ljóst að ærið verkefni væri framundan í Tékklandi. Síðari leikurinn fór fram fjórum dögum síðar í Ceske Budejovice. Þrátt fyrir góða frammistöðu íslenska liðsins tókst því ekki að koma boltanum í net Tékka og markalaust jafntefli varð niðurstaðan. Ísland grátlega nálægt því að komast í lokakeppni EM hjá U21 karla í annað skiptið í röð.
Í nóvember var leikinn vináttuleikur gegn Skotlandi á Fir Park í Motherwell. Skotar komust yfir á 30. mínútu, en Kristall Máni Ingason skoraði tvö mörk í fyrri hluta síðari hálfleiks og flottur sigur hjá nýju U21 liði staðreynd.
Í byrjun febrúar var dregið í undankeppni EM 2025 og er Ísland í riðli með Danmörku, Tékklandi, Wales og Litháen í baráttu sinni um sæti í lokakeppninni 2025.
U19 kvenna
Fyrsta verkefni U19 kvenna á árinu var milliriðill í undankeppni EM 2022. Liðið var þar í riðli með Englandi, Belgíu og Wales, en leikið var á Englandi. Leikirnir voru allir mjög jafnir en þrátt fyrir það tapaði Ísland öllum þremur leikjunum. Með einu marki gegn Belgíu og Wales, en tveimur gegn Englandi. Þetta gerði það að verkum að liðið endaði í neðsta sæti riðilsins og féll því í B deild fyrir undankeppni EM 2023.
Ísland var í riðli með Færeyjum, Litháen og Liechtenstein í B deild undankeppninnar. Áður en liðið fór í það verkefni lék það tvo vináttuleiki í september í Svíþjóð gegn Noregi og Svíþjóð. Liðið tapaði gegn Noregi, en vann góðan sigur gegn Svíþjóð.
Íslenska liðið flaug í gegnum fyrri umferð undankeppni EM 2023, vann alla þrjá leikina í riðlinum, skoraði fimmtán mörk og fékk ekkert á sig. Þetta þýðir að Ísland spilar í A deild í seinni umferð undankeppninnar og er þar í riðli með Svíþjóð, Danmörk og Úkraínu. Leikið verður í Danmörku í byrjun apríl.
U19 karla
U19 karla hóf árið á milliriðli í undankeppni EM 2022 og var þar í riðli með Rúmeníu, Georgíu og Króatíu, en leikið var í Króatíu. Liðið hóf riðilinn með 1-2 tapi gegn Króatíu, gerði svo 1-1 jafntefli við Georgíu og vann síðasta leik sinn, 3-0, gegn Rúmeníu. Annað sæti riðilsins staðreynd, en Rúmenía fór áfram í lokakeppnina.
Í júní hófst undirbúningur fyrir undankeppni EM 2023 þegar Ísland mætti Írlandi í tveimur vináttuleikjum á Pinatar á Spáni. Fyrri leikurinn endaði með 3-0 sigri Íra, en sá síðari með 1-0 sigri Íslands. Ísland lék einnig tvo vináttuleiki í Svíþjóð í september. Liðið vann 3-1 sigur gegn Noregi, en tapaði 1-2 gegn Svíþjóð.
Ísland var með Frakklandi, Skotlandi og Kasakstan í riðli í undankeppninni fyrir EM 2023. Riðillinn var leikinn í Skotlandi og hóf Ísland keppni á góðum 1-0 sigri gegn Skotum. Næstu mótherjar voru Frakkar og tapaðist sá leikur 0-2. Ljóst var að sigur gegn Kasakstan myndi gulltryggja liðinu sæti í milliriðlum undankeppninnar. Ísland lét það tækifæri ekki frá sér heldur vann 4-1 sigur gegn Kasakstan og tryggði sér sæti í næstu umferð. Þar mætir liðið Englandi, Tyrklandi og Ungverjalandi, en aðeins eitt lið fer áfram í lokakeppnina. Riðillinn verður leikinn á Englandi 22.-28. mars.
U18 kvenna
U18 kvenna mætti Finnlandi í tveimur vináttuleikjum í júní og fóru þeir báðir fram í Finnlandi. Fyrri leikurinn endaði með 1-0 sigri Finnlands, en sá síðari með 2-2 jafntefli.
U17 kvenna
Ísland var grátlega nálægt því að komast áfram í lokakeppni EM 2022 hjá U17 kvenna. Í milliriðlunum var liðið í riðli með Finnlandi, Írlandi og Slóvakíu. Ísland hóf leik með 1-1 jafntefli gegn Finnlandi og fylgdi því svo eftir með 1-0 sigri gegn Slóvakíu og 4-1 sigri gegn Írlandi. Það hins vegar nægði ekki liðinu þar sem sem Finnland vann einnig hina tvo leiki sína og var með einu marki betri markatölu.
U17 kvenna lék í undankeppni EM 2023 í október og var þar í gríðarlega sterkum riðli með Sviss, Frakklandi og Ítalíu. Jafntefli var niðurstaðan í fyrsta leiknum gegn Ítalíu, 3-3. Það gekk ekki nægilega vel í hinum tveimur leikjunum, 1-3 tap gegn Sviss og 4-6 tap gegn Frakklandi. Þetta gerði það að verkum að liðið endaði í neðsta sæti riðilsins, aðeins einu marki á eftir Ítalíu, og féll því niður í B deild undankeppninnar fyrir EM 2023. Með því á liðið ekki möguleika á sæti í lokakeppninni. Riðill liðsins í B deildinni fer fram í mars þegar það mætir Lúxemborg 18. mars og Albaníu 21. mars. Sigur í þeim riðli kæmi liðinu aftur upp í A deild fyrir undankeppnina fyrir EM 2024.
U17 karla
U17 karla tók þátt í Telki Cup í Ungverjalandi í ágúst í undirbúningi sínum fyrir fyrstu umferð undankeppni EM 2023. Ásamt Íslandi tóku Ungverjaland, Króatía og Tyrkland þátt í mótinu. Ísland byrjaði mótið á 2-4 tapi gegn heimamönnum Ungverja, tapaði svo 1-2 gegn Tyrklandi og endaði á 1-6 tapi gegn Króatíu.
Í fyrstu umferð undankeppni EM 2023 var Ísland í riðli með Frakklandi, Lúxemborg og Norður-Makedóníu, en leikið var í Norður-Makedóníu. Tvö efstu lið riðilsins myndu tryggja sér sæti í milliriðlum undankeppninnar og því til mikils að sækjast eftir. Riðillinn fór frábærlega af stað fyrir íslenska liðið þegar glæsilegur 3-0 sigur vannst á Norður-Makedóníu. Því næst vannst 3-1 sigur gegn Lúxemborg og því ljóst að Ísland væri komið áfram í milliriðla ásamt Frökkum. Leikurinn gegn Frakklandi var því aðeins barátta um efsta sæti riðilsins og voru það Frakkar sem höfðu betur þar með 0-4 sigri.
Milliriðill Íslands verður leikinn 22.-28. mars næstkomandi og mætir Ísland þar Skotlandi, Svartfjallalandi og Wales. Efsta lið riðilsins fer áfram í lokakeppninni ásamt þeim 7 af 8 liðum með bestan árangur í öðru sæti sinna riðla.
U16 kvenna
Mynd - Hulda Margrét ÓladóttirÁrið hófst á tveimur vináttuleikjum gegn Sviss og voru þeir báðir leiknir í Miðgarði í Garðabæ. Fyrri leikurinn endaði með 4-1 sigri Íslands og sá síðari með 4-1 sigri Sviss.
Ísland tók að venju þátt í þróunarmóti á vegum UEFA og mætti þar Spáni, Austurríki og Portúgal, en leikið var í Portúgal. Íslenska liðið tapaði öllum leikjunum, 1-2 gegn Portúgal, 1-5 gegn Spáni og 2-3 gegn Austurríki.
Síðasta verkefni liðsins á árinu var Opna Norðurlandamótið sem leikið var í Noregi. Þar lék Ísland þrjá leiki, tapaði 2-5 gegn Noregi, vann 3-0 sigur gegn Indlandi og 3-2 sigur gegn Finnlandi. Fimmta sætið var hlutskipti liðsins á mótinu.
U16 karla
U16 karla tók einnig þátt í þróunarmóti á vegum UEFA og mætti þar Sviss, Írlandi og Svíþjóð. Liðið stóð sig frábærlega á mótinu, vann 2-0 sigur gegn Svíþjóð og 4-0 gegn Sviss, en tapaði 1-2 gegn Írlandi. Þrátt fyrir tap í síðasta leik stóð Ísland uppi sem sigurvegari í riðlinum og ljóst að framtíðin er björt.