Stefnumótun KSÍ

Stefnumótun KSÍ 2023-2026: "Frá Grasrót til stórmóta"

Fagnað í Lettlandi

Í stefnumótun KSÍ fyrir árin 2023-2026, „Frá grasrót til stórmóta“, er fjallað um helstu þætti starfs og verkefna KSÍ næstu árin. Stefnumótunin var unnin með stuðningi UEFA Grow, sem hefur aðstoðað um 40 knattspyrnusambönd í Evrópu í þeirra stefnumótunarvinnu.

Lögð var áhersla á að sýna fram á hvernig hinir ýmsu þættir íslenskrar knattspyrnu tengjast og styðja við hvern annan - grasrótarstarfið og afreksstarfið, félagsliðin og landsliðin, aðildarfélögin og KSÍ - og hvernig við getum gert sem flestum kleift að vera þátttakendur í knattspyrnuhreyfingunni.

Fagnað á EM
Áhersluatriði

Þátttaka – Þróa möguleika og tækifæri til þátttöku í knattspyrnu fyrir alla, óháð aldri, getu, tekjum eða kyni.

Afreksstarf – Þróa teymi sérfræðinga sem hafa aðgang að gögnum og öðrum nauðsynlegum tólum í þeim tilgangi að styðja sem best við landslið okkar og hámarka möguleika þeirra á að ná árangri.

Aðildarfélög – Halda áfram að efla og þróa reglulegt samtal við aðildarfélögin til að þekkja sem best þeirra stöðu og áskoranir, til að geta stutt við þeirra starf og verkefni eftir fremsta megni.

Innviðir – Tryggja stuðning til að byggja upp innviði og aðstöðu KSÍ, s.s. þjóðarleikvang og æfingasvæði, til að efla knattspyrnulega umgjörð og auka rekstrartekjur.

Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni – Gera grein fyrir áhrifum starfs okkar á samfélagið til að auka skilning almennings á því hlutverki sem við gegnum á Íslandi og í heimi knattspyrnunnar, umfram frammistöðu landsliða okkar.

Stefnumótun knattspyrnusambands er eins og gefur að skilja afar umfangsmikil og snertir á flestum, ef ekki öllum þáttum, knattspyrnustarfsins. Fjölmörg verkefni tengjast stefnumótun KSÍ og leiðirnar að markmiðunum eru einmitt sá þáttur sem getur tekið hvað mestum breytingum á tímaramma stefnumótunarinnar. Utanumhald stefnumótunar KSÍ er í föstum skorðum og skipulaginu er ætlað að tryggja framgang hinna ýmsu verkefna, sem er raðað innan hvers árs á gildistímanum. Fjölmörg verkefni eru hafin og sumum verkefnum er jafnvel lokið. Öllum verkefnum og aðgerðum er ætlað að hafa jákvæð áhrif á íslenska knattspyrnu og þróun hennar.

Hér að neðan eru dæmi um nokkur verkefni og aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í (alls ekki tæmandi listi).

Fram - Þróttur R.
Verkefni

„Knattspyrnuvísindasvið“ sett á laggirnar.  Nýtt verkefni sem heyrir undir Knattspyrnusvið og er ætlað að efla afreksstarf sambandsins enn frekar. Markmiðið er að taka virkan þátt í hraðri þróun knattspyrnunnar hvað varðar hugræna þætti, leikgreiningu og stafræna vinnslu. Þetta verkefni er fjármagnað að fullu af FIFA í gegnum FIFA TDS (Talent Development Scheme), sem var stofnað til að styðja við og stuðla að samkeppnishæfni knattspyrnusambanda og landsliða víðs vegar um heiminn.    

Tengsl og samstarf milli landsliða og aðildarfélaga þróað áfram með því að bjóða þjálfurum frá félögum að taka þátt í verkefnum landsliða, og gefa þeim þannig tækifæri til að kynnast stöðlum sem settir eru í umgjörð landsliðs og stuðlað að innleiðingu þeirra í aðildarfélögum, og ekki síður að sækja þekkingu til þeirra, sem þá nýtast í starfi landsliða.       

Markmannsþjálfari ráðinn í þjálfunarteymi KSÍ til að vinna þvert á öll landslið.     

Ráðist í það verkefni að safna gögnum um þá knattspyrnuaðstöðu sem þegar er til staðar á landsvísu til að skilja að hve miklu leyti núverandi aðstaða er nýtt og hvort hún mæti þörf knattspyrnuhreyfingarinnar.     

Komið á fót árlegum þjónustu- og viðhorfskönnunum til að meta þjónustustig KSÍ og að hve miklu leyti KSÍ mætir þjónustuþörfum aðildarfélaga.     

Undirbúningur hafinn að því verkefni í samstarfi við UEFA að kanna áhrif knattspyrnuhreyfingarinnar á almenna heilsu (líkamlega og andlega) í samfélaginu með rannsóknum á beinum arði af fjárfestingu í knattspyrnu.     

Áfram er haldið góðu samtali og samráði við félög varðandi fyrirkomulag móta og keppnistímabil.     

Umsjónarmaður dómara ráðinn, m.a. til að hvetja félög og styðja þau í því verkefni að fjölga dómurum og til að leiða leiðbeinanda- og skýrslukerfi sem þegar hafa verið sett á fót. 

Unnið að því að auka fjölda kvenkyns þjálfara á meðal aðildarfélaga KSÍ svo hlutfall þeirra verði hærra. 

Í dag er um þriðjungur iðkenda kvenkyns en aðeins um 10% virkra þjálfara eru kvenkyns.     

Samfélagsleg verkefni KSÍ og aðgerðir við þau valin og byggð upp þannig að félögum og þátttakendum í íslenskri knattspyrnu gefist skýr tækifæri til að taka þátt og njóta góðs af.     

Unnið með með sérfræðingum UEFA við að innleiða og virkja aðferðir við að mæla og fylgja eftir ímynd og orðspori KSÍ og íslenskrar knattspyrnu á hverjum ársfjórðungi.

Stefnumótun KSÍ
Augnablik ...