A landslið kvenna

A kvenna á EM 2022

She Believes Cup

Árið byrjaði á ferð til Bandaríkjanna þar sem liðið tók þátt í She Believes Cup. Mótið er æfingamót þar sem þremur þjóðum er boðin þátttaka auk Bandaríkjanna. Var þetta í fyrsta sinn sem Ísland tók þátt.

Fyrsti leikur Íslands á mótinu var gegn Nýja-Sjálandi. Dagný Brynjarsdóttir skoraði eina mark leiksins á fyrstu mínútu hans. Næsti leikur var gegn Tékklandi þar sem vannst 2-1 sigur með mörkum frá Natasha Moraa Anasi og Selmu Sól Magnúsdóttur. Með tveimur sigrum komst Ísland í úrslitaleik mótsins sem var gegn heimakonum. Lið Bandaríkjanna var of stór biti fyrir lið Íslands og endaði leikurinn með 5-0 sigri Bandaríkjanna.

A kvenna á She Believes Cup 2022

Undankeppni HM 2023 hélt áfram á árinu

Í apríl hélt undankeppni HM 2023 áfram. Íslenska liðið var í góðri stöðu eftir þrjá sigra og eitt tap í undankeppninni sem hófst árið 2021. Í apríl spilaði mætti Ísland Belarús og Tékklandi. Leikurinn gegn Belarús var spilaður í Serbíu vegna stríðsátaka á milli Rússlands og Úkraínu. Ísland fór með 5-0 sigur af hólmi. Dagný Brynjarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoruðu allar í fyrri hálfleik og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir bætti tveimur mörkum við í þeim síðari. Í Tékklandi skoraði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir eina mark Íslands í 1-0 sigri.

Karólína Lea gegn Tékklandi

Tveir síðustu leikir undankeppninnar fóru fram í september. Belarús kom í heimsókn á Laugardalsvöll þar sem Ísland fór með öll völd á vellinum. Leikurinn endaði með 6-0 sigri Íslands. Fyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu á 12. mínútu og bætti öðru marki við þremur mínútum síðar. Í síðari hálfleik skoraði Dagný Brynjarsdóttir tvö mörk og Glódís Perla Viggósdóttir og Selma Sól Magnúsdóttir sitt markið hvor. Eftir þennan sigur var ljóst að Íslandi dugði jafntefli í lokaleik sínum í riðlinum til að tryggja sér í fyrsta skiptið sæti á HM.

Sara Björk fagnar marki gegn Belarús
Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Þriðjudaginn 6. september mætti Ísland Hollandi í Utrecht. Hollendingar voru með yfirhöndina í leiknum, en með frábærum markvörslum hjá Söndru Sigurðardóttur í marki Íslands leit allt út fyrir að Ísland væri að tryggja sér sæti á HM í fyrsta skipti í sögunni þegar staðan var 0-0 á 90. mínútu. Draumar Íslands urðu hins vegar að engu þegar Holland skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma. Holland vann 1-0 sigur og sendi íslenska liðið í umspil.

Berglind Björg berst við hollensku vörnina

Leiknar voru tvær umferðir í umspilinu. Ísland sat hjá í fyrri umferð umspilsins vegna góðs árangurs í undankeppninni og mætti Portúgal í síðari umferð umspilsins. Leikið var í Portúgal. Markalaust var þegar liðin gengu til hálfleiks. Á 52. mínútu dró til tíðinda þegar Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fékk að líta rauða spjaldið. Þremur mínútum síðar komst Portúgal yfir. Glódís Perla Viggósdóttir jafnaði metin fyrir Ísland á 59. mínútu. Að loknum venjulegum leiktíma var staðan 1-1 og var því farið í framlengingu. Í framlengingu var sviðið Portúgala. Þær skoruðu þrjú mörk í framlengingunni og gerðu drauma Íslands um HM sæti að engu með 4-1 sigri.

Byrjunarliðið gegn Portúgal

Lokakeppni EM 2022

Fjórða Evrópumótið í röð var Ísland á meðal þátttökuþjóða. Englendingar voru gestgjafar og var von á stærsta Evrópumóti landsliða kvenna frá upphafi. Lokaundirbúningur íslenska liðsins hófst með 3-1 sigri gegn Póllandi í vináttuleik í Póllandi. Mörk Íslands skoruðu Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir. Frá Póllandi færði liðið sig yfir til Herzogenarauch í Þýskalandi þar sem æft var við góðar aðstæður áður en flogið var til Manchester á Englandi. Æfingasvæði Íslands á EM var á æfingasvæði knattspyrnufélagsins Crewe Alexandra.

Ísland var í D-riðli ásamt Belgíu, Frakklandi og Ítalíu. Fyrsti leikur Íslands á EM var gegn Belgíu á Manchester City Academy Stadium. Íslands komst yfir með marki frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur á 50. mínútu en Belgar jöfnuðu metin úr vítaspyrnu og niðurstaðan í fyrsta leik 1-1 jafntefli. Næstu andstæðingar voru Ítalir. Eins og í fyrsta leiknum komst Ísland yfir og að þessu sinni var það Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sem skoraði eftir langt innkast frá Sveindísi Jane Jónsdóttur á þriðju mínútu leiksins. Ítalir jöfnuðu metin á 62. mínútu og þar við sat. Annað 1-1 jafnteflið staðreynd.

Síðasti leikur riðlakeppninnar var gegn sterku liði Frakka á New York Stadium í Rotherham. Frakkar náðu forystu strax á fyrstu mínútu og var staðan 1-0 fyrir Frakklandi allt þar til á 12. mínútu í uppbótatíma þegar Dagný Brynjarsdóttir skoraði úr vítaspyrnu. Niðurstaðan var þriðja 1-1 jafntefli Íslands á mótinu sem dugði ekki til að koma liðinu áfram. Þar með var þátttöku Íslands á EM lokið.

Þær Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir, Guðný Árnadóttir, Selma Sól Magnúsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir, Elísa Viðarsdóttir, Amanda Jacobsen Andradóttir, Guðrún Arnardóttir og Sandra Sigurðardóttir spiluðu allar sína fyrstu leiki á stórmóti á EM 2022.

Að móti loknu tilkynnti Hallbera Guðný Gísladóttir að hún væri búin að leggja skóna á hilluna. Hallbera spilaði 131 A-landsleik og skoraði í þeim þrjú mörk. Fyrsti landsleikur Hallberu var árið 2008 gegn Póllandi.

Á árinu tilkynnti Sif Atladóttir að hún væri hætt að spila með landsliðinu. Sif spilaði 90 landsleiki fyrir Íslands hönd og var sá fyrsti gegn Ítalíu á Algarve Cup árið 2007. Sif tók þátt í öllum Evrópumeistaramótum sem Ísland hefur farið á.

Augnablik ...