A landslið kvenna

A kvenna Pinatar Cup meistarar

Pinatar Cup

Keppnisár A-landsliðs kvenna hófst í febrúar þegar liðið tók þátt í æfingamótinu Pinatar Cup á Spáni. Ásamt Íslandi tóku Wales, Skotland og Filippseyjar þátt í mótinu.

Í fyrsta leik mótsins mætti Ísland Skotlandi þar sem Ísland vann 2-0 sigur. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði bæði mörk Íslands á þriggja mínútna kafla í síðari hálfleik. Voru þetta fyrstu A-landsliðsmörk Ólafar í hennar fyrsta A-landsleik. Næsti mótherji var Wales. Hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið og leiknum lauk með markalausu jafntefli. Í lokaleik mótsins mætti Ísland Filippseyjum. Þær Filippseysku voru engin fyrirstaða fyrir Ísland og lauk leiknum með 5-0 sigri Íslands. Amanda Jacobsen Andradóttir braut ísinn fyrir Ísland á 22. mínútu leiksins og bætti hún við öðru marki á 51. mínútu. Svo voru það þær Selma Sól Magnúsdóttir, Hlín Eiríksdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir sem skoruðu eitt mark hver. Með sigrinum tryggði Ísland sér sigur á mótinu.

Æfingaleikir í apríl og júlí

Marki fagnað gegn Sviss

Ísland spilaði fjóra æfingaleiki á árinu. Í apríl fór liðið til Tyrklands þar sem þær mættu Nýja Sjálandi. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli þar sem Dagný Brynjarsdóttir skoraði mark Íslands. Frá Tyrklandi lá leiðin til Sviss þar sem heimakonur í Sviss voru andstæðingurinn. Ísland vann 2-1 sigur með mörkum frá Glódísi Perlu Viggósdóttur og Sveindísi Jane Jónsdóttur.

Í júlí kom Finnland í heimsókn á Laugardalsvöll. Gestirnir unnu leikinn 1-2. Berglind Rós Ágústsdóttir skoraði mark Íslands sem var hennar fyrsta A-landsliðsmark. Síðasti æfingaleikur ársins var gegn Austurríki. Ísland vann 1-0 sigur þar sem Hafrún Rakel Halldórsdóttir skoraði mark Ísland og var markið jafnframt hennar fyrsta A-landsliðsmark.

Þjóðadeild UEFA

Karólína Lea skorar gegn Danmörku

Í ár var UEFA í fyrsta skiptið með Þjóðadeild kvenna. Ísland var í A-deild riðli 3 ásamt Þýskalandi, Danmörku og Wales. Ísland hóf leik í Þjóðadeildinni 22. september þegar Wales kom í heimsókn í Laugardalinn. Ísland vann 1-0 sigur með marki frá Glódísi Perlu Viggósdóttur fyrirliða liðsins. Fimm dögum síðar fór Ísland til Þýskalands þar sem heimakonur voru of stór biti fyrir íslenska liðið. Leiknum lauk með 4-0 sigri Þýskalands.

Næstu andstæðingar Íslands voru Danir sem komu á Laugardalsvöll í lok október. Gestirnir unnu leikinn með einu marki gegn engu. Nokkrum dögum síðar kom Þýskaland í heimsókn. Gestirnir unnu 2-0 sigur í kuldanum í Reykjavík. Lokaleikirnir í mótinu fóru fram í byrjun desember og spilaði Ísland þá báða á útivelli. Fyrst gerði Ísland góða ferð til Cardiff í Wales þar sem 2-1 sigur var niðurstaðan. Hildur Antonsdóttir skoraði fyrsta mark Íslands á 29. mínútu og Diljá Ýr Zomers skoraði annað mark Íslands á 79. mínútu. Báðar voru þær að skora sín fyrstu A-landsliðsmörk.

Niðurstaðan í riðlinum var sú að Ísland endaði í þriðja sæti riðilsins. Það þýðir að Ísland mætir Serbíu í umspili um að halda sæti sínu í A-deild í undankeppni EM 2025. Spilaðir verða tveir leikir, í Serbíu þann 23. febrúar og á Kópavogsvelli þann 27. febrúar. Samanlagður árangur í leikjunum gildir.

Landsliðsskórnir á hilluna

Sandra og Sif heiðraðar

Mynd - Mummi Lú

Sif Atladóttur og Söndru Sigurðardóttur var þakkað fyrir framlag þeirra til íslenska landsliðsins. Báðar voru þær partur af liðinu í fjölda ára. Sif lagði landsliðsskóna á hilluna eftir EM 2022 og Sandra í febrúar 2023. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lagði einnig landsliðsskóna á hilluna á árinu.

100 leikja áfangar

Gunnhildur Yrsa og Glódís Perla heiðraðar

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir voru báðar heiðraðar á árinu fyrir að hafa spilað 100 leiki fyrir A landslið kvenna. Báðar spiluðu þær 100. leikinn árið 2022 í undankeppni HM 2023 gegn Belarús. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lék sinn 100. leik árið 2023 þegar Ísland mætti Nýja Sjálandi í apríl. Gunnhildur verður heiðruð fyrir áfangann á ársþingi KSÍ 2024.

Augnablik ...