A landslið karla

Baltic Cup meistarar 2022

Vináttuleikir í upphafi árs

A karla hóf 2022 á tveimur vináttuleikjum utan landsleikjaglugga sem leiknir voru í Tyrklandi. Ísland gerði þar 1-1 jafntefli við Úganda og tapaði 1-5 gegn Suður-Kóreu. Í mars voru svo leiknir tveir vináttuleikir á Spáni. Fyrst mætti liðið Finnlandi í Murcia og skoraði Birkir Bjarnason eina mark Íslands í 1-1 jafntefli. Nokkrum dögum síðar voru Spánverjar mótherjinn, nú í Deportivo. Leikurinn var íslenska liðinu erfiður og endaði hann með 0-5 tapi.

Stefán Teitur gegn Spáni

Þjóðadeildin hófst í júní

Ísland dróst í riðil með Rússlandi, Ísrael og Albaníu í B deild Þjóðadeildar UEFA. Vegna banns Rússlands frá keppnum á vegum UEFA var ljóst að aðeins þrjú lið myndi taka þátt í riðlinum. Landsleikjaglugginn í júní var með óhefðbundnu sniði, en leiknir voru fjórir leikir. Ísland hóf leik í Ísrael í og fór þaðan með eitt stig eftir 2-2 jafntefli. Næst mætti liðið Albaníu á Laugardalsvelli og endaði sá leikur með 1-1 jafntefli. Ágætis byrjun á riðlinum hjá íslenska liðinu. Næsti mótherji Íslands var San Marínó en liðin mættust í vináttuleik ytra og vann Ísland 1-0 með marki frá Aroni Elís Þrándarsyni. Lokaleikur gluggans var svo heimaleikur gegn Ísrael og eftir spennandi leik voru lokatölurnar 2-2. Ísland því með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leikina og ennþá í möguleika að komast upp í A deild Þjóðadeildarinnar.

Með sigri Ísraels gegn Albaníu í sínum síðasta leik í riðlakeppninni var ljóst að Ísland gæti ekki unnið riðilinn. Baráttan um annað sæti við Albaníu var hins vegar mikil og mikilvægi þess að ná í 2. sætið gæti reynst mikið í tengslum við undankeppni EM 2024. Í undirbúningi sínum fyrir leikinn gegn Albaníu fór Ísland til Austurríkis og æfði þar við góðar aðstæður. Þar mætti liðið Venesúela í vináttuleik sem endaði með 1-0 sigri Íslands, en Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði sigurmarkið undir lok leiks.

Leikurinn gegn Albaníu byrjaði ekki vel. Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska liðsins, var rekinn útaf eftir aðeins ellefu mínútur og ljóst að á brattann yrði að sækja. Albanir komust svo yfir á 35. mínútu og leiddu í hálfleik. Okkar strákar gáfust hins vegar aldrei upp og tókst þeim að jafna leikinn á sjöundu mínútu í uppbótartíma með marki frá Mikael Neville Anderson. Ótrúlegur endir á mikilvægum leik og annað sæti riðilsins tryggt.

Baltic Cup sigrinum fagnað

Baltic Cup meistarar 2022

Ísland lék tvo vináttuleiki utan landsleikjaglugga í byrjun nóvember. Í fyrri leiknum mætti liðið Sádi Arabíu í Abu Dhabi en Sádar voru þar við æfingar í undirbúningi sínum fyrir HM sem fór fram í Katar. Ísland lék ágætlega í leiknum og gaf fá færi á sér, en hann endaði með 0-1 tapi. Hópurinn ferðaðist svo yfir til S-Kóreu og mætti heimamönnum í annað sinn á árinu, en þeir voru einnig að undirbúa sig fyrir HM. Þar sýndi liðið aðra góða frammistöðu, en tapaði þeim leik einnig 0-1.

Stutt var stórra högga á milli því aðeins nokkrum dögum síðar tók Ísland þátt í Baltic Cup í fyrsta sinn, nú innan landsleikjaglugga. Ásamt Íslandi tóku þar þátt Eystrasaltslöndin þrjú - Litháen, Lettland og Eistland. Ísland mætti Litháen í undanúrslitaleik og leikið var í Kaunas. Leikurinn var nokkuð jafn, þó Ísland hafi skapað sér töluvert meira af færum. Hvorugu liðinu tókst að skora mark í venjulegum leiktíma og var því gripið til vítaspyrnukeppni. Þar reyndist íslenska liðið sterkara og vann vítaspyrnukeppnina 6-5. Á sama tíma vann Lettland sigur á Eistlandi, einnig í vítaspyrnukeppni, og var því ljóst að Ísland myndi mæta Lettum í úrslitaleiknum í Riga. Aðstæður í Lettlandi voru erfiðar, völlurinn frosinn og mjög kalt í veðri. Hópurinn lét það ekki á sig fá og kom Ísak Bergmann Íslandi yfir úr vítaspyrnu í síðari hálfleik. Lettar jöfnuðu hins vegar metin og þurfti því aftur að grípa til vítaspyrnukeppni. Aftur nýtti liðið allar sínar spyrnur í vítakeppninni (vann 8-7) og stóð því upp sem sigurvegari á Baltic Cup 2022!

Íslenska liðið sem sagt afrekaði það að skora úr 15 vítaspyrnum í röð í þessum tveimur leikjum. Sex spyrnur gegn Litháen og átta gegn Lettlandi í vítaspyrnukeppnum, að viðbættri vítaspyrnu í venjulegum leiktíma gegn Lettlandi.

Augnablik ...