Dómaramál

Mynd - Mummi Lú

Árið 2024 er metár þegar kemur að mönnun dómarastarfa á KSÍ leiki. Fjöldi starfa þar sem KSÍ sá um að tilnefna dómara á leiki á síðasta ári var alls 5.388, sem er aukning á milli ára. Sem dæmi um leikjamagn má nefna að algengt er að skrifstofa KSÍ raði dómurum á jafnvel hundruðir starfa í sömu viku.

Fjöldi dómarastarfa
ÁrFjöldi dómarastarfa
20245.388
20235.305
20224.964
20214.964
20204.042
20194.651
20184.592
20174.785
20164.423
20154.735
20144.465
20134.431
......
20062.259

KSÍ býður aðildarfélögum upp á þann möguleika að bóka dómaranámskeið frá KSÍ sem haldin eru hjá félögunum. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og fjöldi nýrra dómara útskrifast sem unglingadómarar á ári hverju. Það er greinilegt að þörfin fyrir námskeiðin er mikil og hafa mörg félög bókað námskeið á næstu mánuðum.

Námskeiðin eru stutt en hnitmiðuð og markmiðið með þeim er fyrst og fremst að hjálpa félögunum að búa til dómarahópa til þess að manna þá fjölmörgu leiki sem eru á þeirra ábyrgð.

Þeir sem hafa áhuga á því að mennta sig meira í dómarafræðum sækja síðan aðstoðardómaranámskeið, dómaranámskeið og héraðsdómaranámskeið en KSÍ stendur árlega fyrir nokkrum slíkum.

Virkum dómurum fjölgaði á árinu frá síðasta ári, en voru þeir 627 árið 2024 en 591 árið á undan.

Fjöldi virkra dómara
ÁrFjöldi
2024627
2023591
2022585
2021707

Íslenskir dómarar á námskeiði í VAR-dómgæslu

Dagana 14. og 15. febrúar sóttu átta íslenskir knattspyrnudómarar námskeið í VAR-dómgæslu í Stockley Park í London þar sem VAR-miðstöð ensku úrvalsdeildarinnar er staðsett.

Námskeiðið var hið fyrra tveggja sem íslenskir dómarar þurfa að sækja til að öðlast réttindi til að dæma VAR leiki á alþjóðlegum vettvangi

Námskeiðið sóttu FIFA dómararnir Helgi Mikael Jónasson og Ívar Orri Kristjánsson, Jóhann Ingi Jónsson, dómari í Bestu deild, og FIFA aðstoðardómararnir Andri Vigfússon, Eysteinn Hrafnkelsson, Kristján Már Ólason, Ragnar Bender, og Egill Guðvarður Guðlaugsson.

Fyrir eru þeir Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Birkir Sigurðarson og Gylfi Már Sigurðsson með réttindi til að dæma VAR leiki á alþjóðlegum vettvangi.

Námskeiðið var haldið af PGMOL sem er fyrirtæki sem heldur utan um dómgæslu í efstu deildum karla og kvenna í Englandi, en námskeiðið sóttu einnig dómarar frá N-Írlandi, Írlandi, Wales og Svíþjóð.

Frá Írak til Íslands

Á árinu birti UEFA grein með viðtali við Twana Khalid Ahmed knattspyrnudómara og leið hans frá Írak til Íslands, en hann er í dag landsdómari hjá KSÍ.

Smellið hér að neðan til að skoða greinina í heild sinni.

Greinin á vef UEFA

70 þátttakendur á landsdómararáðstefnu

Landsdómararáðstefna fór fram í höfuðstöðvum KSÍ að Laugardalsvelli í nóvember þar sem þátt tóku um 70 manns - dómarar og eftirlitsmenn. Á ári hverju eru haldnar að jafnaði þrjár slíkar ráðstefnur.

Á meðal umfjöllunarefna að þessi sinni voru samskipti leikmanna og dómara þar sem Kristinn Óskarsson körfuknattleiksdómari flutti erindi, æfingatímabil dómara þar sem Frosti Viðar Gunnarsson fyrrverandi alþjóðadómari og núverandi eftirlitsmaður fór yfir málin og stýrði þrekprófi, dómaranefnd fjallaði um samvinnu dómara og aðstoðardómara þar sem þátttakendum var skipt var upp í vinnuhópa, og farið var yfir áherslur dómaranefndar fyrir undirbúningstímabilið.

FIFA-listi íslenskra dómara 2025

Dómaranefnd hefur ákveðið FIFA-lista dómara fyrir árið 2025. Listinn var samþykktur af stjórn KSÍ.

FIFA-listi íslenskra dómara 2025
DómararAðstoðardómarar
Bríet BragadóttirAndri Vigfússon
Helgi Mikael JónassonBirkir Sigurðarson
Jóhann Ingi Jónsson (kemur nýr inn á lista)Egill Guðvarður Guðlaugsson
Ívar Orri KristjánssonEysteinn Hrafnkelsson
Vilhjálmur Alvar ÞórarinssonGylfi Már Sigurðsson
Kristján Már Ólafs
Ragnar Þór Bender
Rúna Kristín Stefánsdóttir

Líkamlegt ástand dómara mælt í nýrri rannsókn

Á árinu sem leið hófst tilraunaverkefni þar sem m.a. fóru fram mælingar á líkamlegu ástandi KSÍ-dómara í samstarfi rannsóknaraðila, KSÍ, Háskóla Íslands og fleiri aðila. Mælingarnar fara fram undir stjórn Milos Petrovic, yfirmanns rannsóknarmiðstöðvar íþrótta- og heilsuvísinda við Háskóla Íslands, og Guðbergs K. Jónssonar, forstöðumanns Rannsóknarstofu um mannlegt atferli, Háskóla Íslands, Valgeirs Einarssonar sjúkraþjálfarateymi KSÍ, og hefur Gunnar Jarl Jónsson, fyrrverandi KSÍ/FIFA-dómari og núverandi meðlimur í dómaranefnd KSÍ haldið utan um verkefnið KSÍ-megin.

Verkefnið í heild er talsvert umfangsmeira og snýr að því að setja mælistiku á lýðheilsulegt vægi hreyfingar ýmsum hópum, m.a. eldri iðkendum, og felur í sér mælingar á ýmsum sál-, félags- og líkamlegum þáttum iðkenda, ásamt leiðbeinandi ráðgjöf um áframhaldandi hreyfingu og/eða endurhæfingu.

Markmið fyrsta hluta verkefnisins miðaði að því að greina líkamlegar kröfur og frammistöðusnið KSÍ-dómara, og hvernig þeir takast á við þær líkamlegu kröfur sem gerðar eru til þeirra. Rannsóknin, sem er sú fyrsta sinnar tegundar sem gerð er á Íslandi, náði til 19 íslenskra dómara, sem voru metnir út frá ýmsum líkamlegum eiginleikum.

Niðurstöður gefa til kynna að heilt yfir búa þeir dómarar sem voru mældir yfir „miklum styrk, almennum liðleika og þá sérstaklega í neðri hluta líkamans, sem er nauðsynlegt fyrir hlutverk þeirra á vellinum“. Jafnframt kemur fram í niðurstöðum að mælingarnar veiti „dýrmæta innsýn í líkamlegar kröfur til dómara, og niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um frekari markvissa þjálfun og þjálfunaráætlanir til að auka frammistöðu dómara, draga úr meiðslahættu, og stuðla að víðtækari skilningi á frammistöðu dómara á efsta þrepi á Íslandi“.

Dæmdi sinn 200. leik

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi sinn 200. leik í efstu deild karla þegar hann dæmdi leik Vals og Fylkis í Bestu deild karla þann 6. júlí síðastliðinn.

Fyrsti leikur Vilhjálms var í Pepsi deild karla árið 2009 þegar hann dæmdi leik Stjörnunnar og Fylkis.

Bergrós Lilja dómari ársins í Bestu deild kvenna

Bergrós Lilja Unudóttir var kosin besti dómari Bestu deildar kvenna, en það eru leikmenn deildarinnar sem kjósa.

Bergrós dæmdi fyrsta leik sinn í efstu deild árið 2023, en hún er aðeins 26 ára og á framtíðina fyrir sér.

Pétur dómari ársins í Bestu deild karla

Pétur Guðmundsson var kosinn besti dómari Bestu deildar karla, en það eru leikmenn deildarinnar sem kjósa.

Íslenskir dómarar dæmdu í erlendum keppnum

Íslenskir dómarar voru á faraldsfæti á árinu og dæmdu víða erlendis í keppnum á vegum UEFA. Það voru bæði dómarar og aðstoðardómarar sem störfuðu erlendis og hér að neðan má sjá lista yfir þá:

Andri Vigfússon var aðstoðardómari í undankeppni EM 2025 hjá U21 karla.

Birkir Sigurðarson var aðstoðardómari í Sambandsdeild Evrópu og í undankeppni EM 2025 hjá U21 karla.

Bríet Bragadóttir dæmdi í undankeppni EM 2025 hjá U19 kvenna.

Egill Guðvarður Guðlaugsson var aðstoðardómari í Sambandsdeild Evrópu og Unglingadeild UEFA.

Elías Ingi Árnason var fjórði dómari í Sambandsdeild Evrópu.

Eysteinn Hrafnkelsson var aðstoðardómari í Sambandsdeild Evrópu og í Unglingadeild UEFA.

Guðmundur Ingi Bjarnason var aðstoðardómari í Unglingadeild UEFA.

Gylfi Már Sigurðsson var aðstoðardómari í Sambandsdeild Evrópu.

Helgi Mikael Jónasson dæmdi í Sambandsdeild Evrópu, var fjórði dómari í Sambandsdeild Evrópu, dæmdi í Unglingadeild UEFA og undankeppni EM 2025 hjá U19 karla.

Ívar Orri Kristjánsson var fjórði dómari í Sambandsdeild Evrópu, dæmdi í Sambandsdeild Evrópu og dæmdi í undankeppni EM 2025 hjá U21 karla.

Kristján Már Ólafs var aðstoðardómari í Sambandsdeild Evrópu og í undankeppni EM 2025 hjá U19 karla

Ragnar Þór Bender var aðstoðardómari í Unglingadeild UEFA og í UEFA Regions Cup.

Vilhjálmur Alvar Þorarinsson var fjórði dómari í Sambandsdeild Evrópu og undankeppni EM 2025 hjá U21 karla, dæmdi í Sambandsdeild Evrópu og UEFA Regions Cup.

Dómaraeftirlitsmenn

Gunnar Jarl Jónsson var við eftirlit í Sambandsdeild Evrópu og í Þjóðadeild UEFA.

Kristinn Jakobsson var við eftirlit í Sambandsdeild Evrópu, undankeppni EM 2025 hjá U17 karla og í Evrópudeildinn.

Þóroddur Hjaltalín var við eftirlit í Meistaradeild Evrópu, í UEFA Regions Cup, undankeppni EM 2025 hjá U19 karla og í Sambandsdeild Evrópu.

Gylfi Þór Orrason var við störf sem eftirlitsmaður í lokakeppni EM hjá U19 karla, í Evrópudeildinni, í Meistaradeildinni, í undankeppni EM 2025 hjá U19 karla og í Sambandsdeild Evrópu.

Norræn dómaraskipti

Norræn dómaraskipti hófust árið 2005 og er tilgangur þeirra að auka þekkingu og reynslu dómara. Árið 2024 dæmdu íslenskir dómarar í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi

Elías Ingi Árnason og Patrik Freyr Guðmundsson dæmdu leik Varberg og Brage í næst eftstu deild karla í Svíþjóð.

Twana Kalid Ahmed og Þórður Arnar Árnason dæmdu leik Stabæk og Raufoss í næst efstu deild karla í Noregi.

Bríet Bragdóttir og Eydís Ragna Einarsdóttir dæmdu leik PK-35 og Aland United í efstu deild kvenna í Finnlandi.

Færeyskir dómarar dæmdu leik ÍR og Njarðvíkur í Lengjudeild karla.

Danskir dómarar dæmdu leik Grindavíkur og Leiknis R. í Lengjudeild karla.

Danskir dómarar dæmdu leik Víkings R. og Tindastóls í Bestu deild kvenna.

Sænskir dómarar dæmdu leik Keflavíkur og Víkings R. í Bestu deild kvenna.

Augnablik ...