Evrópukeppnir

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Meistaradeild UEFA (kvenna)

Valur og Breiðablik tóku þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, Valur sem Íslandsmeistari og Breiðablik eftir að hafa lent í 2. sæti í Íslandsmótinu 2021. Til að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þurfa liðin að komast í gegnum tvær umferðir í forkeppninni. Í fyrri umferð forkeppninnar vann Valur 2-0 sigur gegn FC Hayasa frá Armeníu og 3-0 sigur gegn Shelbourne frá Írlandi. Með sigrunum tryggði Valur sig áfram í aðra umferð. Í annarri umferð dróst Valur á móti Slavia Prag frá Tékklandi. Leikið var heima og að heiman og sigurvegarinn úr viðureigninni fékk sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Fyrri leikur liðanna fór fram á Origo vellinum, heimavelli Vals. Þar þurftu Valskonur að sætta sig við 1-0 tap. Síðari leikurinn fór fram í Tékklandi og lauk með 0-0 jafntefli. Valur var því úr leik.

Í fyrri umferð forkeppninnar mætti Breiðablik Rosenborg frá Noregi. Rosenborg var of stór biti fyrir Breiðablik og lauk leiknum með 4-2 sigri Rosenborg. Þar með var ljóst að Breiðablik væri úr leik og kæmist ekki í aðra umferð. Þrátt fyrir það áttu þær einn leik eftir í fyrri umferðinni, sem var gegn Slovacko frá Tékklandi, þar sem Breiðablik vann 3-0 sigur.

Meistaradeild UEFA (karla)

Víkingur Reykjavík tók þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Forkeppnin samanstóð af fjórum liðum þar sem spilaðir voru tveir undanúrslitaleikir. Sigurvegarar leikjanna mættust í úrslitaleik þar sem sigurvegarinn komst áfram í næstu umferð. Víkingur mætti Levadia Tallin frá Eistalandi í undanúrslitum þar sem Víkingar unnu 6-1 sigur. Í úrslitaleiknum var mótherjinn Inter Escaldes frá Andorra. Víkingar náðu að knýja fram 1-0 sigur og voru þar með komnir áfram í næstu umferð.

Næstu mótherjar voru Svíþjóðarmeistararnir í Malmö. Leiknir voru tveir leikir, heima og heiman. Fyrri leikurinn fór fram í Malmö þar sem leiknum lauk með 3-2 sigri heimamanna. Samanlagður árangur réði úrslitum og möguleiki Víkings því enn góður. Síðari leiknum lauk með 3-3 jafntefli og Víkingar því úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Sambandsdeild UEFA (karlar)

Breiðablik og KR tryggðu sér þátttökurétt í Sambandsdeild UEFA með því að lenda í öðru og þriðja sæti á Íslandsmótinu árið 2021.

Mótherjar Blika í fyrstu umferðinni voru UE Santa Coloma frá Andorra. Blikar sigruðu örugglega í einvíginu með 1-0 útisigri og 4-1 sigri á Kópavogsvelli, samtals 5-1 sigur hjá Breiðablik. Næstu mótherjar Breiðabliks var lið Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi. Fyrri leikurinn var spilaður á Kópavogsvelli þar sem Breiðablik vann 2-0 sigur. Breiðablik tapaði síðari leiknum 2-1 en þrátt fyrir það komust þeir áfram í þriðju umferð keppninnar. Samanlagður árangur í leikjunum báðum var 3-2 Blikum í vil. Mótherjar Breiðablik í þriðju umferð voru Istanbul Basaksehir frá Tyrklandi. Basaksehir var of stór biti fyrir Blika sem töpuðu báðum leikjunum. Fyrri leikurinn fór 3-1 á Kópavogsvelli og sá síðari fór 3-0 Basaksehir í vil. Evrópuævintýri Blika var þar með lokið.

Í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar mætti KR liði Pogon Szczecin frá Póllandi. Fyrri leikurinn fór fram í Póllandi þar sem heimamenn höfðu yfirhöndina í leiknum og unnu 4-1 sigur. KR-inga beið erfitt verkefni á heimavelli í síðari leik liðanna. KR náði að knýja fram 1-0 sigur þar sem Hallur Hansson skoraði mark KR undir lok fyrri hálfleiks. Sigurinn dugði þó ekki til því Pogon Szczecin sigraði einvígið samtals 4-2 og fór áfram í næstu umferð.

Í ljósi úrslita í viðureign Víkings og Malmö færðist Víkingur í undankeppni Sambandsdeildarinnar. Þar mætti Víkingur The New Saints FC frá Wales. Fyrri leikur liðanna fór 2-0 fyrir Víkingum og síðari leiknum lauk með 0-0 jafntefli. Víkingar héldu því keppni áfram og næsti mótherji var Lech Poznan frá Póllandi. Í fyrri leiknum, sem spilaður var í Víkinni, unnu Víkingar flottan 1-0 sigur. Síðari leikurinn var Víkingum erfiðari og var niðurstaðan 4-1 tap. Þar með lauk þátttöku Víkinga í Evrópukeppni þetta ári.

Evrópukeppni félagsliða í Futsal (karlar)

Ísbjörninn var fulltrúi Íslands í forkeppni félagsliða í Futsal. Með Ísbirninum í riðli voru Kampuksen Dynamo frá Finnlandi, KMF Titograd frá Svartfjallalandi og FC Encamp frá Andorra. Ísbjörninn tapaði öllum sínum leikjum. Kampuksen Dynamo fór áfram í næstu umferð með fullt hús stiga.

Augnablik ...