Evrópukeppnir

Meistaradeild UEFA kvenna

Valur fagnar marki

Valur og Stjarnan tóku þátt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, Valur sem Íslandsmeistarar og Stjarnan eftir að hafa lent í 2. sæti á Íslandsmótinu sumarið 2022. Til að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þurfa liðin að komast í gegnum tvær umferðir í forkeppninni. Í fyrri umferðinni eru spilaðir tveir leikir, gegn sitthvoru liðinu, sem báðir þurfa að vinnast og í síðari umferðinni eru tveir leikir gegn sama liðinu. Leikið er heima og að heiman og gildir samanlagður árangur úr leikjunum tveimur.

Í fyrri umferð forkeppninnar mætti Valur Fomget Gençlik frá Tyrklandi og vann Valur 2-1 sigur í leiknum. Í síðari leiknum mætti Valur liði Vllaznia frá Albaníu þar sem Valur vann einnig 2-1 sigur. Með sigrinum tryggði Valur sig áfram í aðra umferð keppninnar. Í 2. umferð mætti Valur liði St. Pölten frá Austurríki. Fyrri leikurinn fór fram á Origo vellinum, heimavelli Vals. Valur tapaði 0-4 og þeirra beið stórt verkefni í Austurríki. Í Austurríki vann Valur 0-1 sigur sem dugði þó ekki til og því lauk Valur keppni.

Í fyrri umferð forkeppninnar mætti Stjarnan Levante frá Spáni. Stjarnan tapaði 4-0 og því var ljóst að þær kæmust ekki áfram í næstu umferð. Þó var einn leikur eftir hjá liðinu. Stjarnan mætti Sturm Graz frá Austurríki í síðari leik sínum. Eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var staðan markalaus og því var gripið til vítaspyrnukeppni. Stjarnan vann vítaspyrnukeppnina 7-6.

Meistaradeild UEFA karla

Breiðablik tók þátt í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa hampað Íslandsmeistaratitli árið 2022. Liðið hóf keppni í forkeppni fyrir undankeppni mótsins. Forkeppnin hjá riðli Blika fór fram á Kópavogsvelli. Ásamt Breiðabliki í riðlinum voru Atletic Club Escaldes frá Andorra, Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi og Tre Penne frá San Marínó. Eitt af þessum fjórum liðum komst áfram í næstu umferð en vinna þurfti sigur í tveimur leikjum. Breiðablik mætti Tre Penne í fyrri leik sínum og lauk honum með 7-1 stórsigri Blika. Í úrslitaleiknum um laust sæti í næstu umferð mætti Breiðablik Buducnost Podgorica og unnu Blikar þar 5-0 sigur og tryggðu sér þar með sæti í næstu umferð.

Í næstu umferð mætti Breiðablik Shamrock Rovers frá Írlandi. Spilaðir voru tveir leikir og gilti samanlagður árangur úr þeim báðum. Blikar byrjuðu á útivelli þar sem þeir unnu 0-1 sigur. Í síðari leiknum á Kópavogsvelli vann Breiðablik 2-1 sigur og tryggði sér þar með tvo leiki gegn FC Kaupmannahöfn. Þeir voru of stór biti fyrir Blikana sem töpuðu fyrri leiknum á heimavelli 0-2 og síðari leiknum á Parken 6-3. Breiðablik var þar með úr leik í Meistaradeildinni og færðist yfir í 3. umferð í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Evrópudeild UEFA karla

Í Evrópudeildinni mætti Breiðablik Zrinjski frá Bosníu og Hersegóvínu. Leiknir voru tveir leikir, heima og að heiman. Í útileiknum tapaði Breiðablik 6-2 en heima vann Breiðablik 1-0 sigur. Samanlagt tapaði Breiðablik 6-3 og var því úr leik í Evrópudeildinni. Evrópuævintýrinu var þó ekki lokið og færðist Breiðablik yfir í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Blikar fagna marki

Sambandsdeild UEFA

KA og Víkingur R. tóku þátt í Sambandsdeild Evrópu árið 2023. KA tryggði sér sæti í keppninni með því að lenda í 2. sæti á Íslandsmótinu 2022 og Víkingur R. með því að vinna bikarmeistaratitilinn sama ár. Liðin hófu leik í forkeppni Sambandsdeildarinnar þar sem liðin mættu mótherjum sínum tvisvar, heima og að heiman, þar sem samanlagður árangur skipti máli. KA byrjaði á því að mæta Connah‘s Quay Nomads FC frá Wales og Víkingur R. mætti Riga FC frá Lettlandi. Heimavöllur KA í keppninni var Framvöllur í Úlfarsárdal. KA vann viðureignina við Connah‘s samtals 4-0 þar sem hvor leikur fór 2-0 fyrir KA. Á sama tíma laut Víkingur í lægra haldi fyrir Riga. Á útivelli tapaði Víkingur 2-0 en á heimavelli vann Víkingur 1-0 sigur. Það dugði þó ekki til og Víkingur því úr leik.

KA hélt áfram í næstu umferð þar sem þeir mættu Dundalk frá Írlandi. KA vann 3-1 sigur í heimaleiknum og útileiknum lauk með 2-2 jafntefli. Samanlagt vann KA 5-3 sigur og tryggði sér áframhaldandi veru í keppninni. Næsti andstæðingur KA var Club Brügge frá Belgíu. Þar mættu KA-menn ofjörlum sínum. Báðum leikjunum lauk með 5-1 sigri Club Brügge og þar með lauk keppni KA í Sambandsdeild Evrópu.

Breiðablik kom inn í keppnina úr Evrópudeildinni og mætti Struga frá Norður-Makedóníu í umspili um laust sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Í fyrri leik liðanna, sem spilaður var á heimavelli Struga, vann Breiðablik 0-1 sigur. Blikar héldu uppteknum hætti í heimaleik sínum og unnu þar einnig 1-0 sigur. Með sigrinum braut Breiðablik blað í íslenskri knattspyrnu með því að vera fyrsta karlaliðið til að tryggja sér sæti í riðlakeppni í Evrópukeppni.

Dregið var í riðla þann 1. september. Breiðablik dróst í B riðil ásamt Gent frá Belgíu, Maccabi Tel Aviv frá Ísrael og Zorya Luhansk frá Úkraínu.

Breiðablik hóf keppni í riðlakeppninni í Ísrael þegar þeir mættu Maccabi Tel Aviv. Leiknum lauk með 3-2 sigri heimamanna. Bæði mörk Blika skoraði Færeyingurinn Klæmint Andrasson Olsen. Næst var komið að fyrsta heimaleik Blika af þremur, og voru tveir þeirra spilaðir á Laugardalsvelli en einn á Kópavogsvelli. Gestirnir voru Zorya Luhansk frá Úkraínu og lauk leiknum með 0-1 sigri gestanna. Enn beið Breiðablik eftir fyrsta sigrinum og voru næstu andstæðingar Gent í Belgíu. Breiðablik átti ekki erindi sem erfiði og lauk leiknum með 5-0 sigri heimamanna. Strax í næsta leik mætti Gent í Laugardalinn og vann þar 2-3 sigur. Jason Daði Svanþórsson skoraði bæði mörk Blika á tveggja mínútna kafla í fyrri hálfleik. Í lok nóvember tóku Blikar á móti Maccabi Tel Aviv þar sem gestirnir unnu 1-2 sigur. Leikurinn fór fram á Kópavogsvelli þar sem UEFA mat Laugardalsvöll ekki leikhæfan. Gísli Eyjólfsson skoraði jöfnunarmark Blika á 61. mínútu en Ísraelarnir náðu að knýja fram sigur með marki á 82. mínútu. Lokaleikur Blika, gegn Zorya Luhansk, fór fram í Póllandi þar sem ekki mátti spila í Úkraínu vegna stríðsátaka. Leiknum lauk með 4-0 sigri Úkraínumanna. Breiðablik lauk leik án stiga á botni riðilsins.

Evrópukeppni félagsliða í Futsal karla

Ísbjörninn

Ísbjörninn tók þátt í Evrópukeppni félagsliða í Futsal þar sem þeir voru ríkjandi Íslandsmeistarar. Ísbjörninn var í riðli með FC Prishtina frá Kósóvó, Utleira Idrettslag frá Noregi og KSC Lubawa frá Póllandi. Ísbjörninn tapaði öllum sínum leikjum og endaði í neðsta sæti riðilsins með markatöluna 2:25.

Augnablik ...