Samfélag

Opinber stefna KSÍ um samfélagsleg verkefni

Knattspyrnusamband Íslands lítur á það sem skyldu sína að nýta þann kraft sem býr í knattspyrnufjölskyldunni til að vera virkur þátttakandi í samfélagslegum verkefnum sem gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn. Samfélagsleg verkefni og þátttaka í þeim er hluti af stefnumótun KSÍ.

Jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun KSÍ 2022-2025

Jafnréttisstefna og jafnréttisáætlun KSÍ fyrir árin 2022-2025 var samþykkt á stjórnarfundi 10. febrúar 2022.

Í jafnréttisstefnu er fjallað um knattspyrnuhreyfinguna í heild sinni. Leiðarljósi stefnunnar og markmiðum er lýst, og fjallað um þær leiðir sem KSÍ hyggst fara til að stuðla að jafnrétti og þeim aðgerðum sem ráðast skal í til að ná settum markmiðum.

Í jafnréttisáætlun er fjallað um ýmsa þætti sem snúa að jafnrétti hjá KSÍ sem vinnustað, s.s. launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs, ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni.

Frekari upplýsingar á vef KSÍ

Samstarf KSÍ og Barnaheilla

KSÍ og Barnaheill – Save the Children á Íslandi sömdu á vormánuðum 2022 um tveggja ára samstarf um fræðsluverkefnið Verndarar barna með það að markmiði að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, þekkja einkenni ofbeldis og læra að bregðast við. Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn verður eitt af hverjum fimm börnum á Íslandi fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur.

Sérfræðingur frá Barnaheillum mun á þessu tveggja ára tímabili fara í heimsókn til knattspyrnufélaga um allt land. Bundnar eru miklar vonir við þátttöku félaganna og er markmið KSÍ og Barnaheilla að í lok samstarfsins hafi öll aðildarfélög KSÍ fengið heimsókn og fræðslu.

Öll þau sem koma á einhvern hátt að knattspyrnustarfi barna eru hvött til að mæta á fræðslu hjá sínu félagi. Starfsfólk á skrifstofu félagsins, þjálfarar, húsverðir, sjálfboðaliðar, foreldrar og allir sem finnst þeir eiga erindi. Fræðslan tekur fjóra klukkutíma og er aðildarfélögum KSÍ að kostnaðarlausu.

Skemmtidagur fyrir flóttafólk

Skemmtidagur á Laugardalsvelli

Þann 19. maí bauð KSÍ flóttafólki til „skemmtidags á Laugardalsvelli”. Um 120 manns mættu, börn og fullorðnir á öllum aldri. Boðið var upp á alls konar afþreyingu eins og fótbolta og hoppukastala. Fánum Úkraínu var flaggað á vellinum.

Litblinda í fótbolta

KSÍ hélt áfram átaki sem hófst árið 2019, þar sem markmiðið var að vekja athygli á litblindu í knattspyrnu. Litblinda getur haft áhrif á alla sem tengjast knattspyrnu - áhorfendur, leikmenn, þjálfara, dómara og aðra starfsmenn í kringum leikinn.

1 af hverjum 12 körlum og 1 af hverjum 200 konum er litblind.

Verkefnið er samstarfsverkefni á vegum EFDN (European Football For Development Network) og var styrkt af Evrópusambandinu. Því lauk formlega í nóvember með ráðstefnu sem haldin var í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands.

Geðveikur fótbolti með FC Sækó

KSÍ var í samstarf við knattspyrnufélagið FC Sækó á árinu. Um er að ræða vitundarátak undir heitinu "Geðveikur fótbolti með FC Sækó". 

Knattspyrnuverkefnið FC Sækó "Geðveikur fótbolti“ byrjaði í nóvember 2011 sem samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, Velferðarsviðs Reykjavíkur og geðsviðs Landspítalans. FC Sækó knattspyrnufélag var stofnað árið 2014 og er það skipað notendum geð- og velferðarkerfisins, starfsmönnum þess og öðrum sem hafa áhuga á að styðja við verkefnið. 

Tilgangur FC Sækó er að efla og auka virkni notendahóps fólks með geðraskanir og gefa þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu sem og að draga úr fordómum.  Markmið FC Sækó er fyrst og fremst að efla andlega og líkamlega heilsu fólks, vera sýnileg og hafa gaman. Á æfingum eða í leikjum eru allir jafnir og þannig styðjum við hvort annað og drögum við úr fordómum. Það eru allir velkomnir að æfa og/eða spila með FC Sækó, konur og karlar, fólk sem tengist geð- eða velferðarsviði og/eða úrræðum því tengdu eða aðrir. 

Hlutverk KSÍ í samstarfinu er að vekja athygli á og styðja við starfsemi FC Sækó með ýmsum hætti og að vekja athygli á því hvernig þátttaka í fótbolta (eða skipulögðum íþróttum almennt) getur haft jákvæð áhrif á líðan einstaklinga með geðraskanir.

Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ

Háttvísiviðurkenningum Landsbankans og KSÍ var úthlutað í sumar. Öllum félögum sem skipuleggja mót í yngri flokkum bauðst til að fá viðurkenningar til afhendingar, ásamt því að háttvísi-veggspjöldum var dreift til allra félaga.

Ungmennaþing KSÍ

Fyrsta ungmennaþing KSÍ fór fram í lok nóvember 2022. Komu þar saman um 60 ungmenni frá um 20 félögum. Þátttakendur voru á aldrinum 12-18 ára og fékk hvert félag að senda fjögur ungmenni á þingið.

Aðal umræðuefni þingsins voru tvö. Hegðun foreldra á fótboltamótum og mótamál. Miklar og góðar umræður sköpuðust í hópavinnu þar sem meðal annars var nefnt að gott væri ef foreldrar héldu sig nokkra metra frá vellinum á meðan á leik stæði. Þátttakendur höfðu mikla skoðun á dómgæslu og kölluðu þau til dæmis eftir því að dómarar væru að minnsta kosti nokkrum árum eldri en þau sem væru að spila leikinn.

Á þinginu var tekið við umsóknum í ungmennaráð KSÍ. Hlutverk ungmennaráðsins verður að gæta hagsmuna iðkenda í yngri flokkum í íslenskum fótbolta og vera rödd þeirra innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Komdu í fótbolta með Mola

Stærsta útbreiðsluverkefni ársins 2022 var verkefni sem bar yfirskriftina Komdu í fótbolta með Mola. Siguróli Kristjánsson, betur þekktur sem Moli, var ráðinn til starfa. Verkefnið fól í sér heimsóknir til minni sveitarfélaga um land allt og hafði Moli umsjón með verkefninu. Þar setti hann upp æfingu/viðburð á hverjum stað, með það fyrir augum að efla áhuga iðkenda. Verkefnið stóð yfir frá maí til ágúst. Alls heimsótti Moli 48 staði og hitti tæplega 1100 börn og unglinga, ásamt fjölmörgum þjálfurum og forráðamönnum á ferð sinni um landið. KSÍ kann bestu þakkir þeim sveitarfélögum sem tóku vel á móti Mola. Þetta var fjórða árið í röð sem Moli fer um landið og heimsækir börn og unglinga í minni sveitarfélögum.

Einelti, samskipti og forvarnir

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hélt þrjá viðburði á árinu sem báru heitið Einelti, samskipti og forvarnir. Viðburðirnir fóru fram í Reykjavík, á Egilsstöðum og á Akureyri.

Fótbolti fyrir alla

Í nóvember 2022 stóð KSÍ fyrir vinnustofu þar sem umfjöllunarefnið var um fótbolta fyrir alla; göngubolti, fótbolta fitness, „old boys“ og „old girls“. Erindi á vinnustofunni höfðu aðilar úr öllum þessum flokkum og var markmiðið að vekja athygli á þeim kostum sem fylgja því að bjóða upp á fótbolta fyrir þessa hópa. 

Afrakstur vinnustofunnar má finna á heimasíðu KSÍ:

Göngufótbolti

Göngufótbolti

Fótboltafitness

Fótboltafitness

Fótbolti fyrir eldri iðkendur

Fótbolti fyrir eldri iðkendur

Viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf

Viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs var gefin út á árinu. Markmið viðbragðsáætlunarinnar er að færa aðilum innan íþrótta- og æskulýðsfélaga og samtaka um allt land áætlun vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í slíku starfi. Í áætluninni er að finna verkferla sem skal fylgja þegar upp koma atvik eða áföll í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Dæmi um atvik sem viðbragðsáætlunin nær til eru slys, veikindi, náttúruhamfarir, einelti og ofbeldi. Einnig eru gagnlegar upplýsingar meðal annars um ferðalög, hinseginleika og fjölmenningu og inngildingu í félagsstarfi, öryggismál og skráningu atvika.

Welcome to your neighbourhood/Velkomin í hverfið ykkar

Í júní hlutu KR og Valur styrk frá UEFA vegna verkefnisins “Welcome to your neighbourhood / Velkomin í hverfið ykkar”. Félögin sendu inn sameiginlega umsókn og var umsóknin ein af 11 umsóknum í Evrópu sem hlutu styrk frá UEFA, en samtals voru umsóknirnar 23.

Verkefnið er samstarfsverkefni KR og Vals með það að markmiði að hjálpa flóttafólki að aðlagast samfélaginu í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ. Félögin ætla að vinna verkefnið með samvinnu skóla og Þjónustumiðstöðvar Miðborgar, Vesturbæjar og Hlíða. Félögin vilja virkja foreldra barna í þessum hópi og þannig vonast til að þau verði partur af samfélaginu og auka þannig líkurnar á þátttöku barna þeirra í knattspyrnu.

Aðildarsamböndum UEFA býðst að sækja um styrk í sérstakan sjóð vegna knattspyrnutengdra verkefna sem tengjast flóttafólki og hælisleitendum. Með sjóðnum, sem settur var á laggirnar árið 2017, eru knattspyrnusambönd í Evrópu hvött til að starfa með knattspyrnufélögum, samtökum eða öðrum aðilum sem starfa að málefnum flóttamanna og hælisleitenda í sínum löndum og stofna til knattspyrnutengdra verkefna sem styðja við samfélagslega aðlögun þeirra.

KSÍ gerir 5 ára samning við SoGreen

Merki SoGreen

KSÍ og sprotafyrirtækið SoGreen gerðu samning til fimm ára þess efnis að KSÍ kaupi kolefniseiningar af SoGreen.

SoGreen er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem er að hefja framleiðslu nýrrar tegundar kolefniseininga á heimsvísu: Kolefniseininga sem myndast með því að tryggja stúlkum í lágtekjuríkjum menntun. SoGreen hefur látið að sér kveða á hinum ört vaxandi íslenska kolefnismarkaði á undanförnum tveimur árum, m.a. með þátttöku í Snjallræði, hraðli á vegum Icelandic Startups (nú KLAK) og Höfða friðarseturs. Þá hlaut SoGreen Sprota - styrk Tækniþróunarsjóðs árið 2021 auk fjölda sjálfbærni- og frumkvöðlastyrkja fyrirtækja í íslensku atvinnulífi.

Frekar upplýsingar um samninginn
Augnablik ...