Samfélag

Árið 2023 birti Knattspyrnusamband Íslands nýja stefnu um samfélagsleg verkefni sem gildir til ársins 2026 og er hún hluti af heildarstefnumótun KSÍ. KSÍ lítur á það sem skyldu sína að nýta þann kraft sem býr í knattspyrnufjölskyldunni til að vera virkur þátttakandi í samfélagslegum verkefnum sem gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn.

Stefna KSÍ í samfélagslegum verkefnum

Konum í fótbolta fjölgar

Þriðjungur skráðra knattspyrnuiðkenda (leikmanna) á Íslandi er kvenkyns. Þegar kemur að öðrum hlutverkum í knattspyrnuhreyfingunni er hlutfall kvenna yfirleitt mun mun lægra. Síðastliðin ár hefur KSÍ keyrt átak á samfélagsmiðlum þar sem konur eru hvattar til að ganga til liðs við knattspyrnuhreyfinguna og hefja störf sem þjálfarar eða dómarar, sem starfsmenn eða sjálfboðaliðar félaga, og almennt til að vera virkir þátttakendur í knattspyrnuhreyfingunni. Í myndböndunum var rætt við þrjár konur sem eru einmitt virkir þátttakendur og sögðu þær frá sínu starfi og sinni reynslu af því að vera konur í fótbolta. Á þessum tæpu þremur árum sem myndböndin hafa verið í birtingu á miðlum KSÍ hafa þau samtals fengið um 150.000 áhorf og vakið athygli.

Þegar kynjahlutfall er skoðað síðustu ár má glögglega sjá mikla breytingu árið 2021 þegar kemur að fjölda kvenna í stjórn KSÍ, og breytir þá engu hvort eingöngu er skoðuð aðalstjórn, eða öll stjórnin (aðalstjórn, varamenn, landshlutafulltrúar). Konum hefur fjölgað ár frá ári í nefndum KSÍ frá árinu 2019, en hlutfallið lækkar þó aðeins á árinu sem leið. Ef litið er til starfsfólks á skrifstofu KSÍ má sjá að hlutfall kvenna hækkar jafnt og þétt á sama árabili. Kynjaskipting fulltrúa félaganna á ársþingum KSÍ hefur breyst verulega frá árinu 2019, þegar aðeins 1% þingfulltrúa voru konur (9 af 147), og var hlutfallið komið í 28% á ársþinginu 2023. Í rannsókn Helenu Jónsdóttur frá 2021 um stöðu kvenna í störfum innan knattspyrnuhreyfingarinnar sem unnin var í samstarfi við Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands (KÞÍ) og Íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík kom fram að hlutfall kvenna í stjórnum knattspyrnudeilda aðildarfélaga KSÍ var um 25%.

Þegar litið er til þjálfara og dómara er staðan og þróunin önnur. Þjálfurum með menntun frá KSÍ hefur fjölgað jafnt og þétt um nokkuð árabil (körlum og konum), en hlutfall kynjanna hefur haldist nokkurn veginn það sama. Konur hafa verið um það bil 17-18% menntaðra þjálfara, og er jafnframt rétt að nefna til glöggvunar að það hlutfall er afar ólíkt þegar horft er til þeirra þjálfaragráða sem eru í boði – því hærri sem gráðan er, því lægra er hlutfall kvenna. Áætlað er að um 700 þjálfarar séu virkir í starfi aðildarfélaganna og að 10% þeirra séu konur og hefur mjög lítil breyting átt sér stað síðustu ár hvað þetta varðar. Svipaða sögu er að segja þegar horft er til þeirra sem sækja dómaranámskeið hjá KSÍ. Hlutfall kvenna sem sækja dómaranámskeiðin er lágt og afar fáar konur eru virkar í dómarastörfum hjá aðildarfélögunum, þó þeim konum sem starfa sem dómarar fyrir KSÍ hafi fjölgað lítillega, eða úr 11 árið 2021 í 13 árið 2023.

Ársþing KSÍ
ÁrFjöldi
20191% (9 konur af 147)
202013%
2021Rafrænt þing 16%, Aukaþing 22%
202220%
202328%
Nefndaskipan KSÍ
ÁrFjöldi
201919%
202025%
202130%
202247%
202342%
Stjórn KSÍ (aðalstjórn, 10)
ÁrFjöldi
201920%
202020%
202140% seinni, 20% fyrri
202240%
202340%
Stjórn KSÍ (öll stjórnin, varamenn og aðalmenn landshluta)
ÁrFjöldi
201912%
202012%
202129% seinni, 12% fyrri
202241%
202344%
Starfsfólk KSÍ (skrifstofa og Laugardalsvöllur)
ÁrFjöldi
201919%
202020%
202122%
202222%
202329%

Jafnrétti innan KSÍ

KSÍ er bæði með jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun sem gilda út árið 2025.

Markmið með jafnréttisstefnu KSÍ er að allt jafnréttisstarf innan knattspyrnuhreyfingarinnar verði markvisst og skipulagt ferli sem fléttast inn í alla þætti knattspyrnunnar. Samþætting jafnréttissjónarmiða skal ávallt höfð til hliðsjónar. Þannig mun öllum knattspyrnuiðkendum verða gert kleift að stunda íþrótt sína og ná árangri án ytri breyta eins og kyns og annars sem orsakað getur mismunun milli einstaklinga. Knattspyrnuhreyfingin á að vera hreyfing sem gætir að hag allra sem innan hennar leika og starfa.

Í tengslum við jafnréttisstefnu KSÍ hefur sambandið sett upp jafnréttisverklag varðandi myndaval, fréttaskrif og almenna birtingu efnis á miðlum KSÍ. Verklaginu er lýst á vef KSÍ og er það hluti af samskiptastefnu KSÍ og heildarverklagi fyrir miðla KSÍ (vef og samfélagsmiðla) og annað útgefið efni.

Jafnréttisáætlun Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) er í samræmi við 5. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í áætluninni er tiltekið hvernig sambandið hyggst tryggja starfsfólki sínu þau réttindi sem tilgreind eru í 6.- 14. grein laganna. Auk laga nr. 150/2020 verða lög nr. 86/2018 höfð til hliðsjónar en í þeim kveður á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Nánar má lesa um jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun KSÍ á vef KSÍ

Jafnlaunastefna og jafnlaunastaðfesting

Jafnlaunastefna KSÍ kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja konum og körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismun (6. gr. laga nr. 150/2020).

Í jafnréttisáætlun KSÍ er farið nánar yfir markmið, aðgerðir, ábyrgð og tímaramma á þeim þáttum sem falla undir jafnlaunastefnuna.

Jafnlaunastefnan var samþykkt af stjórn KSÍ þann 11. september 2023 og veitti Jafnréttisstofa KSÍ jafnlaunastaðfestingu 26. september 2023 (gildir til september 2026).

Hægt er að lesa frekar um málið á vef KSÍ:

Vefur KSÍ

Komdu í fótbolta með Mola

Verkefnið Komdu í fótbolta með Mola fór fram fimmta sumarið í röð. Verkefnið hefur aldrei verið stærra og heimsótti Siguróli Kristjánsson, betur þekktur sem Moli, 58 staðir og hitti þar samtals 1695 krakka. Verkefnið er samstarfsverkefni KSÍ og Landsbankans þar sem Moli heimsækir minni sveitarfélög í kringum landið og setur upp skemmtilegar fótboltaæfingar fyrir krakkana á svæðinu. Markmiðið er að efla áhuga á fótbolta og styðja við bakið á knattspyrnustarfinu á svæðinu. KSÍ kann bestu þakkir þeim sveitarfélögum sem tóku vel á móti Mola.

Fótbolti fyrir alla

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var ráðin í sumarstarf sumarið 2023. Hennar helsta verkefni var að bjóða upp á fótboltaæfingar fyrir einstaklinga með fatlanir. Gunnhildur heimsótti heimsótti 23 sumarbúðir og félagsmiðstöðvar þar sem hún hitti um 300 börn og unglinga með sérþarfir. Í heimsóknunum var gleðin við völd og aðalatriðið var að allir þátttakendur fengu verkefni við sitt hæfi.

Í lok september héldu KSÍ, Special Olympics og Háskóli Íslands fótboltafjör fyrir einstaklinga með sérþarfir. Nemendur úr Íþróttafræðideild Háskóla Íslands settu upp fjölbreyttar þrautir og leiki og var áhersla lögð á að allir gætu tekið þátt. Moli tók einnig þátt í fjörinu.

Þann 19. maí var haldin kynning á fótbolta fitness. Magni Mohr, doktor í þjálfunarlífeðlisfræði, hélt erindi. Magni hefur komið að ýmsum rannsóknum um áhrif fóbolta á líkamlega heilsu eldri leikmanna og hvernig nota megi þetta tiltekna form fótboltans sem líkamsrækt. Kynningin var bæði bókleg og verkleg þar sem Magni setti upp æfingu á Laugardalsvelli fyrir fótbolta fitness lið frá Færeyjum sem var í heimsókn hér á landi.

KSÍ, Blindrafélagið og Samtök íþróttafréttamanna skrifuðu í september undir samstarfssamning vegna sjónlýsingar á A landsleikjum Íslands í fótbolta.  Samningurinn felur í sér að félagsmenn Blindrafélagsins geta sótt um þjónustuna á öllum landsleikjum á Laugardalsvelli hjá A landsliðum karla og kvenna í fótbolta. Fyrsta sjónlýsingin á knattspyrnuleik á Íslandi fór fram þann 17. júní þegar A landslið karla tók á móti Slóvakíu í undankeppni EM 2024. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson sá um lýsinguna á vegum Samtaka íþróttafréttamanna.

Dagur barna og unglingaráða

Ráðstefnan “Deilum því sem vel er gert” þar sem barna- og unglingaráð, og aðrir sem tengjast yngri flokka starfi komu saman, var haldin í höfuðstöðvum KSÍ laugardaginn 14. janúar 2023. Markmiðið með ráðstefnunni var að félögin myndu læra hvert af öðru og koma af stað samtali sín á milli. Átta erindi voru á dagskrá: Yfirþjálfarar yngriflokka, dómaramál, sjálfboðaliðar, fjáraflanir, Norðurálsmótið, hugarþjálfun hjá Þór Akureyri, skipting yngri flokka Stjörnunnar í Stjörnustarf og afreksstarf og að lokum ræddi Jörundur Áki Sveinsson sviðsstjóri knattspyrnusviðs um landsliðsstigann og fleira sem tengist yngri landsliðum.

Yfirlýsing um hinsegin mál og fræðslumál

KSÍ, BLÍ, FSÍ, FRÍ, HSÍ, KKÍ og SSÍ sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau tóku undir yfirlýsingu ríkis, borgar og annarra samtaka um hinsegin mál og fræðslumál. Í yfirlýsingunni sagði: „Íþróttastarf gengur ekki bara út á að kenna börnum og unglingum iðkun íþróttagreina. Íþróttahreyfingin gegnir mikilvægu uppeldishlutverki gagnvart þessum ungu iðkendum og í starfinu er ekki síður unnið markvisst að því að kenna góð gildi sem má taka með sér út í lífið.

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að börn eigi rétt á gæðamenntun, heilsuvernd, vernd gegn ofbeldi og upplýsingum um þau málefni sem þau varða. Við viljum að börn og unglingar, þátttakendur í okkar íþróttastarfi, finni fyrir öryggi, trausti og hvatningu til góðra verka og að þau finni að við höfum þeirra farsæld, velferð, heilbrigði og hag að leiðarljósi.

Football without borders – football for all

Keflavík og Njarðvík fengu sameiginlegan styrk frá UEFA vegna verkefnisins „Football without borders – Football for all“. Verkefnið hlaut styrk úr sjóðnum UEFA Football and Refugee Grant. Öll aðildarsambönd UEFA geta sent inn eina umsókn á ári og fá ákveðin verkefni styrk.

Verkefnið er samstarfsverkefni Keflavíkur og Njarðvíkur með það að markmiði að bjóða öllum innflytjendum sem vilja taka þátt í fótbolta að gera það. Félögin bjóða upp á fótboltaæfingar 2-3 sinnum í viku í eitt ár. Þjálfari var ráðinn úr röðum innflytjenda til að sjá um æfingarnar sem fara fram að Ásbrú.

SoGreen og KSÍ

Sogreen og KSÍ

KSÍ hefur fest kaup á 485 óvirkum kolefniseiningum sem framleiddar eru með verkefni sem hófst í janúar 2023 og á næstu þremur árum mun KSÍ kaupa fleiri einingar af sama verkefni. Einingarnar eru skráðar óvirkar á meðan verkefnið er í framkvæmd, en að því loknu, þegar loftslagsávinningurinn hefur átt sér stað og vottun hefur farið fram, verða þær skráðar virkar. Þá mun KSÍ formlega geta afskráð þær og talið gegn eigin losun gróðurhúsalofttegunda; ein kolefniseining á móti einu tonni losunar.

Uppfærsla á sjálfbærnistefnu KSÍ

Landsbankinn mun á árinu vera ráðgjafi KSÍ við uppfærslu á sjálfbærnistefnu sambandsins eins og kveður á um í síðasta samningi KSÍ og Landsbankans. Markmiðið með uppfærslunni er að snerta enn frekar á sjálfbærni innan sambandsins, þ.e innan skrifstofunnar.

Fótboltafjör KSÍ, Special Olympics og HÍ

Fótboltafjör KSÍ, Special Olympics og HÍ var haldið í september. Var fótboltafjörið fyrir einstaklinga með sérþarfir og settu nemendur úr Íþróttafræðideild HÍ upp þrautir og leiki þar sem lögð var áhersla á að allir gætu tekið þátt.

Sjónlýsing á A landsleikjum

KSÍ, Blindrafélagið og Samtök íþróttafréttamanna skrifuðu undir samstarfssamning vegna sjónlýsingar á A landsleikjum Íslands í fótbolta. Samningurinn felur í sér að félagsmenn Blindrafélagsins geta sótt um þjónustuna á öllum landsleikjum á Laugardalsvelli hjá A landsliðum karla og kvenna í fótbolta.

Skrifað undir vegna sjónlýsingar

Geðveikur fótbolti með FC Sækó

KSÍ var í samstarf við knattspyrnufélagið FC Sækó á árinu. Um er að ræða vitundarátak undir heitinu "Geðveikur fótbolti með FC Sækó".

Knattspyrnuverkefnið FC Sækó "Geðveikur fótbolti“ byrjaði í nóvember 2011 sem samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, Velferðarsviðs Reykjavíkur og geðsviðs Landspítalans. FC Sækó knattspyrnufélag var stofnað árið 2014 og er það skipað notendum geð- og velferðarkerfisins, starfsmönnum þess og öðrum sem hafa áhuga á að styðja við verkefnið.

Tilgangur FC Sækó er að efla og auka virkni notendahóps fólks með geðraskanir og gefa þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu sem og að draga úr fordómum.  Markmið FC Sækó er fyrst og fremst að efla andlega og líkamlega heilsu fólks, vera sýnileg og hafa gaman. Á æfingum eða í leikjum eru allir jafnir og þannig styðjum við hvort annað og drögum úr fordómum. Það eru allir velkomnir að æfa og/eða spila með FC Sækó, konur og karlar, fólk sem tengist geð- eða velferðarsviði og/eða úrræðum því tengdu eða aðrir.

Hlutverk KSÍ í samstarfinu er að vekja athygli á og styðja við starfsemi FC Sækó með ýmsum hætti og að vekja athygli á því hvernig þátttaka í fótbolta (eða skipulögðum íþróttum almennt) getur haft jákvæð áhrif á líðan einstaklinga með geðraskanir.

Háttvísisverðlaun Landsbankans og KSÍ

Háttvísisviðurkenningum Landsbankans og KSÍ var úthlutað í sumar. Öllum félögum sem skipuleggja mót í yngri flokkum bauðst að fá viðurkenningar til afhendingar. Samtals voru 36 verðlaun afhent á 17 mótum um allt land.

Tengiliður við fatlaða stuðningsmenn

Tengiliður milli fatlaðra stuðningsmanna landsliða Íslands í knattspyrnu og KSÍ (DAO) er skipaður af KSÍ.  DAO þarf að hafa þekkingu á því umhverfi sem stuðningsmenn lifa og hrærast í og vera sérstakur áhugamaður um málefni fatlaðra stuðningsmanna.  DAO er sjálfboðaliði í þessu hlutverki og þiggur ekki laun fyrir.

Hlutverk tengiliðs við fatlaða stuðningsmenn er að halda utan um stuðning/aðstoð við fatlaða stuðningsmenn. DAO fylgist með því að boðið sé upp á aðgengilega aðstöðu og þjónustu á landsleikjum, s.s. aðgengi að viðburðinum sjálfum (miðar og annað), aðgengi að salerni, aðgengi að veitingum og annarri aðstöðu og þjónustu. DAO þarf einnig að fylgjast með því að aðgengi að upplýsingum sé eins og best verður á kosið. DAO starfar í nánum tengslum við öryggisstjóra í aðdraganda leikja og á leikdegi eins og þörf er talin á. Skarphéðinn Guðmundsson er tengiliður KSÍ við fatlaða stuðningsmenn landsliða.

Verndarar barna

KSÍ og Barnaheill – Save the Children á Íslandi sömdu á vormánuðum 2022 um tveggja ára samstarf um fræðsluverkefnið Verndarar barna með það að markmiði að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum, þekkja einkenni ofbeldis og læra að bregðast við. Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn verður eitt af hverjum fimm börnum á Íslandi fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur.

Á árinu 2023 hélt Barnaheill 10 námskeið sem 119 einstaklingar sóttu. Verkefnið heldur áfram fram á haustið 2024. Öll þau sem koma á einhvern hátt að knattspyrnustarfi barna eru hvött til að mæta á fræðslu hjá sínu félagi. Starfsfólk á skrifstofu félagsins, þjálfarar, húsverðir, sjálfboðaliðar, foreldrar og allir sem finnst þeir eiga erindi. Fræðslan tekur fjóra klukkutíma og er aðildarfélögum KSÍ að kostnaðarlausu.

Nánar um verkefnið Verndarar barna

Ungmennaráð KSÍ

Ungmennaráð KSÍ var stofnað út frá Ungmennaþingi KSÍ sem haldið var í lok árs 2022. Fyrsti fundur ráðsins fór fram þann 27. apríl. Á árinu voru haldnir þrír fundir. Áætlað er að halda næsta ungmennaþing í apríl 2024.

Augnablik ...