Árið sem leið
Knattspyrnufólk ársins
Leikmannaval KSÍ valdi Glódísi Perlu Viggósdóttur og Hákon Arnar Haraldsson knattspyrnufólk ársins 2022. Þetta var í 19. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.
Glódís Perla Viggósdóttir er Knattspyrnukona ársins í fyrsta skipti. Hún var fastur hlekkur í vörn Bayern München og íslenska landsliðsins á árinu, líkt og áður. Á síðastliðnu keppnistímabili lenti Bayern München í öðru sæti í þýsku úrvalsdeildinni og komst í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.
Liðið er í toppbaráttu þýsku úrvalsdeildarinnar og er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Glódís Perla lék 11 leiki með landsliðinu á árinu, þar af var hún í byrjunarliðinu í öllum þremur leikjum liðsins á EM í Englandi.
Það má með sanni segja að Hákon Arnar Haraldsson hafi komið fram á sjónarsviðið með miklum krafti á árinu, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er valinn Knattspyrnumaður ársins.
Á sínu fyrsta heila keppnistímabili í meistaraflokki vann hann dönsku úrvalsdeildina með FCK, komst alla leið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem hann varð fjórði Íslendingurinn til að skora í keppninni, og svo lék hann fyrstu A-landsleiki sína, sjö talsins.
Glódís Perla í 2. sæti í vali íþróttamanns ársins
Glódís Perla Viggósdóttir lenti í 2. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins árið 2022, en hún fékk 276 stig.
Sandra Sigurðardóttir, markmaður íslenska landsliðsins og Íslands- og bikarmeistara Vals, lenti í 6. sæti í kjörinu.
A-landslið kvenna lenti í þriðja sæti í kjörinu á liði ársins og var kvennalið Vals í fótbolta og karlalið Breiðabliks í fótbolta með jafnmörg stig í 4. sæti sem lið ársins.
Úthlutað til 22 verkefna úr Mannvirkjasjóði KSÍ
Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í júní úthlutun úr mannvirkjasjóði KSÍ. Þetta var í fimmtánda skiptið sem úthlutað er úr sjóðnum, en ný reglugerð um sjóðinn tók gildi í byrjun árs 2012. Alls var úthlutað til 22 verkefna, samtals 30 milljónir.
Leikmannasamtök Íslands viðurkennd af FIFPro
Leikmannasamtök Íslands voru formlega tekin inn í FIFPro, alþjóðlegu leikmannasamtökin, í nóvember á síðasta ári.
FIFPro var stofnað árið 1965 og njóta yfir 65.000 leikmenn góðs af þjónustu FIFAPRO og leikmannasamtaka víðs vegar um heiminn.
FIFPro er viðurkennt af FIFA og UEFA og viðurkennir aðeins ein leikmannasamtök í hverju landi fyrir sig. Innganga Leikmannasamtaka Íslands í FIFPro er því gríðarleg viðurkenning fyrir það starf sem unnið hefur verið fyrir leikmenn á Íslandi.
Formaður KSÍ á fundi UEFA: „Raddir kvenna þurfa að heyrast“
Í október var dregið í riðla fyrir undankeppni EM karla 2024. Drátturinn fór fram í Frankfurt í Þýskalandi og í tengslum við hann voru haldnar ýmsar vinnustofur og fundir, m.a. fundur formanna og framkvæmdastjóra knattspyrnusambanda innan UEFA.
Á fundinum voru ýmis sameiginleg málefni aðildarlanda UEFA rædd og flutti formaður KSÍ, Vanda Sigurgeirsdóttir, erindi þar sem viðfangsefnið var fjölgun kvenna í nefndum og stjórn UEFA. Í 19 nefndum á vegum UEFA eru samtals 394 nefndarmenn og aðeins 52 þeirra (13%) eru konur, og þar af sitja 18 af þessum 52 í sérstakri nefnd UEFA um kvennaknattspyrnu.
Vanda: “Ég hef unnið að þessu viðfangsefni mánuðum saman og ræddi málið við forseta UEFA í apríl á þessu ári. Ég tók þetta einnig upp á fundi Norðurlandanna í ágúst og fékk fullan stuðning við að taka málið áfram á vettvangi UEFA. Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð hjá KSÍ þar sem 47% nefndarmanna eru konur, og svo má líka geta þess að hlutfall kvenna á meðal þingfulltrúa á ársþingum okkar hefur vaxið stöðugt síðustu ár og aldrei hafa fleiri konur setið þingið en í febrúar á þessu ári, fyrir það ber að hrósa aðildarfélögum KSÍ.”
Í framhaldi af umfjöllun um málið á fyrrgreindum fundi UEFA og aðildarlandanna var ákveðið að stofna starfshóp og strax lýstu nokkur aðildarlönd UEFA víðsvegar úr Evrópu yfir áhuga á að fá sæti í hópnum, m.a. Portúgal, sem mætti einmitt Íslandi í umspili um sæti á HM kvenna 2023 nýlega. Hópurinn hefur nú þegar verið skipaður.
Vanda: “Það er einlæg von okkar hjá KSÍ og mörgum öðrum knattspyrnusamböndum að þessi vinna verði til þess að konum fjölgi í nefndum og stjórn UEFA. Raddir kvenna þurfa að heyrast þar sem ákvarðanir eru teknar og það er mín upplifun að það sé einnig vilji UEFA.”
Kynjahlutfall í stjórn KSÍ og meðal starfsfólks
Áhugavert er að skoða kynjahlutfall í stjórn KSÍ og meðal starfsfólks KSÍ. Í stjórn KSÍ er kynjahlutfallið 40% konur og 60% karlar. Á meðal starfsfólks KSÍ (skrifstofa og Laugardalsvöllur) er skiptingin 22% konur og 78% karlar.
Konum í leiðtogahlutverkum fjölgar
Á vef Knattspyrnusambands Evrópu var á árinu sem leið fjallað um fjölgun kvenna í leiðtogahlutverkum innan knattspyrnuhreyfingarinnar í Evrópu. Á meðal þeirra kvenna sem fjallað var sérstaklega um og rætt við voru Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ. Lausleg þýðing af vef UEFA: "Konum í leiðtogahluverkum innan evrópskrar knattspyrnu fer fjölgandi – og nokkrir frumkvöðlar eru öðrum konum sem hafa áhuga á að starfa innan knattspyrnugeirans innblástur".
Markmannsskóli KSÍ
Í nóvember var Markmannsskóli KSÍ haldinn á Selfossi. Að þessu sinni var þremur hópum boðið í Markmannsskólann; drengjum og stúlkum fædd 2009 og einnig drengjum fæddum 2008, þar sem þeir misstu af þessu tækifæri árið 2021 sökum Covid-19 og samkomutakmarkana á þeim tíma. Ungmennafélagið Selfoss sá um utanumhald og æfingar voru í höndum Fjalars Þorgeirssonar, yfirmarkmannsþjálfara yngri landsliða Íslands. Alls mættu 71 markvörður til leiks. Vel þótti takast til og vill KSÍ koma á framfæri bestu þökkum til UMF Selfoss fyrir samstarfið.
Iðkendafjöldi
ÍSÍ tekur árlega saman tölfræði yfir iðkanir hjá sérsamböndunum. ÍSÍ á í samstarfi við Sportabler um öflun gagna og tölfræði um iðkanir, en Sportabler leysti Felix af hólmi og er ætlað að gefa skýrari mynd iðkenda- og iðkanatölum í íþróttahreyfingunni.
Tölur sem birtar voru í árslok 2022 voru fyrir árið 2021. KSÍ er það sérsamband sem er með flestar iðkanir allra sérsambanda innan ÍSÍ. Í tölum sem birtar voru í desember 2022 segir að iðkanir í knattspyrnu hafi verið 28.285 talsins.
Æfingar yngri landsliða í Miðgarði næstu þrjú árin
KSÍ hefur samið um æfingaaðstöðu fyrir yngri landslið Íslands í fjölnota íþróttahúsinu Miðgarði í Vetrarmýri í Garðabæ, sem opnaði formlega í febrúar árið 2022. Fyrstu KSÍ-æfingarnar í húsinu voru á dagskrá í september (Hæfileikamótun drengja) og framundan í október eru æfingar yngri landsliða. Samningur KSÍ við sveitarfélagið Garðabæ, sem á og rekur Miðgarð, er til næstu þriggja ára.
Æfingar yngri landsliða síðustu þrjú árin hafa verið í Skessunni í Kaplakrika í Hafnarfirði. KSÍ þakkar FH kærlega fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf og óskar félaginu alls hins besta.
Kristinn vallarstjóri ársins
Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, var fyrr í vetur valinn vallarstjóri ársins 2021 af félagsmönnum SÍGÍ samtakanna. Verðlaunin voru veitt í vikunni. Þetta er í fimmta sinn sem Kristinn hlýtur þessa nafnbót.
SÍGÍ (Samtök íþrótta og golfvallastarfsmanna á Íslandi) eru samtök sem stuðla að fagmennsku hjá félagsmönnum sínum og sér þeim fyrir sem bestum upplýsingum til að auðvelda þeim starf sitt á golf- og íþróttavöllum á Íslandi.
Samið við FootoVision
KSÍ hefur samið við FootoVision um notkun á hugbúnaði fyrirtækisins við gagnasöfnun og leikgreiningu í tengslum við leiki landsliða (optical tracking). KSÍ samdi við FootoVision til reynslu um mitt ár 2021 og nú hefur verið undirritaður samstarfssamningur sem gildir til ársloka 2023.
KSÍ hefur markvisst verið að taka skref í því að þróa og styrkja tölfræðilega þáttinn í umgjörð landsliða og er samningurinn við FootoVision hluti af þeirri vegferð.
KSÍ samdi við Wyscout um Lengjudeild kvenna og 3. flokk karla og kvenna
KSÍ samdi við Wyscout um að greina Lengjudeild kvenna tímabilið 2022 ásamt því að greina leiki í A-riðlum Íslandsmóts 3. flokks karla og kvenna.
Þessi samningur gerir þjálfurum og félögum kleift að greina andstæðinga og sína eigin leikmenn. Þetta gefur þjálfurum félaganna einnig þann möguleika á að sjá alla leiki sem fram fara í deildinni, hvar sem er á landinu.
N1 endurnýjar stuðninginn við KSÍ
N1 og KSÍ hafa endurnýjað samstarf sitt til næstu tveggja ára. Fyrsti samstarfssamningurinn þeirra á milli var undirritaður árið 2014 og felur samningurinn í sér að N1 verði áfram einn helsti bakhjarl KSÍ í bæði kvenna- og karlaknattspyrnu, auk þess að styðja við unga knattspyrnuiðkendur um allt land.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ:
„N1 hefur til fjölda ára verið helsti stuðningsaðili KSÍ og því ríkir mikil ánægja með endurnýjun samstarfsins. Stuðningur félagsins hefur haft virkilega jákvæð og kraftmikil áhrif á íslenska knattspyrnu, bæði framgang karla- og kvennalandsliða á alþjóðlegum vettvangi og uppbyggingarstarf innan ungliðastarfs KSÍ. Það eru spennandi tímar fram undan í íslenskri knattspyrnu og hlökkum við til að styðja enn betur við íþróttina með dyggri aðstoð frá N1.“
Samstarfssamningur Icelandair og KSÍ endurnýjaður
Icelandair og KSÍ endurnýjuðu á árinu samstarfssamninginn og var skrifað undir samninginn á Keflavíkurflugvelli við brottför A landsliðs kvenna á EM 2022. Með samstarfinu mun Icelandair styðja áfram dyggilega við starf KSÍ og starf landsliða Íslands en rekstur landsliða felur í sér mikil og kostnaðarsöm ferðalög um allan heim.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ: „Við erum afar ánægð með að endurnýja samninginn við Icelandair, sem hefur stutt dyggilega við starf KSÍ og við íslensku landsliðin um langt árabil. Ferðalög landsliða eru auðvitað stór þáttur í okkar starfsemi og samstarfið við Icelandair er og hefur verið ómetanlegt.“
Sara Björk lagði landsliðsskónna á hilluna
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði A landsliðs kvenna, lagði landsliðsskónna á hilluna á árinu.
Sara Björk lék á sínum ferli 145 A landsleiki og skoraði í þeim 24 mörk. Hún tók þátt í öllum fjórum lokamótum EM sem A kvenna hefur komist á, árin 2009, 2013, 2017 og 2022.
Takk fyrir allar minningarnar Sara Björk!
Ný landsliðstreyja gefin út
Ný útgáfa af heima-landsliðstreyju íslensku landsliðanna var gefin út á árinu. Seinna á árinu var síðan vara-landsliðstreyjan birt.
A landslið kvenna lék svo í sérstakri blárri EM-treyju í úrslitakeppni EM á Englandi í sumar.
KSÍ semur við Hudl
KSÍ hefur samið við greiningarfyrirtækið Hudl um að nýta Hudl-lausnir fyrir íslensku knattspyrnulandsliðin. Hudl er í fararbroddi á sviði lausna fyrir greiningar og frammistöðumat í afreksíþróttum og nýtist þjálfurum jafnt sem leikmönnum í knattspyrnu og öðrum íþróttum við að ná og halda forskoti í samkeppnisumhverfi.
A landslið kvenna á RÚV næstu 3 ár
KSÍ og RÚV skrifuðu undir samning um sýningarrétt á leikjum A landsliðs kvenna annars vegar og leikjum Mjólkurbikars karla og kvenna hins vegar. Samningurinn gildir til næstu 3 ára.
„Þetta er bara frábær samningur og við erum mjög ánægð. Okkur finnst bara það bara frábært að stelpurnar okkar, kvennalandsliðið, skuli vera komið í sjónvarp allra landsmanna þar sem allir geta fylgst með þeim þessum frábæru fyrirmyndum. Við gætum ekki verið ánægðari“ segir Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ af þessu tilefni.