Árið sem leið

Glódís og Hákon knattspyrnufólk ársins 2023

Glódís Perla

Myndir - Mummi Lú

Glódís Perla Viggósdóttir og Hákon Arnar Haraldsson eru knattspyrnufólk ársins 2023 samkvæmt niðurstöðu Leikmannavals KSÍ. Kjörið var afgerandi í báðum tilfellum.

Hákon Arnar

KSÍ sækir um að halda ársþing UEFA 2027

Á fundi sínum 14. júní síðastliðinn samþykkti stjórn KSÍ að sækja um að ársþing Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) árið 2027 verði haldið á Íslandi í tengslum við 80 ára afmæli KSÍ 26. mars það ár.

Í fundargerð stjórnar kemur fram að áætlaður kostnaður KSÍ af verkefninu yrði lítill og að "það yrði mikill heiður og viðurkenning fyrir KSÍ að fá slíkt verkefni til landsins".

KSÍ TV í sjónvarpi Símans

KSÍ í Sjónvarpi Símans

KSÍ hefur unnið hörðum höndum að því síðustu ár að byggja upp og þróa KSÍ TV. Það var stór áfangi þegar samstarf hófst við Símann í byrjun árs 2024 um að KSÍ TV verði með sína eigin efnisveitu í Sjónvarpi Símans. Þar verða sýndir allir leikir landsliða sem eru framleiddir fyrir sjónvarp/streymi og ekki eru réttindavarðir. Einnig verða sýndir þar aðrir viðburðir eins og við á (ársþing, fræðsluviðburðir, o.fl.).

Fyrstu leikirnir sem sýndir voru á KSÍ TV í sjónvarpi Símans voru tveir leikir U19 kvenna í alþjóðlegu móti í Portúgal, sem leikið var á æfingasvæði portúgalska knattspyrnusambandsins, Cidade de Futebol. Næst á dagskrá KSÍ TV eru leikir U17 kvenna í seinni umferð undankeppni EM 2024, en riðillinn er einmitt líka leikinn í Portúgal.

KSÍ TV í Sjónvarpi Símans er aðgengilegt í gegnum netvafra, og Sjónvarp Símans appið. Aðgangurinn er ókeypis, en skrá þarf símanúmer og nota rafræn skilríki, og búa þannig til aðgang.

Smellið á hlekkinn hér að neðan til að fara á KSÍ TV í sjónvarpi Símans í gegnum vafra.

KSÍ í Sjónvarpi Símans

Sálfræði í knattspyrnu

Undanfarin ár hafa Knattspyrnusamband Íslands og Háskólinn í Reykjavík verið í samstarfi varðandi mælingar á hugrænni færni leikmanna æfingahópa Íslands í knattspyrnu. Í kjölfarið var ákveðið að gera sambærilegar mælingar á öllum 16 ára knattspyrnuiðkendum landsins. Markmiðið með þessum mælingum er að auka vitund leikmanna, þjálfara og foreldra á hugrænum þáttum í knattspyrnu, og hvernig þessir þrír hópar geta stuðlað að bætingu leikmanna á þessu sviði.

Í framhaldi af þessum mælingum var gefin út bók sem nefnist „Sálfræði í Knattspyrnu“. Bókin er hugsuð sem grunnfræðsla á þessum hugrænu þáttum, og hvernig leikmenn geta farið að stunda hugræna færnisþjálfun sjálfir með aðstoð þjálfara og foreldra. Bókin á því jafnt við um leikmenn sem og þjálfara og foreldra, enda skiptir stuðningur þeirra við leikmanninn og manneskjuna sem þar er á bakvið miklu máli.

Ritstjóri er Grímur Gunnarsson, sálfræðingur Knattspyrnusambands Íslands.

Hægt er að lesa frekar um málið á vef KSÍ, en bókina er einnig að finna þar.

Sálfræði í knattspyrnu

Lágmarksstaðlar fyrir A landslið kvenna í Evrópu

Marki fagnað gegn Wales

UEFA kynnti á árinu lágmarksstaðla fyrir A landslið kvenna í Evrópu. Markmiðið með stöðlunum er að auka gæði, þróa og styðja við A landslið kvenna í Evrópu.

Staðlarnir, sem framkvæmdastjórn UEFA samþykkti einróma, ná yfir íþróttina, stjórnarhætti, æfingar, læknisþjónustu, þjálfun, velferð leikmanna, gistiaðstöðu og þóknun.

Hér má sjá dæmi um þá staðla sem þarf að uppfylla:

  • Aðalþjálfari í fullu starfi með UEFA Pro þjálfaragráðu.
  • Að minnsta kosti einn læknir og tveir sjúkraþjálfarar þurfa að vera á öllum æfingum og í öllum leikjum.
  • Ferðast þarf í leiki eins beina leið og hægt er.
  • Hágæða gistiaðstaða nálægt æfinga/keppnisvöllum.
  • Nýta þarf landsliðsglugga til hins ítrasta.
  • Aðgengi að æfingaaðstöðu landsliða, gæðabúnaði til æfinga og völlum í umsjón fagaðila.
  • Samningur á milli leikmanna og sérsambands um kjör, meðgöngu og foreldrastefnu og jafnrétti.

Hvert sérsamband fær 100.000 evrur, sem samsvarar um 14,5 milljónum króna, á ári til ársins 2028 til að uppfylla staðlana.

Hægt er að lesa nánar um staðlana á heimasíðu UEFA með því að smella hér.

A karla á Stöð 2 Sport

Síðastliðið sumar var greint frá því að leikir A landsliðs karla yrðu sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport frá og með haustinu.

Stöð 2 Sport tryggði sér sýningarréttinn að leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu næstu árin. Í fréttatilkynningu frá Sýn kom fram að það megi "með sanni segja að strákarnir okkar séu komnir aftur heim".

Jóhann Króknes Torfason sæmdur heiðurskrossi KSÍ

Jói Torfa heiðraður

Á 77. ársþingi KSÍ sem haldið var á Ísafirði laugardaginn 25. febrúar var Jóhann Króknes Torfason sæmdur heiðurskross KSÍ.

Heiðurskross, úr gulli í borða með íslensku fánalitunum, er æðsta heiðursmerki KSÍ og veitist hann aðeins undir alveg sérstökum kringumstæðum þeim einstaklingum, sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni ómetanlegt gagn.

Á stjórnarfundi KSÍ þann 9. febrúar síðastliðinn samþykkti stjórn KSÍ að sæma Jóhann Króknes Torfason heiðurskross KSÍ.

Jóhanni Torfasyni er fótbolti í blóð borinn og hann hefur verið virkur þátttakandi í íþróttinni allt sitt líf, allt frá því að vera leikmaður og til þess að vera stjórnarmaður í sínu félagi og nefndar- og stjórnarmaður hjá KSÍ.

Jói Torfa hefur um langt árabil starfað að framgangi íslenskrar knattspyrnu, hefur átt stóran þátt í uppbyggingu knattspyrnustarfs á Ísafirði, verið ötull baráttumaður fyrir knattspyrnuna á landsbyggðinni, og lagt mikið af mörkum á vettvangi KSÍ, sér í lagi þegar kemur að verkefnum yngri landsliða. Jóhann Torfason hefur gert knattspyrnuíþróttinni ómetanlegt gagn.

Þess má geta að Jóhann var einnig sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ sama dag fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar á Vestfjörðum, knattspyrnuhreyfingarinnar og ÍSÍ.

Bókun stjórnar KSÍ vegna aðstöðumála A landsliðanna

Laugardalsvöllur í snjó

Á fundi stjórnar KSÍ 31. október var rætt um stöðu mála varðandi mögulega umspilsleiki A landsliða karla og kvenna fyrri part ársins 2024. Annars vegar mögulegt umspil A landsliðs karla í mars 2024 vegna EM í Þýskalandi, hins vegar mögulegt umspil A landsliðs kvenna í febrúar út frá lokaniðurstöðu í Þjóðadeild UEFA.

Eftirfarandi var bókað á fundinum:

Stjórn KSÍ harmar ákaflega þá stöðu sem íslensk knattspyrna er í vegna aðstöðuleysis, þrátt fyrir alla þá vinnu sem hefur verið unnin undanfarin ár. Það er þungbær ákvörðun fyrir stjórn KSÍ að samþykkja að óska formlega eftir því við UEFA að mögulegur heimaleikur A landsliðs karla í mars 2024 verði leikinn á hlutlausum velli utan Íslands enda eru aðstæður ekki fyrir hendi til að leika þann leik hérlendis. Þá samþykkti stjórn KSÍ enn fremur að sækja um undanþágu frá UEFA fyrir mögulegan heimaleik A landsliðs kvenna í febrúar 2024.

Frumáætlun um endurbætur á Laugardalsvelli

Á fundi stjórnar KSÍ 29. nóvember var m.a. rætt um málefni Laugardalsvallar og aðstöðuleysi vegna haustleikja og vetrarleikja félagsliða og landsliða.

Rætt var um kostnað við leiki Breiðabliks í Sambandsdeildinni og til hvaða aðgerða KSÍ hafði gripið til að reyna að lágmarka kostnað sambandsins, og um leikvöll fyrir umspilsleik A landsliðs kvenna í febrúar 2024. Stjórnin samþykkti á fundinum að gefa framkvæmdastjóra KSÍ umboð til að óska eftir heimild UEFA til að leika heimaleik Íslands erlendis.

Lögð var fram frumáætlun um endurbætur á Laugardalsvelli sem Þorbergur Karlsson úr mannvirkjanefnd KSÍ vann fyrir stjórn KSÍ, þar sem er m.a. farið yfir kröfur UEFA og FIFA, greind voru möguleg vallaryfirborð (gras, hybrid gras og gervigras), farið yfir nauðsynlegar og löngu tímabærar endurbætur innanhúss, kostnaður greindur og tímaáætlun lögð fram.

Leitað að leikvelli erlendis fyrir A landsliðin

Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum 9. febrúar 2023 að fela framkvæmdastjóra KSÍ að kanna mögulega leikstaði erlendis sem valkosti fyrir heimaleiki A landsliða Íslands ef til þess kemur að liðin þurfi að leika í umspilsleikjum í febrúar/mars á næstu árum. KSÍ upplýsti UEFA um bókun stjórnar og stöðuna.

Legið hafði fyrir í nokkurn tíma að umspilsleikir A landsliðs karla yrðu leiknir í marsmánuði (heima og/eða heiman) og skemmst er að minnast EM-umspilsleiks sem karlaliðið átti að leika við Rúmeníu á Laugardalsvelli í mars 2020, sem ekki varð þó af vegna Covid-faraldursins. KSÍ hafði lagt í umtalsverðan kostnað við að undirbúa leikinn og gera Laugardalsvöll leikhæfan þegar leikurinn var blásinn af.

UEFA hafði kynnt nýtt fyrirkomulag keppna A landsliða kvenna og var Þjóðadeild sett á laggirnar, líkt og er í keppni karlalandsliða. Í nýja fyrirkomulaginu eru á dagskrá umspilsleikir í nóvember og febrúar (heima og/eða heiman) og hafi það þótt ærið verkefni að gera Laugardalsvöll leikhæfan í mars ár hvert miðað við núverandi ástand leikvangsins, þá er ljóst að febrúar er enn erfiðara verkefni.

Til upprifjunar er rétt að nefna að Laugardalsvöllur er opinn leikvangur (án þaks), með litlu sem engu skjóli fyrir veðri og vindum, og leikflöturinn er ekki með hitakerfi.

Bókun stjórnar KSÍ frá fundi 9. febrúar 2023:

Vegna möguleikans á að A landslið karla leiki umspilsleiki í mars og að A landslið kvenna leiki umspilsleiki í febrúar á komandi árum hefur stjórn KSÍ ákveðið að fela framkvæmdastjóra að kanna mögulega leikstaði erlendis sem valkosti fyrir heimaleiki A landsliða Íslands ef til þess kemur. Markmiðið er vissulega alltaf að liðin komist beint í lokakeppni (eða forðist fall um deild í Þjóðadeild, ef við á) án þess að þurfa að leika í umspilsleikjum, en rétt er að huga að undirbúningi og kanna fýsileika annarra valkosta ef til þess kæmi að það markmið næðist ekki og að leiðin í lokakeppni (eða að forðast fall) verði í gegnum umspilsleiki í mars eða febrúar.

Leikur Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv var færður á Kópavogsvöll

Leikur Breiðabliks gegn Maccabi Tel-Aviv í Sambandsdeild Evrópu var færður á Kópavogsvöll.

Leikurinn, sem fór fram fimmtudaginn 30. nóvember, átti upphaflega að fara fram á Laugardalsvelli eins og fyrri heimaleikir Breiðabliks í keppninni. Sökum vallaraðstæðna og veðurskilyrða ákvað UEFA að færa leikinn á Kópavogsvöll.

Leikið með sorgarbönd í þremur landsleikjum

Leikið með sorgarbönd

Þrjú landslið, U17 og U19 karla ásamt A karla, léku með sorgarbönd í landsleikjum til að heiðra minningu Þuríðar Örnu Óskarsdóttur sem féll frá á árinu eftir löng og erfið veikindi. Þuríður var dóttir Óskars Guðbrandssonar og Áslaugar Hinriksdóttur, en Óskar Örn er starfsmaður KSÍ.

Þjónustukönnun KSÍ: Yfir 70% svarenda ánægðir

Laugardalsvöllur

Á haustmánuðum sendi KSÍ út stutta þjónustukönnun til allra félaga. Með slíkri könnun leitast KSÍ við að kanna viðhorf aðildarfélaganna til starfs KSÍ og þeirrar þjónustu sem KSÍ veitir félögum og þeirra fulltrúum. Ætlunin er að senda sambærilega könnun árlega og nota niðurstöðurnar þannig sem mikilvægan leiðarvísi fyrir KSÍ til að efla þjónustuna og samstarfið enn frekar. Óskað var eftir einu svari frá hverju félagi. KSÍ þakkar þeim aðildarfélögum sem svöruðu könnuninni kærlega fyrir þátttökuna.

Heilt yfir og almennt er mikill meirihluti svarenda ánægður með þá þjónustu sem KSÍ veitir aðildarfélögum, sem og stuðning og samskipti við félögin og þeirra fulltrúa. Um og vel yfir 70 prósent svarenda eru t.a.m. ánægðir með þjónustu KSÍ við aðildarfélög, samskipti við fulltrúa félaga, viðbrögð við fyrirspurnum, stuðning og leiðbeiningar, námskeið og fræðslu. 42 prósent eru ánægð með stjórnsýslu og skipulag KSÍ, 23 prósent óánægð, og 35 prósent hlutlaus.

Í nokkrum svörum var sérstaklega minnst á að efla þyrfti þjónustu við landsbyggðina og gera fulltrúum félaga þar betur kleift að taka þátt í starfinu og ýmsum viðburðum, til dæmis með því að gera meira af því að streyma viðburðum og bjóða sem oftast upp á þátttöku á fundum og fræðsluviðburðum í gegnum fjarfundarbúnað, eða að halda fleiri fundi og/eða fræðsluviðburði utan höfuðborgarsvæðisins.

Niðurstöður

Þjónusta:
• 75% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
• 8% hlutlaus.
• 17% nokkuð óánægð/mjög óánægð.

Samskipti:
• 67% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
• 17% hlutlaus.
• 16% nokkuð óánægð/mjög óánægð.

Viðbrögð við fyrirspurnum:
• 71% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
• 17% hlutlaus.
• 12% nokkuð óánægð/mjög óánægð.

Stuðningur og leiðbeiningar:
• 75% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
• 8% hlutlaus.
• 17% nokkuð óánægð/mjög óánægð.

Námskeið og fræðsla:
• 73% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
• 23% hlutlaus.
• 4% nokkuð óánægð/mjög óánægð.

Skipulag og stjórnsýsla:
• 42% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
• 35% hlutlaus.
• 23% nokkuð óánægð/mjög óánægð.

Samfélagsleg verkefni:
• 58% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
• 38% hlutlaus.
• 4% nokkuð óánægð/mjög óánægð.

Þjónusta við stuðningsmenn á landsleikjum:
• 38% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
• 41% hlutlaus.
• 21% nokkuð óánægð/mjög óánægð.

Markmannsskóli KSÍ

Markmannsskóli KSÍ

Markmannsskóli KSÍ var haldinn á Selfossi helgina 5. – 7. janúar 2024. Markmönnum sem fæddir eru árið 2010 var boðið að taka þátt í markmannsskólanum og voru um 50 markmenn sem tóku þátt. Aðildarfélög KSÍ mega senda tvo markmenn af hvoru kyni óháð getu sem eru á eldra ári í 4. flokki í Markmannsskóla KSÍ.

Hæfileikamótun N1 og KSÍ

Í Hæfileikamótun N1 og KSÍ koma saman til æfinga ungir og hæfileikaríkir leikmenn frá félögum víðs vegar af landinu. Fjölmargir viðburðir fara fram um allt land og hundruðir drengja og stúlkna fá tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Lokahnykkur í Hæfileikamótun hvers ár er svokallað Hæfileikamót. Um 60 stelpur og 60 strákar taka þátt í Hæfileikamótinu þar sem hópurinn æfir saman og lýkur svo Hæfileikamótinu með leikjum á Laugardalsvelli. Í ár fór Hæfileikamót drengja fram 15.-17. Maí og Hæfileikamót stúlkna 25.-27. maí. Allir leikir mótsins voru sýndir í beinu streymi á KSÍ TV.

Þórhallur Siggeirsson er yfirmaður Hæfileikamótunar N1 og KSÍ hjá drengjum og Magnús Örn Helgason hjá stúlkum.

Helstu markmið Hæfileikamótunar N1 og KSÍ:

-Fjölga þeim leikmönnum sem fylgst er með.

-Fylgjast með yngri leikmönnum en áður og undirbúa þá fyrir hefðbundnar landsliðsæfingar.

-Koma til móts við minni staði á landsbyggðinni og mæta þeirra þörfum.

-Koma til móts við leikmenn stærri félaga á höfuðborgarsvæðinu sem að öllu jöfnu væru ekki valdir á landsliðsæfingar.

-Bæta samskipti við aðildarfélögin og kynna fyrir þeim stefnu KSÍ í landsliðsmálum.

-Undirbúa leikmenn enn betur til þess að mæta á landsliðsæfingar seinna með fræðslu

Vinna saman gegn hagræðingu úrslita

Hagræðing úrslita er málefni sem þarf stöðugt að halda vöku fyrir og berjast gegn, og heilindamál (integrity) er mikilvægt verkefni allra sem koma að stjórnun og skipulagi knattspyrnuíþróttarinnar. Allir leikir eiga að vera leiknir af háttvísi og sanngirni og úrslit leiksins eiga einungis að ákvarðast af getu liðanna sem eiga í hlut. Úrslit leiksins eiga ekki að liggja fyrir fyrr en leik lýkur.

KSÍ er hluti af eftirlitskerfi gegn hagræðingu úrslita, annars vegar í gegnum Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) og hins vegar í gegnum samstarfssamning KSÍ, ÍTF og Genius Sports. Komi upp tilvik þar sem grunur er um hagræðingu úrslita þá fær KSÍ tilkynningu um slíkt og greiningu frá eftirlitsaðilum. Hið sama á við þegar KSÍ berst ábending um einstaklinga (leikmenn og aðra) sem stunda veðmál í mótum og leikjum sem þar þeir sjálfir eru þátttakendur, eins og nýleg dæmi eru um hérlendis.

Fannar Helgi Rúnarsson heilindafulltrúi KSÍ:
„Sérstaða fótbolta og auðvitað íþrótta almennt er að við vitum ekki úrslitin fyrirfram og úrslitin eiga ekki að liggja fyrir fyrr en að leik loknum. Þetta er algjört lykilatriði og við verðum að standa vörð um það. Úrslit leikja eiga að ákvarðast af íþróttalegum þáttum, getu og hæfileikum liða og leikmanna, taktísku uppleggi, dagsformi, og svo framvegis. Ef hagræðing úrslita fær að grassera þá töpum við öll. KSÍ er hluti af viðamiklu eftirlitskerfi og samskiptin þar á milli eru virk.“

KSÍ, í samstarfi við HSÍ og KKÍ og með stuðningi Lyfjaeftirlits Íslands, vinnur um þessar mundir að verkefni sem gengur út á að hvert íþróttafélag skipi sérstakan heilindafulltrúa sem er þá ábyrgur fyrir fræðslu og upplýsingagjöf innan síns félags, með stuðningi sérsambandanna.

Hægt er að lesa frekar um málið á vef KSÍ.

Frétt á vef KSÍ

Metár í leikjafjölda

Undanfarin ár hefur leikjum í mótum fjölgað jafnt og þétt. Á árinu 2023 voru leiknir 6.080 KSÍ leikir (Íslandsmót, meistarakeppni, bikarkeppni, deildarbikar, landsleikir). Leikirnir hafa aldrei verið fleiri og um er að ræða verulega aukningu, sem þýðir auðvitað aukinn kostnað og fjölgun verkefna í niðurröðun og afleiddum verkefnum hjá KSÍ, og ekki síður hjá félögunum sjálfum.

Alls tóku 770 keppnislið aðildarfélaga þátt í mótum á vegum KSÍ á árinu sem leið - 504 lið karla og 266 lið kvenna. Þátttökuliðum kvenna fjölgaði um 18 milli ára en karlaliðum fækkaði um 9. Samtals fjölgaði því keppnisliðum um 9 milli ára.

Heildarfjöldi KSÍ leikja
LeikárFjöldi leikja
20236.080
20225.578
20215.319
20204.864
20195.439
20185.333
20165.361
20145.439
20125.403
20105.515
20084.998

KSÍ skipuleggur knattspyrnumót allan ársins hring, þó meginþorri leikjanna fari fram yfir sumartímann. Við leikina í töflunni hér að ofan bætast leikir í Reykjavíkurmótum og Faxaflóamótum, sem eru leikin frá hausti og fram á vor, þar sem samanlagður fjöldi leikja var 2.646 og þar er einnig um að ræða aukningu.

Fótboltaskýrsla Deloitte og KSÍ kom út í fyrsta sinn fyrir íslenskan fótbolta

Í fyrsta sinn á Íslandi gáfu Deloitte og KSÍ út samantektarskýrslu um fjármál íslenskrar knattspyrnu.

Unnar voru greiningar á ársreikningum þeirra félaga sem tóku þátt í keppni efstu deilda karla og kvenna á árunum 2019 – 2022. Tekjuliðir og gjöld félaganna voru greind og ýmis áhugaverð atriði borin saman.

Gögn úr ársuppgjörum félaganna voru sett fram á gagnvirkan og notendavænan hátt með mælaborði Microsoft Power BI sem gefur fólki innsýn í rekstur félaganna á skýran og aðgengilegan hátt. Samanburður á milli knattspyrnufélaga og ára verður vart auðveldari með örfáum smellum.

Hægt er að lesa frekar um málið og lesa skýrsluna á vef KSÍ

Frekari upplýsingar um skýrsluna

UEFA kynnir verkefni um krossbandaslit hjá konum í fótbolta

UEFA hefur sett á laggirnar starfshóp um krossbandaslit hjá knattspyrnukonum. Markmiðið er að auka meðvitund og forvarnir gegn sliti á fremra krossbandi (ACL).

Krossbandaslit hjá knattspyrnukonum hafa alla tíð verið algeng og var hópurinn settur saman af sérfræðingum sem hafa það markmið að fá betri skilning á krossbandaslitum og algengi meiðslanna í knattspyrnu kvenna.

Eitt af fyrstu skrefunum hjá starfshópnum var að útbúa spurningalista um þekkingu á krossbandaslitum ætlaðan öllum einstaklingum sem koma að knattspyrnu kvenna. Niðurstöður spurningalistans ætlar UEFA að nýta til að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum við krossbandaslitum hjá konum í fótbolta.

Nánar má lesa um verkefnið á heimasíðu UEFA

Bann við notkun innfylliefna

Evrópusambandið samþykkti á haustmánuðum bann við notkun innfylliefna í þriðju kynslóð gervigrass. Bann þetta hefur legið í loftinu í nokkurn tíma eftir að ECHA (European Chemicals Agency) gerði tillögu að því til Evrópuráðsins.

Upphaflega gerðu tillögur ráð fyrir að bannið tæki gildi um leið og það yrði samþykkt af Evrópuráðinu líklegt var að gefinn yrði 6 ára aðlögunartími en breyttist aðlögunartíminn í 8 ár en félög innan UEFA höfðu sett þrýsting á að lengja aðlögunartímann. Bent hefur verið á það að engin lausn hefur enn komið fram sem kemur í stað þeirra innfylliefna sem nú eruð notuð.

Mikil þróun og rannsóknir eru að eiga sér stað í tengslum við nýjar tegundir innfylliefna ásamt því að tilraunir með nýjar tegundir gervigrass eru að eiga sér stað sem eiga að geta uppfyllt nauðsynlegar kröfur knattspyrnugrass.

Eins og komið hefur fram áður mun þetta hafa veruleg áhrif hér á landi. Við gildistöku bannsins þarf að taka tillit til þess við öll áform um endurnýjun og nýframkvæmdir við gervigrasvelli á næstu árum. Mannvirkjanefnd KSÍ fylgist náið með gangi mála í þessum efnum og er samstarf með knattspyrnusamböndum norðurlandanna þar sem um sameiginlega hagsmuni er að ræða m.a veðurfar.

Úthlutað til 12 verkefna úr Mannvirkjasjóði KSÍ

Fjórtán umsóknir bárust í mannvirkjasjóð KSÍ árið 2023 og er heildarkostnaður við áætlaðar framkvæmdir 594 miljónir króna. Til úthlutunar úr sjóðnum í ár voru 40 milljónir.

Mannvirkjanefnd KSÍ og starfsmaður mannvirkjanefndar ásamt framkvæmdastjóra KSÍ fóru yfir innsendar umsóknir á fundum nefndarinnar þann 31. maí, 29. júní og 4. júlí.

Unnið var heildstætt mat á öllum umsóknum og þær metnar með hliðsjón af gildandi skorkorti. Þannig var unninn listi með einkunnagjöf sem er grunnurinn að tillögu til stjórnar KSÍ.

Drykkjarhlé í leikjum vegna Ramadan

Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum að leikmönnum, sem fasta vegna trúar sinnar yfir Ramadan, væri heimilt að hafa samband við dómarann fyrir leik og óska eftir einu drykkjarhléi á meðan á leik stendur þegar það átti við m.t.t. leiktíma. Leikmaðurinn gat þannig beðið dómarann um drykkjarhlé og bar dómaranum að verða við því næst þegar leikstöðvun ætti sér stað.

Augnablik ...