Mótin innanlands

Gríðarlegur fjöldi leikja

Á árinu 2022 skipulagði KSÍ alls um 8.000 leiki í mótum innanlands. Þetta eru leikir allt frá meistaraflokki karla og kvenna (Íslandsmót, bikarkeppni, Deildarbikar) og til leikja í 5. flokki og eldri flokki. Til viðbótar má geta þess að á vegum vegum aðildarfélaga KSÍ fóru fram um 16.000 leikir árið 2022, leikir í hinum ýmsu mótum, stórum jafnt sem smáum. Á Íslandi fara því fram rúmlega 24.000 leikir á ári. Sem gerir um 66 leiki á dag, allt árið um kring.

Logo Bestu deildarinnar

Besta deildin

Í upphafi árs var tilkynnt um nýtt nafn á efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu og fengu deildirnar heitið Besta deildin. Íslenskur Toppfótbolti, sem fer með markaðsréttindi deildanna, tók þá ákvörðun að hætta að selja nafnarétt deildarinnar. Frá árinu 2009 hafa deildirnar verið kenndar við vörumerkið Pepsi og Pepsi Max. Nýtt vörumerki deildarinnar er byggt á merki sem grafið var í fyrsta bikar Íslandsmótsins frá árinu 1912. Nýr verðlaunagripur leit einnig dagsins ljós á árinu. Íslandsmeistarar í karla og kvennaflokki hömpuðu glæsilegum skildi. Skjöldurinn ber merki deildarinnar sem og nöfn allra Íslandsmeistara frá upphafi.

Meistaraflokkur kvenna

Valur fagnar titlinum
Mynd - Mummi Lú

Besta deild kvenna

Valur varð Íslandsmeistari annað árið í röð og í 13. skiptið í heildina árið 2022. Valur tyllti sér á toppinn í fimmtu umferð og hélt toppsætinu út mótið. Titillinn var tryggður í næst síðasta leik mótsins með 3-1 sigri gegn Aftureldingu. Íslandsmeistararnir unnu sigur í 13 leikjum af 18, gerðu fjögur jafntefli og töpuðu einum leik. Þær enduðu með markatöluna 51:10 og fengu 43 stig.

Arna Sif Ásgrímsdóttir varnarmaður Vals var kosin besti leikmaður deildarinnar og Katla Tryggvadóttir í Þrótti R. var kosin efnilegust. Jasmín Erla Ingadóttir í Stjörnunni var markahæst með 11 mörk og hlaut Gullskó Nike. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, leikmaður Vals, var með flestar stoðsendingar í deildinni og hlaut Gullbolta Nike. Besti markmaður deildarinnar hlaut Gullhanska Nike og var það Sandra Sigurðardóttir markmaður Íslandsmeistaranna. Gullhanskinn og Gullboltinn eru nýjungar í viðurkenningum í efstu deild. Besti dómarinn var Þórður Þorsteinn Þórðarson. Þórður er fyrrverandi leikmaður og spilaði síðast með ÍA tímabilið 2021. Hann hóf dómaraferil sinn á vormánuðum 2022.

Alls mættu 17.761 áhorfendur á leikina 90 í Bestu deild kvenna 2022, sem gerir 197 manns að meðaltali á hvern leik. Flestir mættu á leiki Þróttar R. eða 2.841 manns sem gerir að meðaltali 316 áhorfendur á leik. Best sótta umferðin á tímabilinu var 15. umferðin. Þá mættu 1.663 áhorfendur á leikina fimm eða að meðaltali 333 á hvern leik.

Valur lyftir Mjólkurbikar kvenna

Mjólkurbikar kvenna

Valur varð Mjólkurbikarmeistari eftir 2-1 sigur gegn Breiðabliki. Var þetta í fjórtánda skipti sem liðið hampar titlinum og er Valur þar með orðið sigursælasta liðið í Bikarkeppni meistaraflokks kvenna. Breiðablik náði forystu í leiknum með marki frá Birtu Georgsdóttur á 35. mínútu. Cyera Makenzie Hintzen jafnaði metin fyrir Val á 54. mínútu og Ásdís Karen Halldórsdóttir tryggði Val sigurinn með marki á 73. mínútu. Á leið sinni í úrslitaleikinn slógu Valskonur út Tindastól, KR og Stjörnuna. Breiðablik sló út FHL (sameiginlegt lið Fjarðarbyggðar, Hattar og Leiknis), Þrótt Reykjavík og Selfoss.

Meistarakeppni KSÍ kvenna

Í Meistarakeppni KSÍ mættust Íslandsmeistarar Vals og Bikarmeistarar Breiðabliks. Var þetta í sjötta skiptið sem þessi lið mætast í Meistarakeppni KSÍ. Valur stóð uppi sem sigurvegari eftir vítaspyrnukeppni. Hvorugu liðinu tókst að skora í venjulegum leiktíma og var því gripið til vítaspyrnukeppni. Þar skoruðu Valskonur úr fjórum spyrnum gegn tveimur hjá Breiðablik.

FH fagnar sigri í Lengjudeild kvenna
Lengjubikar kvenna
DeildSigurvegari
ABreiðablik
BFH
CÍA
Neðri deildir Íslandsmóts
DeildSigurvegari
LengjudeildFH
2. deildFram
Fyrstu Íslandsmeistarar kvenna

50 ár frá upphafi Íslandsmóts kvenna

Á árinu voru liðin 50 ár frá því að fyrsti leikur á Íslandsmóti í meistaraflokki kvenna var spilaður. Árið 1972 voru átta lið skráð til leiks sem var skipt í tvo riðla. Spiluð var einföld umferð í hvorum riðli og mættust sigurvegarar í hvorum riðli í úrslitaleik um fyrsta Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki kvenna.

Í A-riðli voru FH, Fram, Breiðablik og Þróttur þar sem Fram og Breiðablik mættust í opnunarleiknum. Úrslitin voru 3-2 sigur Fram.

Í B-riðli voru Ármann, Grindavík, Haukar og Keflavík. Þar mættust Ármann og Haukar í opnunarleiknum sem Ármann sigraði örugglega 4-0.

FH hafnaði í efsta sæti A-riðils með tvo sigra og eitt jafntefli, sem gaf þeim 5 stig. Á þessum tíma fékk lið tvö stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli. Í B-riðli bar Ármann af. Þær kláruðu riðilinn með fullt hús stiga og markatöluna 20:1.

Í úrslitaleiknum sem fram fór í Kópavogi þann 24. september mættust FH og Ármann. Niðurstaðan var 2-0 sigur FH, sem voru þar með krýndar Íslandsmeistarar.

Fyrir leik íslenska kvennalandsliðsins gegn Belarús í september síðastliðnum var Íslandsmeistaraliði FH frá 1972 boðið á leikinn og þær heiðraðar.

Meistaraflokkur karla

Besta deild karla

Breiðablik lyftir Bestu deildar skildinum
Mynd - Mummi Lú

Besta deild karla var með nýju sniði í ár. Leikin var hefðbundin tvöföld umferð þar sem öll liðin mættust tvisvar, heima og að heiman. Að loknum 22 umferðum skiptist deildin í efri hluta og neðri hluta. Liðin í sætum eitt til sex mættust öll einu sinni. Þar var spilað upp á Íslandsmeistaratitil og Evrópusæti. Í neðri hlutanum mættust liðin sem enduðu í sætum sjö til tólf að 22 umferðum loknum. Þau kepptust um hvaða tvö lið myndu falla niður í Lengjudeildina.

Breiðablik fagnaði Íslandsmeistaratitli í karlaflokki árið 2022 í annað sinn í sögunni. Blikar byrjuðu tímabilið af krafti og töpuðu ekki stigi fyrr en þeir heimsóttu Val í 9. umferð þar sem þeir töpuðu 3-2. Þeir héldu þó toppsætinu frá fyrstu umferð og út allt mótið. Því var spennan lítil þegar keppni hófst í efri hluta deildarinnar. Blikar fóru inn í úrslitakeppnina með átta stiga forskot á Víkinga og luku keppni með tíu stiga forskot á KA-menn, sem lentu í öðru sæti.

Nökkvi Þeyr Þórisson úr KA var kosinn besti leikmaður deildarinnar en hann var einnig markahæstur með 17 mörk í 20 leikjum og hlaut því Gullskó Nike. Ísak Andri Sigurgeirsson, leikmaður Stjörnunnar, var kosinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Adam Ægir Pálsson úr Keflavík átti flestar stoðsendingar á tímabilinu og hlaut fyrir það Gullbolta Nike. Anton Ari Einarsson var valinn besti markmaður mótsins og hlaut Gullhanska Nike. Pétur Guðmundsson var kosinn besti dómarinn.

Í tveimur leikjum í fyrstu umferð Bestu deildar karla fór áhorfendafjöldi yfir 2.000 manns, en flestir áhorfendur á leik í fyrri hluta Bestu deildar karla voru 2.022 á viðureign KR og Breiðabliks á Meistaravöllum 25. apríl. Heildaraðsóknin í fyrri hlutanum voru 108.607 áhorfendur, eða að meðaltali 825 á leik.

Í seinni hluta mótsins (efri hlutanum) mættu flestir áhorfendur á leik Breiðabliks og KR, eða 2.235. Samtals mættu 10.677 áhorfendur á umferðirnar fimm í efri hlutanum, eða 711 áhorfendur að meðaltali á hvern leik.

Í neðri hlutanum mættu flestir á leik FH og Leiknis R., eða 1.137 áhorfendur. Samtals mættu 5.487 manns á umferðirnar fimm í neðri hlutanum, eða 365 áhorfendur að meðaltali á hvern leik.

Víkingur R. fagnar Mjólkurbikarssigrinum
Mynd - Mummi Lú

Mjólkurbikar karla

Víkingur Reykjavík var krýndur Mjólkurbikarmeistari eftir sigur gegn FH í framlengdum leik. Að venjulegum leiktíma loknum var staðan 2-2. Pablo Oshan Punyed Dubon kom Víkingum yfir á 26. mínútu og tveimur mínútum síðar jafnaði Oliver Heiðarsson metin fyrir FH. Nikolaj Andreas Hansen kom Víkingum aftur yfir á 89. mínútu og aftur jafnaði FH og nú mínútu síðar þegar Ingvar Jónsson, markmaður Víkings, varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Í framlengingu var Nikolaj Andreas Hansen hetja Víkinga þegar hann skoraði sigurmarkið á fyrstu mínútu framlengingar. Var þetta fjórði bikarmeistaratitill Víkinga og sá þriðji í röð, þar sem enginn sigurvegari var krýndur árið 2020.

Meistarakeppni KSÍ karla

Í Meistarakeppni KSÍ mættust Íslands- og Bikarmeistarar Víkings og Breiðablik sem hafnaði í öðru sæti í deildinni árið 2021. Víkingar unnu 1-0 sigur með marki frá Erlingi Agnarssyni á 23. mínútu. Var þetta í fyrsta sinn sem þessi lið mættust í Meistarakeppni KSÍ.

Lengjubikar karla
DeildSigurvegari
AFH
BNjarðvík
CÝmir
Neðri deildir Íslandsmóts
DeildSigurvegari
LengjudeildFylkir
2. deildNjarðvík
3. deildSindri
4. deildEinherji

Íslandsmótið í Futsal karla

Ísbjörninn varð Íslandsmeistari innanhúss

Ísbjörninn var Íslandsmeistari innanhúss eftir 6-4 sigur gegn Augnablik. Í undanúrslitum mætti Ísbjörninn Kríu og Augnablik mætti Vængjum Júpiters.

Augnablik ...