Mótin innanlands
Meistaraflokkur karla
Besta deild karla
Mynd - Mummi Lú
Breiðablik fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í annað sinn á síðustu þremur árum eftir hreinan úrslitaleik við Víking R. á Víkingsvelli, en Breiðablik vann leikinn 3-0. Barátta milli þessara tveggja liða var mikil allt tímabilið, en fyrir skiptingu mótsins voru þau jöfn að stigum með 49 stig. Baráttan hélt áfram að vera gríðarlega jöfn og voru liðin jöfn að stigum fyrir lokaumferðina, en Víkingar með betri markatölu.
Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki, var kosinn besti leikmaður deildarinnar og Benoný Breki Andrésson var markahæstur með 21 mark og hlaut gullskó Nike, en hann bætti með því markamet deildarinnar. Benoný Breki var jafnframt kosinn efnilegasti leikmaður deildarinnar. Pétur Guðmundsson var valinn besti dómarinn.
Best sótti leikur sumarsins í Bestu deild karla var lokaleikur deildarinnar á Víkingsvelli þar sem Víkingur R. og Breiðablik mættust í hreinum úrslitaleik, en á þeim leik voru áhorfendur 2.500 og komust færri að en vildu.
Hluti tímabils | Fjöldi | Meðaltal |
---|---|---|
Fyrri hluti | 114.935 | 871 |
Neðri hluti | 7.830 | 522 |
Efri hluti | 13.640 | 909 |
Samanlagt | 136.405 | 842 |
Markametið í efstu deild karla slegið
Benoný Breki Andrésson, KR, sló markametið í efstu deild karla þegar hann skoraði fimm mörk í lokaumferð Bestu deildarinnar og endaði með 21 mark. Metið stóð í 19 mörkum og höfðu fimm leikmenn náð þeim fjölda. Það voru Pétur Pétursson árið 1978, Guðmundur Torfason árið 1986, Þórður Guðjónsson árið 1993, Tryggvi Guðmundsson árið 1997 og Andri Rúnar Bjarnason árið 2017.
Lengjudeild karla
Lengjudeild karla var í annað sinn leikin með breyttu sniði. Það lið sem vinnur deildina fer beint upp í Bestu deild á meðan liðin í 2.-5. sæti fara í umspil um laust sæti í Bestu deild.
ÍBV endaði tímabilið á toppnum og fór því beint upp, en Keflavík, Fjölnir, Afturelding og ÍR fóru áttust við í umspilinu. Í undanúrslitum mættust Keflavík og ÍR annars vegar og Fjölnir og Afturelding hins vegar, en leikið var heima og að heiman. Afturelding og Keflavík tryggðu sér sæti í úrslitaleik umspilsins, en þetta var annað árið í röð sem Afturelding komst þangað. Úrslitaleikurinn var leikinn á Laugardalsvelli 28. september. Leikurinn var mjög jafn og aðeins eitt mark skildi liðin að, líkt og í úrslitaleiknum fyrir ári síðan. Í þetta sinn var það Afturelding sem skoraði markið, en það kom þegar um 12 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Mjólkurbikar karla
Mynd - Mummi Lú
KA varð Mjólkurbikarmeistari eftir 2-0 sigur á Víking R., en Víkingar höfðu unnið keppnina fjögur ár í röð. Þessi sömu lið mættust einnig í úrslitum á síðasta tímabili. KA komst yfir í lok fyrri hálfleiks þegar Peter Oliver Ekroth setti boltann í eigið net. Það var svo Dagur Ingi Valsson sem gulltryggði sigur KA með marki í uppbótartíma seinni hálfleiks. Fyrsti bikarmeistaratitill KA því staðreynd.
Meistarakeppni KSÍ karla
Víkingur R. og Valur mættust í Meistarakeppni KSÍ, en leikið var á Víkingsvelli 1. apríl. Víkingar komust strax yfir á fyrstu mínútu leiksins, en Valur jafnaði um tíu mínútum síðar. Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma og var því gripið til vítaspyrnukeppni. Þar voru Víkingar sterkari og unnu 4-2 sigur.
Fótbolti.net bikarinn
Bikarkeppni neðri deilda - Fótbolti.net bikarinn fór fram í annað skipti, en Víðir varð fyrsti bikarmeistara neðri deilda árið 2023. Í keppninni leika lið í 2.-4. deild karla. Selfoss og KFA mættust í úrslitaleiknum sem leikinn var á Laugardalsvelli 27. september. KFA tók forystuna á 54. mínútu leiksins, en Selfoss jafnaði á 75. mínútu. Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma og þurfti því að grípa til framlengingar. Þar reyndist Selfoss sterkari og bætti við tveimur mörkum og 3-1 sigur því staðreynd.
A deild | Breiðablik |
B deild | Þróttur V. |
C deild | Árborg |
2. deild | Selfoss |
3. deild | Kári |
4. deild | Tindastóll |
5. deild | Álftanes |
Meistaraflokkur kvenna
Besta deild kvenna
Mynd - Mummi Lú
Breiðablik fagnaði Íslandsmeistaratitlinum eftir markalaust jafntefli gegn Val á N1-vellinum að Hlíðarenda, en Breiðablik nægði jafntefli á meðan Valur þurfti sigur til að lyfta titlinum. Þetta var í fyrsta sinn síðan 2020 sem Breiðablik verður Íslandsmeistari, en Valur hafði unnið titilinn þrjú ár í röð.
Sandra María Jessen, leikmaður Þór/KA, var kosin besti leikmaður deildarinnar og var hún jafnframt markahæsti leikmaður deildarinnar með 22 mörk í 23 leikjum. Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir, leikmaður Breiðablik, var kosin efnilegust og Bergrós Lilja Unudóttir besti dómarinn.
Í Bestu deild kvenna var best sótti leikurinn lokaleikur deildarinnar á N1 vellinum að Hlíðarenda þar sem Valur og Breiðablik mættust. Alls mættu 1.625 áhorfendur á leikinn
Hluti móts | Fjöldi alls | Meðaltal |
---|---|---|
Fyrri hluti | 18.814 | 209 |
Neðri hluti | 901 | 150 |
Efri hluti | 4.349 | 290 |
Samanlagt | 24.064 | 217 |
Lengjudeild kvenna
Það varð ljóst nokkuð snemma að FHL myndi tryggja sér sæti í Bestu deild kvenna í fyrsta sinn. Meiri spenna var hins vegar um það hvaða lið myndi fylgja FHL upp í efstu deild. Á endanum var baráttan nokkuð hörð á milli Fram, Gróttu og HK og var það Fram sem stóð á endanum uppi sem sigurvegari í þeirri baráttu. Það mátti þó ekki miklu muna þar sem Fram og Grótta enduðu jöfn að stigum, en Fram með töluvert betri markatölu. Það verða því FHL og Fram sem leika í Bestu deild kvenna á næsta tímabili.
Mjólkurbikar kvenna
Valur varð Mjólkurbikarmeistari eftir 2-1 sigur gegn Breiðabliki. Staðan var jöfn í hálfleik, en Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir kom Val yfir 65. mínútu. Jasmín Erla Ingadóttir kom Val í 2-0 þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum áður en Karitas Tómasdóttir minnkaði muninn í uppbótartíma. Valur varð síðast bikarmeistari 2022, einmitt eftir 2-1 sigur gegn Breiðablik.
Meistarakeppni KSÍ kvenna
Mynd - Hulda Margrét Óladóttir
Valur og Víkingur R. mættust í Meistarakeppni KSÍ og fór leikurinn fram á N1-vellinum Hlíðarenda 16. apríl. Þriðja árið í röð fór þessi leikur í vítaspyrnukeppni, og nú stóð Víkingur R. uppi sem sigurvegari.
A deild | Valur |
B deild | Afturelding |
C deild | Haukar |
Lengjudeild | FHL |
2. deild kvenna | Haukar |