Fræðsla

KSÍ hélt alls 41 fræðsluviðburð á árinu fyrir samtals 803 þátttakendur.

Þjálfaramenntun

Þjálfarar A karla

KSÍ býður upp á sjö þjálfaragráður – KSÍ C, KSÍ B, KSÍ A, KSÍ Pro þjálfaragráður, KSÍ B Markmannsþjálfaragráðu, KSÍ A Markmannsþjálfaragráðu og KSÍ Afreksþjálfun unglinga. Allar þessar þjálfaragráður hafa hlotið gæðastimpil UEFA og eru viðurkenndar í öllum aðildarríkjum UEFA. Fyrsta KSÍ Pro námskeiðið hófst í febrúar 2020 og fékk vottun UEFA í apríl 2022. Fyrsta KSÍ B Markmannsþjálfaragráðan var haldin á árinu og fékk vottun UEFA í nóvember 2022.

Námskeiðahald

KSÍ hélt sitt fyrsta KSÍ B markmannsþjálfaranámskeið á árinu 2022. Níu þjálfarar útskrifuðust af þessu námskeiði og þar af fyrsta konan til að útskrifast með markmannsþjálfaragráðu hér á landi, en það var Þóra Reyn Rögnvaldsdóttir.

Í janúar 2022 var í fyrsta skipti boðið upp á KSÍ C námskeið, eftir að UEFA veitti umsókn KSÍ vottun, en þar er áhersla lögð á þjálfun 4-12 ára barna. Þjálfarar sem klára C þjálfaragráðuna hafa réttindi til að vera aðstoðarþjálfarar hjá 5. flokki og yngri.

Vel heppnuð vinnustofa um knattspyrnu kvenna

Þorsteinn H. Halldórsson með fyrirlestur

Sunnudaginn 29. janúar síðastliðinn stóð KSÍ fyrir vel heppnaðri vinnustofu um knattspyrnu kvenna. Góðar umræður mynduðust og er það von KSÍ að samskonar viðburður verði árlegur.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari A landsliðs kvenna, og Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari A landsliðs kvenna, sögðu frá þátttöku landsliðsins á EM 2022. Fóru þeir yfir undirbúning, umgjörð og gerðu að lokum mótið upp og sýndu gestum ýmis konar tölfræði.

Andri Freyr Hafsteinsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, kynnti samanburð á tölum úr GPS mælum Stjörnunnar frá síðasta tímabili samanborið við Meistaradeildina. Andri sagði einnig frá hvernig Stjarnan mælir árangur hjá sínu liði og hvað liðið gerir til að hámarka árangur sinn.

Magnús Örn Helgason, þjálfari U17 kvenna, sagði frá því hvað lönd í Evrópu eru að gera til að mæta þörfum efnilegustu stelpnanna.

Dagur barna- og unglingaráða

Dagur barna- og unglingaráða

Ráðstefnan “Deilum því sem vel er gert” þar sem barna- og unglingaráð, og aðrir sem tengjast yngri flokka starfi komu saman, var haldin í höfuðstöðvum KSÍ laugardaginn 14. janúar 2023. Markmiðið með ráðstefnunni var að félögin myndu læra hvert af öðru og koma af stað samtali sín á milli.

Frekari upplýsingar á vef KSÍ

Vinnustofa um fótbolta fyrir eldri iðkendur

Laugardaginn 5. nóvember hélt KSÍ vinnustofu þar sem fjallað var um fótbolta fyrir eldri iðkendur. Þar voru flutt fjögur erindi. Rúnar Már Sverrisson hjá Þrótti Reykjavík kynnti göngufótbolta, Jóna Hildur Bjarnadóttir hjá Fram kynnti Fótbolta fitness, Ágúst Tómasson og Ellert Kristján Stefánsson hjá Þrótti R. töluðu um Old boys og Eva Rós Vilhjálmsdóttir hjá liðinu Drottningarnar talaði um Old girls.

Frekari upplýsingar á vef KSÍ
Augnablik ...