Vanda á ársþingi KSÍ

Ávarp formanns

Kæru félagar.

Við erum hluti af einni stærstu fjöldahreyfingu á landinu og í heiminum öllum. Hreyfingu sem hefur sterka rödd og samfélagslega ábyrgð, hreyfingu sem skilar gríðarlegum fjármunum til samfélagsins, hefur mikið forvarnargildi og á þátt í að auka farsæld og velferð þeirra sem taka þátt. Í jafn fjölmennri hreyfingu og knattspyrnuhreyfingunni getur verið mikil áskorun að sameinast um mikilvæg baráttumál, enda að mörgu að hyggja og verkefni og áskoranir félaga ólík og fjölbreytt eftir stærð, staðsetningu og ótal öðrum þáttum. Oft er tekist á um málefnin og þannig á það að vera. Það er nefnilega einmitt þessi óbilandi kraftur og baráttuhugur sem býr í fólkinu sem myndar þessa hreyfingu sem hefur komið okkur svo langt í gegnum árin og mun örugglega gera það áfram um ókomna framtíð. Og þó oft sé tekist á þá er samstaðan innan hreyfingarinnar mikil þegar á bjátar, í mótlætinu birtast okkar bestu hliðar sem við getum öll verið stolt af. John Dewey, einn áhrifamesti menntunarfræðingur tuttugustu aldarinnar, talar um ágreining sem lærdómstækifæri en þó aðeins ef við tökum mögulegar lausnir við ágreiningi út úr umhverfi valds og aflsmunar og setjum inn í umhverfi rökræðu og skynsemi. Ef það tekst lítum við á þá sem við eigum í ágreiningi við sem einstaklinga sem við getum lært af og sem vini okkar. Það er göfugt markmið sem gott er að hafa að leiðarljósi.

Við erum svo mörg sem tökum þátt í knattspyrnustarfinu, því þátttakendurnir eru ekki bara leikmenn, þjálfarar og dómarar, heldur líka áhorfendur og stuðningsfólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar, fjölmiðlar og álitsgjafar, börn og fullorðnir, og svo mætti áfram telja. Fjölbreytileikinn er mikill í hreyfingunni okkar, við verðum að taka utan um þetta litróf og gefa öllum sem vilja tækifæri til að taka þátt, á sínum forsendum og með sínum hætti – allt frá grasrótinni til afreksstarfsins.

Félögin okkar

Félögin eru þungamiðja knattspyrnunnar á Íslandi. Þrátt fyrir oft erfið skilyrði er stórkostlegt að sjá hversu vel félögin standa sig í að sinna grasrótarstarfi sem og afreksstarfi. Fagmennska, metnaður og fórnfýsi eru orð sem lýsa vel starfsemi félaganna og þeim sem þar starfa. Ákveðnar blikur eru þó á lofti, sjálfboðaliðum fækkar, kröfur á starfsemina aukast og ef vel á að vera verður starfsfólki að fjölga. Þetta kallar á aukinn kostnað og þó að sveitarfélögin standi mörg hver vel við bakið á sínum félögum er mikilvægt að þau og ekki síst ríkið stigi þar fastar inn en verið hefur. Árlegur meðal rekstrarkostnaður við hvern grunnskólanemanda er um 2,7 milljónir, þar vegur launakostnaður langhæst. Ekki er verið að gagnrýna þennan kostnað en til samanburðar er litlu fjármagni veitt frá ríki og sveitarfélögum í innra starf íþróttafélaga. Þetta veldur undirmönnun, miklu álagi og starfsmannaveltu sem eðlilega bitnar á starfseminni. Meta þarf starf félaganna að verðleikum og veita auknu fjármagni til starfseminnar. Rannsóknir sýna að sú fjárfesting skilar sér margfalt til baka. Á sama tíma þarf að setja stóraukið fé í ferðasjóð til að standa straum af sífellt hærri ferðakostnaði, sem er að sliga bæði félög og foreldra úti á landi.

Leikur Vals og FH

Mynd - Mummi Lú

Breytingar á keppnisfyrirkomulagi í efstu deildum karla og kvenna hefur reynst vel og það er mikilvægt að halda þar virku samtali og samráði milli KSÍ, ÍTF og félaganna. Tvískiptingin í seinni hluta Bestu deildanna er fyrirkomulag sem auðvelt er að skilja og færir okkur fleiri jafningjaleiki og ætti allajafna að færa okkur einnig meiri spennu í lokasprettinn. Ekkert fyrirkomulag er þó fullkomið og við þurfum að rýna breytingarnar vel og halda áfram að vega og meta hvaða fyrirkomulag er best fyrir íslenska knattspyrnu og íslensk félög. Þessu til viðbótar má nefna afar vel lukkað Lengjudeildarumspil um sæti í Bestu deild karla og algjörlega frábæra bikarkeppni neðri deilda. Úrslitaleikur á Laugardalsvelli var svo sannarlega gulrót sem var þess virði að elta. Það var viðeigandi að keppnin væri nefnd Fótbolti.net bikarinn þetta fyrsta ár, enda er það sá fjölmiðill sem fjallar hvað mest um neðri deildirnar. Það hafa líka verið gerðar breytingar á keppnisfyrirkomulagi yngri flokka á síðustu árum, í góðu samráði við félögin, og hafa þær breytingar reynst vel. Lotukerfið sem til dæmis er leikið eftir á Íslandsmótinu í 2. og 3. flokki hefur gefið þeim keppnisflokkum og mótum alveg nýja vídd og það verður gaman að fylgjast með þróun þessara móta á komandi árum. Við eigum að vera óhrædd við að gera breytingar og prófa nýja hluti. Það er alltaf hægt að breyta til baka.

Víkingur R. fagnar sigri í Mjólkurbikar kvenna

Knattspyrnusumarið var viðburðaríkt og spennandi eins og alltaf. Víkingur R. átti stórt ár bæði í meistaraflokki karla og kvenna. Karlalið Víkings vann tvöfalt – vann sigur í Bestu deildinni og Mjólkurbikarnum og fagnaði þar með bæði Íslands- og bikarmeistaratitli. Kvennalið Víkings hafnaði í efsta sæti Lengjudeildarinnar og tryggði sér þar með sæti í Bestu deildinni, og fagnaði jafnframt fyrsta bikarmeistaratitli félagsins í kvennaflokki með sigri í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli. Valur hafði nokkra yfirburði í Bestu deild kvenna og stóð uppi sem sigurvegari með 14. Íslandsmeistaratitli félagsins í meistaraflokki kvenna. Þó alltaf megi fjölga áhorfendum þá eru leikir heilt yfir vel sóttir og samanburður við önnur lönd hvað varðar aðsókn, hlutfallslega og miðað við höfðatölu, er okkur hagstæður. Umgjörð leikja í deild og bikar er alltaf að verða stærri og betri, sem hjálpar til við að búa til alvöru stemmningu og er ótrúlega skemmtilegt fyrir félögin og stuðningsfólk, en einnig leikmenn og aðra aðstandendur liðanna, í raun alla þátttakendur leiksins.

Öllum þeim sem unnu sigra og titla á árinu óska ég innilega til hamingju með árangurinn. Þeim sem fengu það erfiða hlutskipti að falla um deild, og raunar öllum þátttökuliðum vil ég óska alls hins besta á komandi sumri.

Stórum áfanga var náð þegar karlalið Breiðabliks komst í riðlakeppni Sambandsdeildar UEFA – fyrsta sinn sem íslenskt karlalið nær þeim áfanga. Sá árangur og þátttaka Breiðabliks hafði auðvitað og eðlilega stór áhrif á haustið og það var í raun magnað að fylgjast með Blikum í þessari keppni, ekki bara liðinu sjálfu heldur líka félaginu og öllu fólkinu í kringum félagið, sem tók risastór og samhent skref til að gera umgjörð leikjanna eins og best var á kosið. Við lentum auðvitað í aðstæðum sem við réðum ekki við varðandi veðurfar og aðstæður á Laugardalsvelli, og um það hefur verið fjallað vel og mikið. Það er alveg ljóst að þær aðstæður varpa enn meira ljósi á hversu bágborin aðstaðan á þjóðarleikvanginum er. Hafi einhverjum ekki verið ljóst að aðgerða er þörf þar strax, þá er a.m.k. öllum það ljóst núna, og til þess að koma þeim málum áfram þarf samhent átak allrar sameinaðrar knattspyrnuhreyfingarinnar – ekki bara KSÍ, heldur félaganna líka. Við erum risastór og fjölmenn hreyfing og ef við virkilega viljum koma skriði á þessi mál, þá verðum við að vinna saman. Nýr eða endurbættur þjóðarleikvangur er einfaldlega stærsta einstaka baráttumál knattspyrnuhreyfingarinnar á Íslandi.

Karlalið Víkings R. og KA léku líka í Evrópumótum félagsliða og unnu sigra, sem er afar mikilvægt því hver einasti sigur telur til stiga þegar kemur að því að ákvarða þann fjölda íslenska félagsliða sem taka þátt í Evrópukeppnum á hverju ári. Á komandi keppnistímabili eru aftur fjögur íslensk karlalið í UEFA mótum og því ber svo sannarlega að fagna. Valur og Stjarnan léku í 1. umferð undankeppni Meistaradeildar kvenna. Þar féll Stjarnan úr leik en Valur komst áfram og þrátt fyrir að hafa fallið úr leik í næstu umferð vann Valsliðið heilt yfir 3 af þeim fjórum leikjum sem liðið lék í keppninni. Til stendur að stækka Meistaradeild kvenna með fleiri leikjum og í raun ígildi annarrar keppni og það verður afar spennandi að sjá hvernig til tekst, enda kvennaknattspyrnan á mikilli og hraðri uppleið í Evrópu.

Dómararnir okkar

Dómaramálin eru okkur alltaf hugleikin. Við gerðum langtímasamning við dómara, sem var afskaplega jákvætt, og langþráð VAR þjálfun dómara okkar hófst. Það er lykilforsenda að okkar bestu dómarar fái VAR þjálfun, því annars geta þeir ekki starfað við alþjóðlega leiki þar sem notast er við VAR. FIFA dómararnir eru auðvitað eins og eitt af okkar landsliðum, við eigum að taka utan um þá, styðja og sinna þeim vel og af sama metnaði og þeir leggja í sitt starf. Þá er ánægjulegt að konum í dómgæslu fjölgaði og vonandi höldum við áfram á þeirri braut. Dómarastarfið getur verið vanþakklátt starf og það er ekki hægt annað en að minnast hér á neikvæða framkomu í garð dómara. Á síðasta ári settum við í gang átak sem var ætlað að vekja athygli á þessari neikvæðu hegðun í garð dómara, og það er ekki hægt að segja annað en að það hafi tekist nokkuð vel, því verkefnið fékk mikla athygli og þegar fólk varð uppvíst að neikvæðri hegðun, þá var jafnan minnt á verkefnið. Sama má segja með bleika spjaldið á Símamóti Breiðabliks og áherslur margra félaga á bætta hegðun gagnvart dómurum. Samt er það þannig að það verður að halda þessum skilaboðum stöðugt á lofti, bæði varðandi leiki í meistaraflokkum og ekki síður varðandi leiki yngri flokka. Við settum á laggirnar á síðasta ári sérstakt Ungmennaráð KSÍ, sem er mjög skemmtilegt og ánægjulegt verkefni, sem vonandi er komið til að vera. Eitt af því sem þar var fjallað um var einmitt þessi neikvæða hegðun, þá sérstaklega foreldra á knattspyrnumótum og leikjum barna. Það vill enginn sjá eða heyra slíka framkomu og alls ekki börnin sjálf, því þetta hefur vond áhrif á upplifun þeirra og ánægju af íþróttinni. Við fullorðna fólkið, hvort sem við erum foreldrar, stuðningsfólk, leikmenn eða þjálfarar verðum að ganga á undan með góðu fordæmi.

Landsliðin okkar

Landsliðin okkar stóðu í stórræðum á árinu, eins og endranær, og það eru ákveðin umskipti og uppbygging að eiga sér stað í A landsliðunum okkar. Sumir hafa kallað þetta kynslóðaskipti, en í raun er það sem er að gerast eðlilegur hluti af þróun knattspyrnuliða, þó umskiptin hafi verið helst til hröð í báðum liðum. En leikmenn koma og fara og það getur tekið tíma að smíða ný lið. A landslið kvenna gekk í gegnum miklar breytingar á árinu og það var aðdáunarvert að sjá hversu vel liðið hélt sinni siglingu, þrátt fyrir nokkra gagnrýni, og lauk árinu á því að leggja Dani í leik á danskri grundu. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensku A landsliði í knattspyrnu tekst að vinna Danmörku í mótsleik. Árið var sveiflukennt hjá A landsliði karla og árangurinn og frammistöður upp og ofan, en að sama skapi er karlalandsliðið í uppbyggingarfasa og vel merkjanlegar framfarir í leik liðsins. Bæði A landsliðin eru síðan í umspilsleikjum á komandi vikum – A landslið kvenna leikur heima og heiman sitt hvorum megin við ársþingið um að halda sæti sínu í A-deild Þjóðadeildar UEFA og A landslið karla á tvo leiki í mars þar sem sæti í lokakeppni EM 2024 er í boði. Það væri stórkostlegur árangur að komast aftur á EM og ættum við öll að standa þétt að baki beggja liða í þeim spennandi áskorunum sem þau standa frammi fyrir. Hugsið ykkur ef við höldum okkur í A deild kvenna megin og komumst á EM karla á innan við einum mánuði!

Sigri fagnað gegn Danmörku

Það að Ísland hafi átt lið í úrslitakeppnum EM í bæði U19 kvenna og karla er auðvitað einstakt afrek, og eins og hefur komið fram voru aðeins tvær þjóðir í þeirri stöðu síðasta sumar – Ísland og Spánn!  U19 kvenna fékk í gegnum þann árangur tækifæri til að komast í lokakeppni HM U20 landsliða og lék umspilsleik í desember, en því miður náðist ekki sigur þar. Það var mjög ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til að fylgjast með okkar efnilega knattspyrnufólki sem sum hver banka fast á dyr A landsliðanna eða hafa þegar verið valin þangað inn. Einnig vil ég þakka foreldrum og öðru stuðningsfólki kærlega fyrir stuðninginn í þessum mótum, en stuðningsfólk fjölmennir á leiki yngri landsliða nánast hvar sem leikið er. Þegar kemur að yngri landsliðunum þá  er vitað að við spilum ekki jafn marga landsleiki og þjóðirnar sem við berum okkur saman við, erum í raun langt á eftir þeim. Þetta er grafalvarlegt mál og verðum að gera allt sem við getum til að styrkja landsliðsstarfið eins og hægt er.  Liður í því er til dæmis að koma á fót U23 landsliði kvenna.  Við tókum skref í þá átt á síðasta ári og höldum áfram þeirri uppbyggingu á þessu ári.

U19 kvenna fagnar marki á EM

„Ekki króna til KSÍ“ var fyrirsögn á grein á vefnum okkar núna nýlega þar sem fjallað var um úthlutanir úr Afrekssjóði ÍSÍ. Okkur var gert það fyllilega ljóst með skriflegu erindi frá ÍSÍ að KSÍ fengi ekki úthlutun úr sjóðnum og að það tæki því ekki að leggja í vinnu við að sækja um. Þetta er algjörlega ólíðandi staða og spurning hvort þetta sé löglegt, í það minnsta veit ég ekki um neitt land þar sem ein íþrótt er skilin eftir þegar kemur að dreifingu á fjármunum úr ríkissjóði. Raunar hefur KSÍ ekki fengið úthlutað úr sjóðnum í sjö ár, en úthlutun til KSÍ úr Afrekssjóði ÍSÍ ætti að vera jafn eðlileg og sjálfsögð og til annarra afrekssambanda.

Fótboltinn okkar - Fótbolti fyrir alla

„Fótbolti fyrir alla“ er yfirheiti á röð verkefna hjá KSÍ sem ganga út á samfélagslega ábyrgð, uppeldisleg gildi fótbolta og inngildingu. Markmiðið er að ná til sem flestra og bjóða öll velkomin. Flest þekkjum við Molaverkefnið – „Komdu í fótbolta með Mola“, þar sem hann Moli okkar ferðast um landið með battavöllinn og hittir krakka, foreldra og forsvarsmenn. Áhersla er á smærri staði. Þetta er frábært verkefni sem gefur KSÍ mikið. Einnig má nefna verkefnið sem Gunnhildur Yrsa hefur stýrt, þar sem krökkum með sérþarfir er gefinn kostur á að taka þátt í fótboltaæfingum undir handleiðslu Gunnhildar, sem hefur sjálf einmitt mikla reynslu af að vinna með þessum hópi, sem vill gjarnan fá að taka þátt í fótbolta. Stefnt er á að stofna landslið fyrir fólk með fötlun og er það von mín að við verðum í fararbroddi í Evrópu á þeim vettvangi. Sjónlýsingar frá landsleikjum fyrir blinda og sjónskerta er nýtt og spennandi verkefni sem KSÍ réðist í á síðasta ári, ásamt Blindrafélaginu og Samtökum íþróttafréttamanna. Um er að ræða frábært og afar jákvætt verkefni þar sem KSÍ nær til hóps af fólki sem hefur áhuga á fótbolta en hefur ekki getað tekið jafn virkan þátt og þau vildu. Börn af erlendum uppruna eru hópur sem hefur ekki tekið nógu virkan þátt í fótbolta og öðrum íþróttum. Því viljum við breyta og höfum við leitað eftir styrkjum til að efla og auka þátttöku þeirra.

Af hverju þessar áherslur? KSÍ og knattspyrnuhreyfingin ber mikla og ríka samfélagslega ábyrgð og við megum ekki skorast undan. Það á að vera okkar ljúfa skylda að taka á móti þeim bolta, sýna styrk okkar og vera leiðandi á sviði samfélagslegrar ábyrgðar, sem við erum. Fótboltinn hefur stóra og mikla rödd í samfélaginu. Við verðum að nota þá rödd til góðs. „Verndarar barna“ er dæmi um slíkt verkefni en um er að ræða samstarfsverkefni KSÍ og Barnaheilla sem gengur út á að fyrirbyggja kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Sérfræðingur frá Barnaheillum heimsækir félög víðs vegar um landið með fræðslu, og öllum innan viðkomandi félags er velkomið að taka þátt, ekki bara knattspyrnudeildinni. KSÍ vinnur álíka verkefni á hverju ári í samræmi við stefnu í samfélagslegum verkefnum og markmiðið er alltaf að vera með verkefni sem gera raunverulegt gagn í samfélaginu. Ef þróunin í Evrópu er skoðuð má sjá að bæði sérsambönd og félagslið hafa stigið stór skref í verkefnum sem tilheyra samfélagslegri ábyrgð og einnig umhverfismálum. Við eigum ekki að vera eftirbátar heldur taka þátt af krafti - því fótbolti er fyrir alla.

Úr leik Fram og Þróttar R.

Við þurfum fleiri stelpur og konur í fótbolta, bæði innan vallar og utan. Í samantekt hér annars staðar í ársskýrslunni kemur fram að konum sé jafnt og þétt að fjölga í ýmsum hlutverkum, sem er afskaplega jákvætt, en jafnframt er ljóst að það eru sérstaklega tækifæri til vaxtar þegar kemur að þjálfarastörfum og dómgæslu, sem og í stjórnum og ráðum. Það er verðugt verkefni að fjölga konum sem starfa fyrir félögin í þessum mikilvægu hlutverkum í knattspyrnuhreyfingunni. Það skiptir máli á svo margan hátt að hafa kvenkyns fyrirmyndir í fótbolta og konur verða að vera til staðar þar sem ákvarðanir eru teknar. Ekki á hliðarlínunni, hvað þá utan vallar, heldur sem mikilvægir leikmenn í liðinu. Ótal rannsóknir sýna ótvíræðan ágóða þess að hafa konur í leiðtogastörfum og þetta er verkefni okkar til framtíðar. Því verður að viðurkennast að það eru vonbrigði að engin kona sé í framboði til stjórnar KSÍ að þessu sinni og mun konum því fækka um helming í stjórn, úr fjórum í tvær. Við verðum að vinna saman að því að bæta úr, því mikilvægt er að tapa ekki þeim góða árangri sem náðst hefur á undanförnum árum. Víða í Evrópu er litið til okkar og það væri sorglegt að tapa því forystu- og fyrirmyndarhlutverki sem við höfum gegnt í jafnréttismálum. Er það verkefni næstu stjórnar að skoða hvort grípa þurfi til frekari aðgerða, til dæmis með kvótum, eins og mörg lönd gera.

Þjóðarleikvangurinn okkar

Laugardalsvöllur að vetrarlagi

Mikil vinna hefur verið unnin á síðustu árum og áratugum í að fá nýjan þjóðarleikvang. Vinna unnin af núverandi og fyrrverandi stjórnum og formönnum, ásamt mannvirkjanefnd KSÍ. Þörfin hefur sannarlega verið til staðar en aldrei eins og nú. Nýr veruleiki blasir við í keppnum landsliða og Evrópukeppnum félagsliða, þar sem nú þarf að vera hægt að leika knattspyrnu allt árið um kring á leikvöngum sem standast kröfur UEFA. Við höfum skoðað yfirborð, fjárfestingamöguleika, gert markaðskönnun, haldið fundi með ráðherrum og borgarstjórum og svo mætti áfram telja - og reynt eftir bestu getu að koma nýjum þjóðarleikvangi í knattspyrnu á dagskrá. Á síðustu mánuðum höfum við verið í samstarfi við Frey Ólafsson, formann Frjálsíþróttasambandsins, þar sem við trúum að sameinuð séum við sterkari. Er það einlæg von mín að borg og ríki komi með okkur í þetta bráðnauðsynlega verkefni. Það er til skammar að við séum lélegust í Evrópu. Meira að segja Gíbraltar, sem er á stærð við Seltjarnarnes, er að byggja völl.

Gíbraltar byggir völl

UEFA hefur misst þolinmæðina gagnvart endalausu aðgerðarleysi og forseti UEFA er tilbúinn að koma til Íslands og hitta ráðamenn. Um að gera fyrir nýjan formann og stjórn að nýta sér það.

Framtíðin okkar

Í stefnumótun KSÍ fyrir árin 2023-2026, „Frá grasrót til stórmóta“, er fjallað um helstu þætti starfs og verkefna KSÍ næstu árin. Stefnumótunin var unnin með stuðningi UEFA Grow, sem hefur aðstoðað um 40 knattspyrnusambönd í Evrópu í þeirra stefnumótunarvinnu. Það er mikil vinna á bak við þessa stefnumótun og við höfum fengið mikið hrós frá UEFA fyrir það hvernig við héldum utan um grunnvinnuna og hvernig við keyrum svo verkefnin og aðgerðirnar áfram, til að ná markmiðunum. Lögð var áhersla á að sýna fram á hvernig hinir ýmsu þættir íslenskrar knattspyrnu tengjast og styðja við hvern annan - grasrótarstarfið og afreksstarfið, félagsliðin og landsliðin, aðildarfélögin og KSÍ - og hvernig við getum gert sem flestum kleift að vera þátttakendur í knattspyrnuhreyfingunni. Við erum mjög ánægð með hvernig til tókst og ég er viss um að þessi stefnumótun mun nýtast knattspyrnustarfinu vel og færa KSÍ og félögin enn nær hvoru öðru, því saman erum við sterkust og saman náum við árangri. Framtíðin er björt.

Að lokum

Vanda og Cristiano Ronaldo

Haustið 2021 tók við að mestu ný stjórn og ég sem nýr formaður. Verkefnið var ærið, við tókum við í mesta ólgusjó í sögu KSÍ. Við þurftum ekki aðeins að fást við málefni fótboltans, eins og stjórnir á undan okkur höfðu gert, heldur tókumst við einnig á við aðstæður sem ollu því að aðeins munaði hársbreidd að FIFA tæki yfir starfsemi KSÍ. Fundir voru því margir og langir, við, ásamt starfsfólki KSÍ vorum vakin og sofin yfir verkefninu - sem fólst meðal annars í að bæta öryggi allra, búa til verkferla, koma á fræðslu, setja gerð nýrra siðareglna í gang, fara í samstarf með Barnaheillum og í leiðinni að koma okkur út úr storminum. Þetta hefur tekist með gríðarlegri vinnu og fyrir þetta ber að þakka. Mig langar því að þakka af öllu mínu hjarta því fólki sem gaf kost á sér í stjórn, þegar enginn annar gerði það, þakka starfsfólki KSÍ fyrir þeirra ómetanlegu störf í þessu krefjandi verkefni og þakka núverandi stjórn fyrir afar farsælt samstarf gegnum þessa öldudali og yfir í nokkuð lygnan sjó.

Nú er komið að kveðjustund hjá mér. Ég verð alltaf stolt af þessum tæpu tveimur og hálfu ári sem ég var formaður KSÍ. Við skrifuðum söguna saman, ég og félögin í landinu sem treystu mér fyrir verkefninu. Við vorum fyrst af löndunum 55 innan UEFA til að velja konu sem formann. Minn mesti heiður. Ég vil þakka fyrir það traust sem mér hefur verið sýnt og þakka öllum þeim sem ég hef hitt og unnið með, bæði innan stjórnar og í félögunum víðs vegar um landið.

Mig langar sérstaklega að minnast á starfsfólk og þjálfara KSÍ. Þau tóku mér opnum örmum, hafa stutt mig með ráðum og dáð og sýnt mér tryggð, virðingu og traust. Ég hef ekki hitt annan eins starfsmannahóp, sem af óendanlegum dugnaði, metnaði og ósérhlífni gengur í öll verk, fótboltanum á Íslandi til heilla. Með mér út um dyrnar gengur Klara Bjartmarz, framkvæmdarstjóri KSÍ, sem í janúar átti 30 ára starfsafmæli. Knattspyrnuhreyfingin á henni mikið að þakka, meira en ég held að flestir geri sér grein fyrir.

Ég hef reynt að nálgast viðfangsefnið af auðmýkt og fagmennsku, starfað af heiðarleika og gert mitt besta til að stuðla að framgangi íslenskrar knattspyrnu. Ég geng nú glöð út í sumarið, með góðar minningar í farteskinu, reynslu sem mun vafalaust nýtast mér vel, ævilanga vináttu við fullt af fólki og þakklæti og stolt í hjarta.

Takk fyrir mig <3

Augnablik ...