Vanda og Ceferin

Ávarp formanns

Kæru félagar

Knattspyrnuhreyfingin á Íslandi er ein stærsta fjöldahreyfing landsins ef ekki sú stærsta. Innan aðildarfélaga okkar æfa og keppa tæplega 29 þúsund einstaklingar og í sameiningu sköpum við og höfum skapað öllum þessum iðkendum og þeim sem á undan hafa gengið tækifæri og möguleika til að æfa fótbolta, þroskast og bæta við getu sína ásamt því að ná árangri persónulega og á heimsvísu.

Við þessa tölu bætist við fjöldinn allur af sjálfboðaliðum foreldrum, þjálfurum, dómurum, starfsfólki og stuðningsfólki og saman myndum við okkar frábæru hreyfingu, sem er stór partur af lífi svo margra. Í þessu felst ábyrgð. Við gegnum mikilvægu hlutverki og njótum þeirra forréttinda að hafa sterka rödd í samfélaginu. Þessa rödd þurfum við að nýta til góðs og megum ekki gleyma að samfélagsábyrgð okkar er mikil, sem bæði uppeldisafl og afrekshreyfing.

Sameinum krafta okkar

Öll félög eiga sinn þátt í að efla knattspyrnu á Íslandi. Það er mikilvægt að ekki myndist gjá á milli litlu og stóru liðanna, landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis eða milli KSÍ og félaganna, heldur að litið sé á og við lítum á knattspyrnuhreyfinguna sem eina stóra heild þar sem við öll erum mikilvæg.

Framundan er ársþing KSÍ og í tengslum við það verður málþingið „Hvers vegna er fótbolti á landsbyggðinni mikilvægur fyrir allan fótbolta á Íslandi?“ Stutta svarið er: Við erum öll í sama liðinu. Það lengra snýr m.a. að samkennd, samstöðu, ábyrgð, afreksstarfi, fjölbreytni, byggðaþróun, framtíð fótboltans og framtíð Íslands. Við í stjórn KSÍ höfum áhyggjur af stöðu knattspyrnunnar úti á landi. Ferðalög verða fleiri og lengri, með tilheyrandi kostnaði og aðstaða er ekki nógu góð á of mörgum stöðum. Þetta er frjór jarðvegur fyrir brottfall, fækkun liða og að bilið aukist. Við sjáum skýr merki um þetta í dag. Samstaða okkar allra er mikilvæg og það væri óskandi og í raun bráðnauðsynlegt að stjórnvöld komi með okkur í að vinna gegn þessari þróun.

Stefnumótun og samráð

Á síðasta ári voru haldnir tveir upplýsingafundir formanns fyrir félögin, ásamt formanna- og framkvæmdarstjórafundi í nóvember. Fundirnir heppnuðust vel og voru erindi þeirra Ólafs Kristjánssonar, Ívars Ingimarssonar og Lúðvíks Gunnarssonar á fyrri hluta formanna- og framkvæmdastjórafundarins um leiðir til að bæta árangur í íslenskri knattspyrnu. Við munum halda áfram með sambærilega fundi. Við brennum öll fyrir fótboltann. Að horfa fram í tímann, móta stefnu, finna leiðir til að bæta árangur og gæta þess að við missum ekki af lestinni í þeirri miklu og hröðu framþróun sem einkennir fótboltann í Evrópu og er okkar sameiginlega verkefni. Auðvitað höfum við gegnum árin gert frábæra hluti, svo eftir er tekið víða um heim.

Í alþjóðlegu samstarfi heyrum við reglulega setningarnar „Hvernig farið þið eiginlega að þessu?“ og „Fyrst Ísland getur þetta þá getum við þetta“ en ekki má sofna á verðinum. Tengt þessu erum við í vinnu með UEFA Grow sem snýr að heildarstefnumótun KSÍ til næstu fjögurra ára. Þessi vinna hefur staðið yfir undanfarna mánuði og er langt komin. Verður boðað til kynningar á næstu mánuðum. Með þessari stefnumótunarvinnu fáum við mikilvæg verkfæri og yfirsýn fyrir öll verkin framundan. Verkefnin eru mörg og brýn og nauðsynlegt að setja í farveg faglegrar stefnumótunar. Ýmis félög hafa farið út í stefnumótun, sem er vel. Við hvetjum þau félög sem ekki hafa farið út í þá vinnu að gera það, sé þess nokkur kostur. Til dæmis er fróðlegt að heyra um stefnumótun KA og Selfoss, tvær ólíkar en árangursríkar leiðir. Við eigum ekki að hika við að segja hvert öðru frá því sem vel gengur. Samráð og samstarf gerir okkur öll betri.

Valur Mjólkurbikarmeistarar

Íslenski boltinn

Á árinu varð Breiðablik Íslandsmeistari karla með nokkrum yfirburðum og Víkingar bikarmeistarar. Árið var stórt hjá Val sem varð Íslands- og bikarmeistari kvenna. Vil ég nota tækifærið og óska þessum liðum til hamingju með árangurinn. Sama á við um þau lið sem komust upp um deild, sem og þau félög sem urðu Íslands- og eða bikarmeistarar yngri flokka. Við náðum fínum árangri í Evrópukeppnum karla og frá og með tímabilinu 2024 verða vonandi fjögur lið í Evrópukeppnunum á ný, þó að UEFA hafi reyndar ekki staðfest það við okkur. Kvennamegin var Valur nálægt því að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Árangur í Evrópukeppnum er auðvitað mjög mikilvægur fyrir íslenska knattspyrnu og óhætt er að spá því að innan fárra ára komist íslenskt karlalið í riðlakeppni Evrópukeppnanna og kvennalið í riðlakeppni meistaradeildarinnar á ný.

Í fyrra var Besta deild karla spiluð með nýju fyrirkomulagi. Það var ekki eins mikil spenna og við hefðum viljað en ég er bjartsýn á þetta ár. Þá verða einnig breytingar í Bestu deild kvenna og Lengjudeild karla, þannig að haustið verður eflaust spennandi á mörgum vígstöðvum. Einnig eru breytingar í neðri deildum karla og neðrideildar bikarkeppni karla hefur göngu sína. Þá lítur 2. deild kvenna ágætlega út en þar má gera bragarbót. Er það von okkar að kvennaliðum fjölgi á næstu árum og innan tíðar verði 3. deild kvenna stofuð. Þá er virkilega ánægjulegt að á síðsta ári var í fyrsta skiptið leikið Íslandsmót hjá körlum 60 ára og eldri, sem bættist þá við mótin fyrir 40+ og 50+ og í sumar verður í fyrsta skiptið Íslandsmót í eldri aldursflokki kvenna. Ekki er hægt að ljúka umfjöllun um íslenska boltann án þess að tala um dómarana okkar. Vil ég þakka þeim kærlega fyrir þeirra störf og um leið skora á alla í hreyfingunni, leikmenn á öllum aldri, þjálfara, foreldra og annað stuðningsfólk að virða störf dómara og sýna þeim kurteisi og virðingu.

Stjórn KSÍ fundaði á Selfossi

Uppeldisstarf, útbreiðsla og grasrót

Eins og alltaf er barnastarfið stór þáttur innan hreyfingarinnar. Hjartað okkar slær með börnunum og starfseminni í yngri flokkum enda eru verðmætin sem þar felast ómetanleg. Árið 2022 fóru um 8 þúsund leikir fram á vegum KSÍ og um 24 þúsund ef leikir í mótum félaganna eru taldir með. Starfsemin er því gríðarlega viðamikil, hvort sem átt er við fjölda eða útbreiðslu um landið. Þessu fylgir ábyrgð, kostnaður og gríðarleg vinna starfsmanna, þjálfara og ekki síst sjálfboðaliða í félögum um allt land. Arðsemi og ávinningur er mikill, hver króna sem sett er í fótboltann skilar sér margfalt til baka. Ekki ætti því að tala um stuðning heldur fjárfestingu. Fjárfestingu í heilsu og lífsgæðum, forvörnum, hreyfingu og útiveru. Nú, árið 2023, hefur þetta aldrei verið mikilvægara.

Við höfum viljað auka þátttöku iðkenda í ákvarðanatöku og héldum á nýliðnu ári fyrsta ungmennaþing KSÍ. Þangað mættu um 60 ungmenni á aldrinum 12 til 18 ára frá öllum landshlutum. Á þinginu voru mál knattspyrnunnar rædd og komu ungmennin með sínar hugmyndir og skoðanir. Ungmennin stóðu sig frábærlega og og varð þetta einn af mínum uppáhaldsdögum í starfi. Eitt umræðuefni þingsins var hegðun foreldra á fótboltamótum þar sem sumir nefndu að gott væri ef foreldrar héldu sig nokkra metra frá vellinum á meðan á leik stæði. Þá höfðu ungmennin mikla skoðun á dómgæslu og kölluðu þau til dæmis eftir því að dómarar væru að minnsta kosti nokkrum árum eldri en leikmennirnir. Á þinginu buðu 20 ungmenni sig fram í fyrsta ungmennaráð KSÍ og held ég að við sem fullorðin erum gætum öll lært fullt af þessum flottu krökkum. Það skiptir öllu máli að tryggja að þeirra rödd heyrist sem víðast. Viljum við þakka félögum sem sendu ungmenni á þingið kærlega fyrir aðstoðina. Ég hlakka til að fylgjast með þessu starfi áfram, enda er framtíðin þeirra.

Þá var fyrsti barna- og unglingaráðadagurinn haldinn í janúar og bar hann yfirskriftina „Deilum því sem vel er gert“. Markmið hans var að félögin myndu læra hvert af öðru og koma af stað samtali sín á milli varðandi málefni barna- og unglingastarfs. Dagurinn var afskaplega vel heppnaður og fyrirhugað er að halda slíkan dag árlega.

Fræðslumálin gengu vel á árinu 2022 og eru í föstum skorðum. Sífellt bætast fleiri námskeið við og þjálfarar flykkjast á námskeiðin okkar. Eftir óskir frá félögunum var bætt við fræðslukvöldum formanns KSÍ um einelti, samskipti og forvarnir, sem haldin voru í Reykjavík, Egilstöðum og á Akureyri. Það síðasta verður á Ísafirði tveimur dögum fyrir ársþing.

Haustið 2022 héldum við tvo stjórnarfundi utan Reykjavíkur, í Keflavík og á Selfossi. Auk stjórnarfunda héldum við fundi með félögunum á svæðinu og skoðuðum aðstæður. Við höfum í hyggju að halda þessu áfram, enda bæði gagnlegt og gaman að heimsækja félögin með þessum hætti. Ég heimsótti auk þess fjölda félaga og hitti sveitarstjórnarfólk víða um land til að ræða aðstöðumál. Vil ég árétta það hér að ég er tilbúin hvenær sem er til að mæta með félögum á slíka fundi í þeim tilgangi að leggja lóð á vogaskálar félaganna.
Þá heimsóttum við fimm ráðherra ríkisstjórnarinnar. Á þessum fundum var rætt um mikilvægi fótboltans og aðkomu ríkisins. Um leið og við þökkum góðar viðtökur vil ég hvetja ráðherrana til að láta verkin tala og styðja við félögin í landinu.

U21 karla fagnar marki gegn Skotlandi
Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Landsliðin og afreksstarfið

Við þurfum að fjölga iðkendum, efla grasrótina, virkja fleiri sjálfboðliða og á sama tíma bæta árangur og hæfileikamótun leikmanna. Allt vinnur þetta saman. Það er mín einlæga skoðun að öflugt grasrótarstarf og uppeldishlutverk knattspyrnunnar eigi að geta haldist hönd í hönd við öflugt afreksstarf. Mikilvægt er að lyfta uppeldishlutverki knattspyrnunnar þar sem lang flestir sem stunda knattspyrnu taka fyrst og fremst gildin, félagsskapinn og uppeldið með sér út í lífið. En á sama tíma þarf að styrkja afreksstarfið, enda koma tekjurnar okkar fyrst og fremst í gegnum landsliðin okkar og þar þurfum við að lyfta afreksstefnu KSÍ, aðgerðabinda hana enn frekar og fjármagna betur.

Árið var gott hjá yngri landsliðum okkar og árangur var framar vonum. Þau eru auðvitað framtíðin og því er gríðarlega ljúft og ánægjulegt að sjá gott gengi þeirra og alla þá hæfileika sem í þeim liðum er að finna.

A-landsliðin okkar eru aftur á móti stóru númerin. Þau vekja mesta athygli, þau snerta mest við þjóðarsálinni, þaðan koma mestu umræðurnar og mestu tekjurnar. Ég fyllist alltaf stolti þegar ég fylgist með þeim en við gerum líka kröfur til þeirra. Og því verður ekki neitað að við gerðum okkur væntingar um betri árangur á árinu 2022 hjá A kvenna. Þar vorum við svo ofboðslega nálægt lokamarkmiðinu en það dugði ekki til og þar þarf að skoða hvað er hægt að gera betur. Þjálfarar liðsins og leikmenn hafa þegar hafið þá vegferð og ég hef fulla trú á að það gangi vel. A landslið karla er búið að vera í ákveðinni endurnýjun og uppbyggingarfasa. Framfarir voru á síðasta ári en núna er kominn tími og krafa á árangur. Þjálfararnir, teymið í kringum liðið og leikmennirnir sjálfir eru örugglega á sama máli. Aðeins voru þrír heimaleikir í A landsliðum karla og kvenna á Laugardalsvelli á síðasta ári, ásamt skemmtilegum leikjum U21 á Víkingsvelli. Staðan er allt önnur árið 2023 og fjölmargir spennandi leikir eru framundan á árinu. Það er hagur okkar allra þegar landsliðin ná góðum árangri og stemmning myndast. Sjáumst á vellinum.

Árangur landsliða byggir ekki eingöngu á frammistöðu eins landsliðsþjálfara heldur þeirra teyma sem vinna í kringum liðin og þeirri umgjörð sem sköpuð er. Þar getum við alltaf gert betur og munum við halda áfram að byggja á þeim góða grunni sem við höfum. Langar mig að þakka landsliðsþjálfurum KSÍ og öllum þeim sem í kringum liðin starfa, ásamt leikmönnum, kærlega fyrir árið.

Á milli 750 og 800 knattspyrnukonur og -menn taka þátt í afreksstarfi KSÍ í 12 landsliðum, ásamt hæfileikamótun. Þetta eru allt frábærir leikmenn sem við fáum upp úr gróskumiklu starfi félaganna. Leiknir verða 93 landsleikir á árinu 2023. Við erum reglulega á stórmótum, í umspili og milliriðlum. Við uppfyllum öll skilyrði sem sett eru í reglugerð afrekssjóðs ÍSÍ um úthlutanir. Þrátt fyrir þetta fáum við núll krónur enn eitt árið. Við leikum 40 – 60% færri yngri landsleiki en löndin sem við viljum bera okkur saman við, löndin sem við erum að spila gegn. Okkar unga afreksfólk er því ekki jafnvel undirbúið og andstæðingar þeirra. Úthlutun úr afrekssjóði ÍSÍ myndi breyta miklu fyrir okkur öll.

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari karla hætti sem sviðsstjóri knattspyrnusviðs á árinu og Jörundur Áki Sveinsson tók við. Mig langar að þakka Arnari Þór kærlega fyrir hans störf á þessum vettvangi sem munu nýtast okkur vel íslenskri knattspyrnu til heilla.

Við þurfum að bæta árangur íslenskrar knattspyrnu, fjölga leikmönnum í hæsta styrkleikaflokki og bæta umgjörðina í kringum A landslið. Við erum með stórar hugmyndir tengdar þessu og munum kynna þær nánar á komandi ársþingi KSÍ og á næstu mánuðum.

Byggjum upp til framtíðar – fjármögnun og mannvirkjamál

Í ársuppgjöri sambandsins má sjá að á síðasta ári varð rúmlega 156 milljóna króna hagnaður af starfseminni. Þessi afgangur kemur fyrst og fremst gegnum uppgjör á sjónvarpsgreiðslum og stuðningi ríkisins vegna kostnaðar við Covid.

Það er auðvitað alveg frábært að við séum að skila afgangi og sýnir að sambandið stendur traustum fótum og er vel rekið. Ég vil sérstaklega þakka framkvæmdastjóra og fjármálastjóra KSÍ, sem og varaformönnum og fjárhagsnefnd, fyrir sitt góða starf sem við megum vera stolt af. Nú höfum við styrkt eigið fé sambandsins, sem UEFA mælir með að við gerum. Aftur á móti var um einskiptisgreiðslur að ræða og við megum því ekki missa fótana. Þeir sem á undan mér og okkur gengu sýndu þá fyrirhyggju að búa til varasjóð KSÍ. Vegna þess getum við mætt þeirri óvissu og sveiflum sem einkenna reksturinn, þar sem skiptast á skin og skúrir. Ég vil einnig halda því til haga að á árinu 2022 bættum við í greiðslur til félaga um 30% og fórum um 36 milljónir yfir áætlun varðandi þann þátt – þannig að félögin hafa mörg þegar notið þessara auknu tekna. Sterkara KSÍ er betur í stakk búið til þess að efla íslenskan fótbolta í heild og það að KSÍ hafi fjármagn í rekstrinum er forsenda þess að geta veitt félögum góða þjónustu eins og þau eiga skilið.

Nýlega sögðum við frá því að framkvæmdastjóri KSÍ hafi fengið umboð stjórnar til þess kanna mögulega leikstaði erlendis fyrir heimaleiki A-landsliðanna okkar ef þau þurfa að leika umspilsleiki í febrúar, mars og nóvember á næstu árum. Auðvitað reynum við alltaf að forðast umspilsleiki en það væri þó óábyrgt að undirbúa okkur ekki fyrir þann möguleika. Það að við þurfum mögulega að leika hluta heimaleikja A-landsliðanna okkar erlendis er að sjálfsögðu grafalvarlegt mál fyrir íslenska knattspyrnu á svo margan hátt, landsliðin okkar og síðast en ekki síst sjálfsmynd okkar sem þjóðar.

Ég talaði líka um aðstöðuna á Laugardalsvelli í ávarpi mínu í síðustu ársskýrslu KSÍ og það er leiðinlegt að segja að síðan þá hefur lítið þokast áfram í þessum málum, þrátt fyrir góðan vilja. Leikvangurinn er enn á undanþágum og við getum ekki látið bjóða okkur þessa aðstöðu mikið lengur. UEFA bíður enn svara um framkvæmdir og því miður er lítið um svör.

Við vitum það öll að bygging nýs þjóðarleikvangs hefur lengi verið í umræðunni en þrátt fyrir það höfum við lítið séð gerast í þeim málum. Við höfum sjálf sagt frá þeirri hugmynd Kristjáns Ásgeirssonar, sem á sæti í mannvirkjanefnd KSÍ, að byggja ætti nýjan þjóðarleikvang við Suðurlandsbrautina í stað þess að endurbyggja Laugardalsvöll á þeim stað sem hann er nú. Þannig mætti tengja við nýja þjóðarhöll, byggja afreksmiðstöð, sameina aðstöðu og búa til miðstöð íþrótta, hreyfingar og heilbrigðis bæði fyrir afreksfólkið okkar og almenning. Það eru því vissulega kostir við þessa leið og okkur langar að skoða hana betur. Það að byggja nýjan þjóðarleikvang er risa stórt verkefni sem við myndum vilja sjá okkur komast vel af stað með á þessu ári. Íslensk knattspyrna á það skilið að eiga völl sem við getum verið stolt af.

Vanda á fundi hjá UEFA

Jafnrétti

Við vitum það öll að það er margt innan knattspyrnunnar sem kemur að jafnrétti sem þarf að bæta. Auðvitað hefur mjög margt áunnist en vert er að minna á að við græðum öll á því að stuðla að jafnrétti enda er vitað að þegar að fjölbreyttir hópar koma að borðinu skilum við betri árangri. Jafnrétti er mín ástríða og það var mér því mikill heiður að flytja erindi á fundi formanna og framkvæmdastjóra knattspyrnusambanda innan UEFA í október. Viðfangsefnið var fjölgun kvenna í nefndum og stjórn UEFA og í framhaldinu var stofnaður vinnuhópur til þess að skoða þessi mál og sit ég í honum ásamt tveimur öðrum konum og fimm körlum víða að úr Evrópu.

Við í KSÍ stöndum vel þegar það kemur að jafnri stöðu kynjanna í nefndum og stjórn sambandsins. Má til dæmis nefna að hjá okkur eru 47% nefndarmeðlima konur og við höfum náð að fjölga konum á ársþingi okkar síðustu þrjú árin og á ársþinginu í fyrra voru 20% þingfulltrúa konur. Aldrei höfðu áður verið jafnmargar konur þingfultrúar. Og ef við berum okkur saman við alþjóðlega félaga okkar stöndum við virkilega vel en í nefndum á vegum UEFA eru aðeins 14% konur.

En við eigum auðvitað ekki að bera okkur saman við UEFA heldur eigum við að halda áfram í okkar eigin vegferð og setja markið hærra. Í því samhengi má nefna að við þurfum miklu fleiri kvenþjálfara og kvendómara. Þá er einnig mikilvægt að við höfum alltaf jafnrétti í sínum víðasta skilningi að leiðarljósi, pössum að engum innan íslenskrar knattspyrnu sé mismunað og að vel sé tekið á móti öllum þeim sem vilja starfa innan hreyfingarinnar.

Ég vil biðja ykkur öll að taka þátt eins og þið getið í þessu verkefni okkar.

Að lokum

Mig langar að þakka stjórn, nefndum og starfsfólki KSÍ kærlega fyrir samstarfið og þeirra störf á árinu 2022. Sama gildir um fólkið í félögunum um allt land. Framundan er nýtt ár, ný verkefni og nýjar áskoranir, sem við mætum með brosi á vör. Eggert Magnússon, fyrrum formaður KSÍ, talaði um að bretta upp ermar og fara að vinna. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Ég hlakka til verkefnanna framundan sem eiga það öll sameiginlegt að styðja við og efla íslenska knattspyrnu enn frekar. Gleymum ekki hlutverki okkar í samfélaginu og nýtum röddina okkar. Sýnum eldmóð og verum bjartsýn, enda er framtíðin björt.

Áfram Ísland

Vanda Sigurgeirsdóttir
Formaður KSÍ

Augnablik ...