Vanda á ársþingi KSÍ

Ávarp formanns

Ágætu félagar.

KSÍ birtir nú ársskýrslu sína fyrir árið 2024 þar sem stiklað er á stóru um ýmislegt í knattspyrnustarfinu frá árinu sem leið.  Skýrslan er eins og síðustu ár gefin út rafrænt og byggir sem fyrr á fréttaflutningi og ýmsum greinum sem finna má á vef KSÍ.  Hvert einasta knattspyrnuár er viðburðaríkt og það á einnig við um árið 2024, sem var mitt fyrsta ár sem formaður KSÍ.  Það væri hægt að hafa hér langt mál um allt sem gerðist á árinu og því læt ég ársskýrsluna tala sínu máli, en langar þó að koma inn á nokkur verkefni og áskoranir.

Eins og kunnugt er var ráðist í löngu tímabærar endurbætur á leikfleti Laugardalsvallar í haust sem leið, þar sem verið er að setja nýtt gras (hybrid) og upphitunarkerfi til að lengja notkunartíma vallarins og gera okkur kleift að spila leiki þar mestan part ársins.  Vonir standa til að völlurinn verðir tilbúinn í júní og vonandi tekst það.  Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu mikið hagsmunamál endurbætur og uppbygging á Laugardalsvelli, þjóðarleikvanginum okkar, er fyrir knattspyrnuhreyfinguna.  Alltof löng kyrrstaða í þessum málum hefur verið rofin og framkvæmdir eru hafnar.  Með þessum fyrsta fasa framkvæmda er boltinn farin að rúlla og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að láta þann bolta rúlla áfram vel og örugglega.

Gangi framkvæmdir við leikflöt samkvæmt áætlunum er ljóst að fyrsti leikurinn á nýjum leikfleti verður leikur A landsliðs kvenna við Frakkland í Þjóðadeild UEFA.  Kvennalandsliðið okkar er á leið á sitt fimmta EM í röð.  Ég er ekki viss um að við gerum okkur öll fyllilega grein fyrir því hversu stórt afrek það er. Undir stjórn Þorsteins Halldórssonar hefur liðið náð góðri siglingu og er fyllilega samkeppnishæft við sterkustu landslið í Evrópu.  Glæsilegur sigur liðsins á Þýskalandi síðasta sumar staðfesti það.  Framundan er EM í Sviss þar sem von er á miklum fjölda íslenskra stuðningsmanna og ég er ekki í nokkrum vafa um að stelpurnar okkar og stuðningsmenn liðsins munu verða landi og þjóð til mikils sóma.

Það voru sviptingar í þjálfaramálum A landsliðs karla á árinu sem leið og í byrjun þessa árs.  Åge Hareide hætti störfum um haustið og í janúar tók Arnar Gunnlaugsson við stjórnartaumunum.  Við gáfum okkur góðan tíma í ráðningarferlinu, vönduðum okkur og erum ánægð með niðurstöðuna.  Það eru spennandi tímar framundan hjá íslenska landsliðinu, margir virkilega áhugaverðir leikmenn sem eiga framtíðina fyrir sér.  Við höfum mikla trú á Arnari sem þjálfara og hlökkum til að vinna með honum næstu árin, og vonandi sem lengst.

Árangur íslenskra félagsliða í Evrópukeppnum síðustu árin hefur verið eftirtektarverður. Nýtt fyrirkomulag mótanna hjá UEFA hefur verið virkilega vel lukkað og Sambandsdeildin gefur félagsliðum eins og okkar frábær tækifæri, sem þau hafa svo sannarlega gripið.  Víkingar tóku við keflinu af Blikum og hafa náð lengra í Evrópukeppni en nokkurt annað íslenskt félagslið.  Frábær árangur og það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með.

Aðildarfélögin okkar vinna einstakt starf.  Það er líklega einsdæmi í heiminum hvernig íslensk félög ná að finna jafnvægið milli grasrótarstarfs og afreksstarfs fyrir alla sína iðkendur, þrátt fyrir að treysta sem fyrr að miklu leyti á óbilandi ástríðu og dugnað sjálfboðaliða sinna.  Starfsfólk félaganna á ekki síður skilið þakkir fyrir að standa undir öllum þeim miklu verkefnum sem þau þurfa að takast á við á ári hverju.

Fyrr í þessum mánuði skrifaði KSÍ undir samstarfssamning við Eimskip, sem bætist þar með í hóp okkar öflugu bakhjarla, sem margir hverjir hafa verið samstarfsaðilar KSÍ til langs tíma. Það má ekki vanmeta þátt fyrirtækja sem bakland í knattspyrnustarfinu og þeim má aldrei taka sem sjálfsögðum hlut, þetta á bæði við um KSÍ og félögin.  Við þurfum að rækta sambandið og samstarfið við þau, því þetta er jú samstarf.  Fótboltinn hefur mikið samfélagslegt verðmæti.  Það sjá þessi fyrirtæki og þess vegna vilja þau tengjast íþróttinni okkar.  Þau vilja gefa af sér til samfélagsins og í gegnum fótboltann gera þau það svo sannarlega.

Þeim liðum sem unnu stóra sigra og titla á síðasta ári óska ég innilega til hamingju með árangurinn og öllum liðum vil ég óska velfarnaðar á komandi keppnistímabili.  Auðvitað er það gangur fótboltans að sumum liðum gengur betur en öðrum, sum vinna titla og sum falla niður um deild.  Öll liðin eiga það þó sameiginlegt að þau koma aftur til leiks að ári uppfull af eldmóði og baráttuanda, tilbúin til að takast á við það sem er framundan.Síðast en ekki síst þá langar mig að minnast Ellerts B. Schram heiðursformanns KSÍ, sem lést í janúar á þessu ári 85 ára að aldri. Íþróttahreyfingin og þá knattspyrnan sérstaklega átti hug og hjarta Ellerts og fékk að njóta starfskrafta hans um langt árabil.  Minningargrein um Ellert er hér í ársskýrslunni þar sem ferill hans er rakinn í stuttu máli.  Ferilskrá Ellerts er auðvitað einstök, enda var hann um margt einstakur maður. Við minnumst hans og allra þeirra góðu verka sem hann vann fyrir íslenska knattspyrnu.

Kæru félagar.  Ég hlakka virkilega til komandi verkefna með ykkur.   Saman erum við sterkust. Framtíð íslenskrar knattspyrnu er björt.

Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ

Augnablik ...