Yngri landslið

U23 kvenna

U23 kvenna mætti Finnlandi í tveimur vináttuleikjum sem báðir fóru fram í Finnlandi. Fyrri leiknum lauk með 0-3 tapi, en Ísland vann þann seinni 2-1 með mörkum frá Bergdísi Sveinsdóttur og Ísabellu Söru Tryggvadóttur.

U21 karla

Mynd - Mummi Lú

U21 lið karla spilaði 5 leiki í undankeppni EM 2025 á árinu. Ísland var í riðli með Danmörku, Tékklandi, Wales og Litháen. Fyrsti leikur liðsins á árinu 2024 var útileikur gegn Tékklandi. Tékkar unnu þann leik 4-1 en Kristall Máni Ingason skoraði mark Íslands úr vítaspyrnu. Í september spilaði liðið tvo heimaleiki á Víkingsvelli. Fyrri viðureignin var gegn Danmörku þar sem Ísland vann glæsilegan 4-2 sigur. Ari Sigurpálsson skoraði þar eitt mark og Kristall Máni Ingason átti þrennu. Seinni heimaleikurinn var gegn Wales þar sem Walesverjar höfðu betur 1-2, Óskar Borgþórsson skoraði mark Íslands. Í október tók íslenska liðið á móti Litháen á Víkingsvelli og endaði sá leikur með 0-2 tapi, og að lokum mætti liðið Danmörku í útileik sem endaði einnig með 0-2 tapi. Íslenska liðið endaði því í 4. sæti riðilsins með 9 stig, en Danir tryggðu sér sæti á lokamótinu og Tékkar fóru í umspil.

Í nóvember spilaði liðið einn æfingaleik. Þar sem margir leikmenn kvöddu liðið eftir undankeppni EM vegna aldurs voru margir nýir leikmenn sem komu inn í hópinn fyrir þennan leik. Liðið mætti Póllandi og fór leikurinn fram á Pinatar á Spáni. Íslenska liðið vann góðan 2-1 sigur þar sem Benoný Breki Andrésson og Hilmir Rafn Mikaelsson skoruðu mörk Íslands.

U20 karla

U20 karla mætti Ungverjalandi í tveimur vináttuleikjum sem fóru báðir fram á Gyirmóti Stadion í Györ, Ungverjalandi. Báðir leikirnir enduðu með sigri heimamanna, 2-0 og 4-0.

U19 kvenna

U19 kvenna hóf árið á æfingamóti í Portúgal þar sem liðið mætti Portúgal og Finnlandi. Fyrri leikur Íslands endaði með 2-2 jafntefli gegn Portúgal og voru það Elísa Lana Sigurjónsdóttir og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir sem skoruðu mörk Íslands. Ísland vann svo góðan 2-0 sigur gegn Finnlandi með mörkum frá Bergdísi Sveinsdóttur og Ísabellu Söru Tryggvadóttur.

Næsta verkefni liðsins var seinni umferð undankeppni EM 2024 og var riðillinn leikinn í Króatíu. Ísland var þar í riðli með Írlandi, Austurríki og Króatíu. Fyrsti leikur liðsins var gegn Írlandi og endaði hann með 1-4 tapi, en Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði mark Íslands. Næst vann liðið 3-1 sigur gegn Króatíu með mörkum frá Kötlu Tryggvadóttur, Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur og Emelíu Óskarsdóttur. Síðasti leikur liðsins var svo gegn Austurríki og endaði hann með 2-3 tapi. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Bergdís Sveinsdóttir skoruðu mörkin.

Liðið tók þátt í æfingamóti í Svíþjóð í júlí í undirbúningi sínum fyrir fyrri umferð undankeppni EM 2025. Þar mætti það fyrst Noregi og endaði sá leikur með 1-2 tapi, Hrefna Jónsdóttir skoraði mark Íslands. Seinni leikurinn endaði með 1-1 jafntefli gegn Svíþjóð, en leikurinn var flautaður af eftir 61. mínútu vegna veðurs. Emelía Óskarsdóttir skoraði mark Íslands stuttu áður en það gerðist.

Fyrri umferð undankeppni EM 2025 fór svo fram í lok nóvember og byrjun desember. Þar tryggði Ísland sér áframhaldandi veru í A deild undankeppninnar fyrir seinni umferðina í vor. Ísland hóf leik með 1-1 jafntefli gegn Belgíu, þar sem Belgía jafnaði leikinn með síðustu spyrnu leiksins, en Bergdís Sveinsdóttir hafði áður komið Íslandi yfir í fyrri hálfleik. Spánn var næsti mótherji liðsins og endaði sá leikur með 0-3 sigri Spánverja. Ísland mætti svo Norður Írlandi í síðasta leiknum og var ljóst að jafntefli yrði nóg til að halda sætinu í A deild undankeppninnar. Norður Írland komst yfir á 84. mínútu leiksins, en Ísabella Sara Tryggvadóttir jafnaði metin þremur mínútum síðar og þar við sat.

U19 karla

U19 karla tók þátt í æfingamóti í Slóveníu í undirbúningi sínum fyrir fyrri umferð undankeppni EM 2025. Þar mætti liðið Mexíkó, Katar og Kasakstan. Ísland hóf mótið með frábærum 3-0 sigri gegn Mexíkó. Tómas Johannessen skoraði tvö mörk og Daníel Tristan Guðjohnsen eitt. Næst mætti liðið Katar og tapaði þeim leik 0-1. Kasakstan var mótherjinn í síðasta leik mótsins og vann Ísland þar sannfærandi 5-2 sigur. Daði Berg Jónsson skoraði tvö mörk og þeir Daníel Tristan Guðjohnsen, Sölvi Stefánsson og Stígur Diljan Þórðarson sitt markið hver.

Liðið var í riðli með Írlandi, Moldóvu og Aserbaídsjan í undankeppni EM 2025, en leikið var í Moldóvu. Ísland hóf riðilinn með góðum 2-0 sigri gegn Aserbaídsjan og var það Tómas Johannessen sem skoraði bæði mörk Íslands. Ísland vann því næst 1-0 sigur gegn Moldóvu, en mark leiksins var sjálfsmark. Seinasti leikur liðsins endaði svo með 1-2 tapi gegn Írlandi, en Daniel Ingi Jóhannesson skoraði mark Íslands.

U17 kvenna

Ísland hóf leik í febrúar á seinni umferð undankeppni EM 2024, en hún var leikin í Portúgal. Ísland mætti þar Portúgal, Finnlandi og Kósovó. Liðið hóf leik gegn Portúgal og tapaði þeim leik 0-1. Ísland tapaði svo 1-2 gegn Finnlandi, en Brynja Rán Knudsen skoraði mark Íslands. Seinasti leikurinn var gegn Kósovó og endaði hann með sannfærandi 4-0 sigri. Hrefna Jónsdóttir skoraði tvö mörk og þær Thelma Karen Pálmadóttir og Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir sitt markið hvor.

Í október tók liðið þátt í fyrri umferð undankeppni EM 2025 og var þar í riðli með Skotlandi, Póllandi og Norður Írlandi, en leikið var í Skotlandi. Ísland tapaði fyrsta leik sínum 0-2 gegn Skotlandi og þeim næsta gegn Póllandi, 0-1. Það var því ljóst að síðasti leikurinn yrði mikilvægur, en til að halda sæti sínu í A deild undankeppninnar mátti liðið ekki tapa. Það var hins vegar aldrei spurning þar sem Ísland vann 3-0 sigur gegn Norður Írlandi. Edith Kristín Kristjánsdóttir, Ágústa María Valtýsdóttir og Fanney Lísa Jóhannesdóttir skoruðu mörk Íslands.

U17 karla

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Ísland mætti Finnlandi í tveimur vináttuleikjum í lok febrúar og byrjun mars, en báðir leikirnir fóru fram í Finnlandi. Liðin unnu sinn leikinn hvort, Ísland þann fyrri 2-1 og Finnland þann seinni 4-1. Róbert Elís Hlynsson og Gils Gíslason skoruðu mörkin í fyrri leiknum, en Gils var svo aftur á skotskónum í seinni leiknum.

Liðið tók þátt í Telki Cup í Ungverjalandi í ágúst og mætti þar Ítalíu, Suður Kóreu og Ungverjalandi. Fyrsti leikurinn endaði með 3-4 tapi gegn Ítalíu þar sem Tómas Óli Kristjánsson, Guðmar Gauti Sævarsson og Karan Gurung skoruðu mörkin. Næst vann Ísland 1-0 sigur gegn heimamönnum í Ungverjalandi og var það Helgi Hafsteinn Jóhannsson sem skoraði sigurmarkið strax á 2. mínútu leiksins. Ísland vann svo 1-0 sigur gegn Suður Kóreu í síðasta leiknum með marki frá Tómasi Óla Kristjánssyni.

Ísland var í riðli með Spáni, Norður Makedóníu og Eistlandi í fyrri umferð undankeppni EM 2025. Riðillinn var leikinn á Íslandi að þessu sinni og fóru allir leikirnir fram á AVIS vellinum í Laugardal. Ísland hóf leik með glæsilegum 4-1 sigri gegn Norður Makedóníu, en Guðmar Gauti Sævarsson, Gunnar Orri Olsen, Tómas Óli Kristjánsson og Viktor Bjarki Daðason skoruðu mörk Íslands. Ísland vann næst Eistland 3-1 með mörkum frá Helga Hafsteini Jóhannssyni, Ásbirni Líndal Arnarssyni og Guðmari Gauta Sævarssyni. Ísland og Spánn mættust svo í úrslitaleik um toppsæti riðilsins í lokaleik hans. Íslenska liðið lék mjög vel og endaði leikurinn með 2-2 jafntefli þar sem Alexander Máni Guðjónsson og Gunnar Orri Olsen skoruðu mörkin.

U16 kvenna

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Ísland tók þátt í UEFA Development móti í mars og mætti þar Spáni, Belgíu og Norður Írlandi, en leikið var á Norður Írlandi. Fyrsti leikur liðsins endaði með 1-2 tapi gegn Spáni, en Fanney Lísa Jóhannesdóttir skoraði mark Íslands. Næsti leikur endaði með 1-1 jafntefli gegn Belgíu og var það Rebekka Sif Brynjarsdóttir sem skoraði markið. Síðasti leikurinn endaði einnig með 1-1 jafntefli, nú gegn Norður Írlandi. Fanney Lísa Jóhannesdóttir skoraði mark Íslands.

Í júlí tók liðið þátt í Opna Norðurlandamótinu og mætti þar Englandi, Danmörku og Tékklandi. Allir leikirnir töpuðust, 0-3 gegn Englandi, 0-1 gegn Danmörku og 1-2 gegn Tékklandi. Thelma Karen Pálmadóttir skoraði markið gegn Tékklandi.

Ísland og Færeyjar mættust í tveimur vináttuleikjum, 31. janúar og 2. febrúar, í Miðgarði í Garðabæ. Ísland vann báða leikina örugglega, þann fyrri 6-0 og þann seinni 7-0. Hafdís Nína Elmarsdóttir skoraði þrennu í fyrri leiknum og þær Elísabet María Júlíusdóttir, Kara Guðmundsdóttir og Anna Katrín Ólafsdóttir sitt markið hver. Í seinni leiknum skoraði Ásthildur Lilja Atladóttir tvö mörk og þær Björgey Njála Andreudóttir, Anna Katrín Ólafsdóttir, Elísabet María Júlíusdóttir, Kara Guðmundsdóttir og Sara Kristín Jónsdóttir sitt markið hver.

U16 karla

Ísland tók þátt í UEFA Development móti í mars og mætti þar Litháen, Færeyjum og Gíbraltar. Ísland vann 4-0 sigur gegn Gíbraltar í fyrsta leik sínum, en Sölvi Snær Ásgeirsson, Einar Freyr Halldórsson, Egill Orri Arnarsson og Viktor Bjarki Daðason skoruðu mörkin. Næst mætti liðið Færeyjum og vann 6-0 sigur. Björgvin Brimi Andrésson og Tómas Óli Kristjánsson skoruðu báðir tvö mörk, Sölvi Snær Ásgeirsson eitt og eitt var sjálfsmark Færeyja. Liðið endaði svo mótið á 1-4 tapi gegn Litháen, en Viktor Bjarki Daðason skoraði mark Íslands.

U15 kvenna

Liðið tók þátt í UEFA Development móti í nóvember og mætti þar Englandi, Noregi og Sviss, en leikið var á Englandi. Ísland hóf mótið á 3-5 tapi gegn Englandi, en Hafdís Nína Elmarsdóttir, Anna Katrín Ólafsdóttir og Björgey Njála Andreudóttir skoruðu mörk Ísland. Næsti leikur var 0-4 tap gegn Noregi, en Ísland gerði svo 3-3 jafntefli í síðasta leiknum gegn Sviss. Kara Guðmundsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum.

U15 karla

Ísland tók þátt í UEFA Development móti í október sem leikið var í Búlgaríu, en ásamt því að mæta heimamönnum lék liðið einnig gegn Spáni og Wales. Ísland hóf mótið á góðum 3-1 sigri gegn Wales. Benjamín Björnsson og Bjarki Hrafn Garðarsson skoruðu ásamt því að Wales skoraði eitt sjálfsmark. Næsti leikur endaði með 0-2 tapi gegn Spáni, en Ísland endaði mótið svo með 2-0 sigri gegn Búlgaríu. Bjarki Hrafn Garðarsson og Benjamín Björnsson voru aftur á skotskónum í þeim leik.

Augnablik ...