Stefnumótun KSÍ
Stefnumótun KSÍ 2023-2026: "Frá Grasrót til stórmóta"
Í stefnumótun KSÍ fyrir árin 2023-2026, „Frá grasrót til stórmóta“, er fjallað um helstu þætti starfs og verkefna KSÍ á því árabili. Stefnumótunin var unnin með stuðningi UEFA Grow, sem hefur aðstoðað um 40 knattspyrnusambönd í Evrópu í þeirra stefnumótunarvinnu.
Lögð var áhersla á að sýna fram á hvernig hinir ýmsu þættir íslenskrar knattspyrnu tengjast og styðja við hvern annan - grasrótarstarfið og afreksstarfið, félagsliðin og landsliðin, aðildarfélögin og KSÍ - og hvernig hægt er að gera sem flestum kleift að vera þátttakendur í knattspyrnuhreyfingunni.
Inntakið í „Frá grasrót til stórmóta“ er að kortleggja leið allra þátttakenda í gegnum knattspyrnuhreyfinguna - ekki bara leikmanna, heldur líka dómara, þjálfara, sjálfboðaliða, starfsmanna félaganna, og annarra - og reyna að finna jafnvægi milli grasrótarstarfs og afreksstarfs. Fótboltinn snýst um fólkið, þátttakendurna, og KSÍ vill að allir geti tekið þátt í fótbolta, á sínum forsendum og í því hlutverki sem hentar.
Áhersluatriði
Þátttaka – Þróa möguleika og tækifæri til þátttöku í knattspyrnu fyrir alla, óháð aldri, getu, tekjum eða kyni. |
---|
Afreksstarf - Þróa teymi sérfræðinga sem hafa aðgang að gögnum og öðrum nauðsynlegum tólum í þeim tilgangi að styðja sem best við landslið okkar og hámarka möguleika á að ná árangri. |
Aðildarfélög – Halda áfram að efla og þróa reglulegt samtal við aðildarfélögin til að þekkja sem best þeirra stöðu og áskoranir, til að geta stutt við þeirra starf og verkefni eftir fremsta megni. |
Innviðir – Tryggja stuðning til að byggja upp innviði og aðstöðu KSÍ, s.s. þjóðarleikvang og æfingasvæði, til að efla knattspyrnulega umgjörð og auka rekstrartekjur. |
Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni – Gera grein fyrir áhrifum starfs okkar á samfélagið til að auka skilning almennings á því hlutverki sem við gegnum á Íslandi og í heimi knattspyrnunnar, umfram frammistöðu landsliða okkar. |
Stefnumótun knattspyrnusambands er eins og gefur að skilja afar umfangsmikil og snertir á flestum ef ekki öllum þáttum knattspyrnustarfsins. Fjölmörg verkefni tengjast stefnumótun KSÍ og leiðirnar að markmiðunum eru einmitt sá þáttur sem getur tekið hvað mestum breytingum á tímaramma stefnumótunarinnar.
Utanumhald stefnumótunar KSÍ er í föstum skorðum og skipulaginu er ætlað að tryggja framgang hinna ýmsu verkefna, sem er raðað innan hvers árs á gildistímanum. KSÍ notar Microsoft Teams lausnina til að halda utan um verkefnin og framgang þeirra og UEFA hyggst nota KSÍ-leiðina sem dæmi um góða lausn og verklag við að halda utan um innleiðingu og framkvæmd á verkefnum stefnumótunar, sérstaklega fyrir fámenn sambönd sem hafa ekki mikinn mannskap til að halda utan um stefnumótunarvinnu. Í sama tilgangi mun UEFA nefna þá leið sem KSÍ hefur farið við að kynna sína stefnumótun og áhrif þeirra aðgerða sem ráðist er í.
Stefnumótun KSÍ 2023-2026 er nú um það bil hálfnuð. Alls voru þetta um 100 verkefni sem höfðu beina tengingu við stefnumótunina. Rétt er að geta þess að það er þó langt frá því að vera allur verkefnalisti KSÍ. Mörgum verkefnum er þegar lokið og mörg vel á veg komin. Öllum verkefnum og aðgerðum er ætlað að hafa jákvæð áhrif á íslenska knattspyrnu og þróun hennar. En það er rétt að hafa í huga að verkefnin eru auðvitað mis-stór og mis-umfangsmikil. Nýr eða endurbyggður þjóðarleikvangur er t.d. býsna stórt verkefni, innleiðing á nýju mótakerfi og nýjum vef og (möguleg) innleiðing á VAR eru líka dæmi um stór verkefni.
• | Nýr og/eða endurbættur þjóðarleikvangur. |
• | Efla og auka samskipti og tengsl við félögin með ýmsum hætti. KSÍ vill vita hvað fólki finnst, t.d. með árlegri þjónustukönnun til félaga. |
• | Fræðsla til félaga, stjórnenda og forsvarsmanna aukin og efld, tækifærum fjölgað og aðgengi að fræðslu einfaldað t.d. með fræðslu í gegnum netið. |
• | Fyrirkomulag móta. Viðtækt samráð og samstarf við félög og hagaðila. |
• | Möguleg VAR innleiðing. Víðtækt samráð, kynningarfundir og vinnustofur með félögum og hagaðilum. |
• | Styðja við félögin með ýmsum leiðum í þeirri viðleitni að fjölga dómurum. |
• | Efla þjálfaramenntun og fjölga þjálfurum, fjölga KSÍ Pro þjálfurum og fjölga konum í þjálfun sérstaklega. |
• | Nýtt mótakerfi innleitt (COMET) og nýr vefur smíðaður samhliða. KSÍ-app beintengt við COMET sem mun auðvelda og einfalda leikskýrsluskráningar og aðgengi að mótaupplýsingum. |
• | Aðstöðumál knattspyrnuhreyfingarinnar. Stöðu- og þarfagreining eftir landsvæðum. |
• | Hagræn áhrif fótbolta á samfélagið mæld í samstarfi við UEFA. Niðurstaðan mun sýna svart á hvítu, í krónum talið, jákvæð áhrif knattspyrnunnar á samfélagið í heild (líkamleg og andleg heilsa). |
• | Tengslin milli félagsliða og landsliða. Deilum þekkingu um þjálfun, leikgreiningu og þess háttar. |
• | Sjálfbærniverkefni á vegum KSÍ alltaf með skýra tengingu við fótboltann, t.d. núverandi verkefni um andlega heilsu ungra leikmanna - Tæklum tilfinningar með Berginu Headspace. |
• | KSÍ vill efla verulega gagnasöfnun og gagnavinnslu almennt, til að geta greint upplýsingar með markvissum hætti og byggt ákvarðanir á gögnum og vissu. |