Samfélag

Árið 2023 birti Knattspyrnusamband Íslands nýja stefnu um samfélagsleg verkefni sem gildir til ársins 2026 og er hún hluti af heildarstefnumótun KSÍ. KSÍ lítur á það sem skyldu sína að nýta þann kraft sem býr í knattspyrnufjölskyldunni til að vera virkur þátttakandi í samfélagslegum verkefnum sem gera raunverulegt og áþreifanlegt gagn.

Stefna KSÍ í samfélagslegum verkefnum

Jafnrétti innan KSÍ

KSÍ er bæði með jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun sem gilda út árið 2025.

Markmið með jafnréttisstefnu KSÍ er að allt jafnréttisstarf innan knattspyrnuhreyfingarinnar verði markvisst og skipulagt ferli sem fléttast inn í alla þætti knattspyrnunnar. Samþætting jafnréttissjónarmiða skal ávallt höfð til hliðsjónar. Þannig mun öllum knattspyrnuiðkendum verða gert kleift að stunda íþrótt sína og ná árangri án ytri breyta eins og kyns og annars sem orsakað getur mismunun milli einstaklinga. Knattspyrnuhreyfingin á að vera hreyfing sem gætir að hag allra sem innan hennar leika og starfa.

Í tengslum við jafnréttisstefnu KSÍ hefur sambandið sett upp jafnréttisverklag varðandi myndaval, fréttaskrif og almenna birtingu efnis á miðlum KSÍ. Verklaginu er lýst á vef KSÍ og er það hluti af samskiptastefnu KSÍ og heildarverklagi fyrir miðla KSÍ (vef og samfélagsmiðla) og annað útgefið efni.

Jafnréttisáætlun Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) er í samræmi við 5. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í áætluninni er tiltekið hvernig sambandið hyggst tryggja starfsfólki sínu þau réttindi sem tilgreind eru í 6.- 14. grein laganna. Auk laga nr. 150/2020 verða lög nr. 86/2018 höfð til hliðsjónar en í þeim kveður á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.

Nánar má lesa um jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun KSÍ á vef KSÍ

Komdu í fótbolta með Mola

Verkefnið Komdu í fótbolta með Mola fór fram sjötta sumarið í röð. Verkefninu var vel tekið þar sem Siguróli Kristjánsson, betur þekktur sem Moli, heimsótti 53 staði og hitti þar yfir 1000 krakka. Verkefnið er samstarfsverkefni KSÍ og Landsbankans þar sem Moli heimsækir minni sveitarfélög í kringum landið og setur upp skemmtilegar fótboltaæfingar fyrir krakkana á svæðinu. Markmiðið er að efla áhuga á fótbolta og styðja við bakið á knattspyrnustarfinu á svæðinu. KSÍ kann bestu þakkir þeim sveitarfélögum sem tóku vel á móti Mola.

Ný útgáfa viðbragðsáætlunar KSÍ

Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum þann 17. apríl sl. að stofnaður yrði starfshópur sérfróðra aðila utan KSÍ sem falið yrði það verkefni að endurskoða viðbragðsáætlun KSÍ vegna meintra alvarlegra brota einstaklinga.

Ný útgáfa af orðalagi viðbragðsáætlunar KSÍ:

"Haft sé að leiðarljósi, þegar mál einstaklinga eru til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum og/eða í formlegri meðferð hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, vegna meintra alvarlegra brota, að þá skuli viðkomandi stíga til hliðar í hlutverki sínu hjá KSÍ á meðan meðferð máls stendur yfir. Það gildir um leikmenn og starfslið landsliða Íslands. Stjórnendur skulu þó ávallt hafa svigrúm til að beita heilbrigðri skynsemi að teknu tilliti til atvika hvers máls þegar kemur að mati og ákvarðanatöku um val á leikmönnum eða starfsliði landsliða með hliðsjón af viðbragðsáætlun."

Nánar má lesa um verkefni starfshópsins, aðdraganda og tillögur á vef KSÍ

Vefur KSÍ

"Allir með" leikarnir

KSÍ tók þátt í "Allir með" leikunum sem fram fóru 9. nóvember í Laugardalshöll og fimleikasal Ármanns. Leikarnir eru samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélags Íslands, Knattspyrnusambands Íslands, Handboltasambands Íslands, Körfuknattleikssambands Íslands, Fimleikasambands Íslands, Frjálsíþróttasambands Íslands og Íþróttasambands fatlaðra. "Allir með" leikarnir voru haldnir fyrir börn með fatlanir á grunnskólaaldri. Leikarnir voru hluti af verkefninu "Allir með" sem hefur það að markmiði að fjölga tækifærum barna með fatlanir til íþróttaiðkunar. Elfa Björk Erlingsdóttir skipulagði knattþrautir fyrir þátttakendur leikanna og þakkar KSÍ henni kærlega fyrir aðstoðina.

Sjónlýsing á A landsleikjum

Árið 2023 undirrituðu KSÍ, Blindrafélagið og Samtök íþróttafréttamanna skrifuðu undir samstarfssamning vegna sjónlýsingar á A landsleikjum Íslands í fótbolta. Samningurinn felur í sér að félagsmenn Blindrafélagsins geta sótt um þjónustuna á öllum landsleikjum á Laugardalsvelli hjá A landsliðum karla og kvenna í fótbolta. Verkefnið hélt áfram í þróun á árinu 2024 þar sem aðgengi að sjónlýsingu var bætt til muna. Verkefninu hefur verið tekið með eindæmum vel og ákvað til að mynda stjórn Blindrafélagsins að veita KSÍ Samfélagslampa Blindrafélagsins 2024.

Nánar má lesa um verkefnið og Samfélagslampa Blindrafélagsins á vef KSÍ

Dagur barna- og unglingaráða

Dagur barna og unglingaráða var haldinn í höfuðstöðvum KSÍ í apríl. Markmiðið með deginum var að halda áfram samtalinu sem hófst á sama viðburði árið 2023.

Fundurinn hófst á samantekt frá fundi ársins á undan, þar eftir fór Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ yfir reglugerðir KSÍ það sem við kemur yngri flokkum og var hlutverk barna og unglingaráða til umræðu. Vésteinn Hafsteinsson var með erindið Afreksstarf vs. allir með og voru þar öflugar umræður í kjölfarið. Hildur Jóna Þorsteinsdóttir fór yfir framtíð kvennaboltans og að lokum voru umræður um samskipti BUR og stjórnar knattspyrnuráða, fjáraflanir og hvað verður um krakkana eftir 2. Flokk.

SoGreen og KSÍ

KSÍ hélt áfram kaupum á óvirkum kolefniseiningum sem framleiddar eru með verkefni sem hófst í janúar 2023 og á næstu þremur árum mun KSÍ kaupa fleiri einingar af sama verkefni. Einingarnar eru skráðar óvirkar á meðan verkefnið er í framkvæmd, en að því loknu, þegar loftslagsávinningurinn hefur átt sér stað og vottun hefur farið fram, verða þær skráðar virkar. Þá mun KSÍ formlega geta afskráð þær og talið gegn eigin losun gróðurhúsalofttegunda; ein kolefniseining á móti einu tonni losunar.

Geðveikur fótbolti með FC Sækó

KSÍ var í samstarfi við knattspyrnufélagið FC Sækó á árinu líkt og síðustu ár. Um er að ræða verkefni undir heitinu "Geðveikur fótbolti með FC Sækó".

Knattspyrnuverkefnið FC Sækó "Geðveikur fótbolti“ byrjaði í nóvember 2011 sem samstarfsverkefni Hlutverkaseturs, Velferðarsviðs Reykjavíkur og geðsviðs Landspítalans. FC Sækó fagnaði 10 ára afmæli á starfsárinu en knattspyrnufélagið var stofnað árið 2014 og er það skipað notendum geð- og velferðarkerfisins, starfsmönnum þess og öðrum sem hafa áhuga á að styðja við verkefnið.

Tilgangur FC Sækó er að efla og auka virkni notendahóps fólks með geðraskanir og gefa þeim tækifæri til að iðka knattspyrnu sem og að draga úr fordómum.  Markmið FC Sækó er fyrst og fremst að efla andlega og líkamlega heilsu fólks, vera sýnileg og hafa gaman. Á æfingum eða í leikjum eru allir jafnir og þannig styðjum við hvort annað og drögum úr fordómum. Það eru allir velkomnir að æfa og/eða spila með FC Sækó, konur og karlar, fólk sem tengist geð- eða velferðarsviði og/eða úrræðum því tengdu eða aðrir.

Hlutverk KSÍ í samstarfinu er að vekja athygli á og styðja við starfsemi FC Sækó með ýmsum hætti og að vekja athygli á því hvernig þátttaka í fótbolta (eða skipulögðum íþróttum almennt) getur haft jákvæð áhrif á líðan einstaklinga með geðraskanir.

Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ

Háttvísiviðurkenningum Landsbankans og KSÍ var úthlutað í sumar. Öllum félögum sem skipuleggja mót í yngri flokkum bauðst að fá viðurkenningar til afhendingar. Samtals voru 41 verðlaun afhent á 15 mótum um allt land.

Ungmennaráð KSÍ

Ungmennaþing KSÍ var haldið í annað sinn í höfuðstöðvum KSÍ í apríl. Þingið var fyrir ungmenni fædd 2004-2011 og mættu um 70 ungmenni af öllu landinu. Ungmennaráð KSÍ sá um undirbúning þingsins sem var hið glæsilegasta. Þrjú aðalumræðuefni þingsins voru andleg heilsa, jafnrétti og retention/hvernig höldum við ungmennum lengur í fótbolta? Góðar umræður mynduðust og verður unnið úr niðurstöðum umræðuhópanna og þær gefnar út innan skamms. Auk þess að ræða málefni sem brenna á ungmennum í íslenskum fótbolta var farið í skoðunarferð um höfuðstöðvar KSÍ.

Á ungmennaþingi KSÍ sem haldið var í apríl bárust 11 umsóknir um setu í ungmennaráðinu og voru fimm ný tekin inn í ráðið en Sjö ungmenni sitja nú sitt annað ár í ráðinu. Ungmennaráð hélt áfram að funda og ræða niðurstöður þingsins á starfsárinu, ásamt því að undirbúningur fyrir næsta þing er hafinn.

Bergið Headspace

Bergið Headspace og KSÍ undirrituðu sín á milli samstarfssamning til sumarsins 2025. Bergið Headspace og KSÍ standa saman að verkefninu „Tæklum tilfinningar“. Um er að ræða tvíþætt verkefni, annars vegar þar sem aðildarfélögum KSÍ býðst að fá fræðsluerindi frá Berginu fyrir unga þátttakendur (leikmenn, þjálfara eða dómara), og hins vegar þar sem ungmennum hjá aðildarfélögum KSÍ stendur til boða að koma í einstaklingsviðtal hjá Berginu. Verkefnið, sem miðast við 2. og 3. flokk.

Nánari upplýsingar um verkefnið
Augnablik ...