Fræðsla

KSÍ hélt 40 fræðsluviðburði á árinu fyrir 866 þátttakendur.

Þjálfaramenntun

KSÍ býður upp á átta þjálfaragráður - KSÍ C, KSÍ B, KSÍ A, KSÍ Pro þjálfaragráður, KSÍ B Markmannsþjálfaragráður, KSÍ A Markmannsþjálfaragráðu, KSÍ Barna- og unglingaþjálfun og KSÍ Afreksþjálfun unglinga.

Allar þessar þjálfaragráður hafa hlotið gæðastimpil UEFA og eru viðurkenndar í öllum aðildarríkjum UEFA.

Námskeið á ensku

KSÍ hélt sitt fyrsta KSÍ C þjálfaranámskeið á ensku árið 2024. Boðið var upp á námskeiðið fyrir þjálfara sem hafa ekki íslensku sem fyrsta tungumál. Alls voru 12 þjálfarar sem skráðu sig á námskeiðið og stefnt er að því að endurtaka leikinn 2025.

UEFA Pro námskeið í fullum gangi

19 þjálfarar eru þátttakendur á þriðju KSÍ Pro þjálfaragráðunni sem hófst í febrúar 2024 og er stefnt að útskrift þeirra í nóvember 2025.

Þjálfarar útskrifaðir með KSÍ Barna- og unglingaþjálfun í fyrsta sinn

Í fyrsta sinn útskrifaði KSÍ þjálfara með UEFA Youth B þjálfaragráðu, sem fékk heitið KSÍ Barna- og unglingaþjálfun. Á þeirri þjálfaragráðu er einblínt á þjálfun í 4. og 5. aldursflokkum og alls voru það 15 þjálfarar sem útskrifuðust í júní 2024. Markmiðið er að halda þetta námskeið annað hvert ár og á móti að halda KSÍ Afreksþjálfun unglinga (UEFA Elite Youth A), þar sem einblínt er á þjálfun í 2. og 3. aldurflokkum.

Nýtt KSÍ Afreksþjálfun unglinga þjálfaranámskeið hóf göngu sína í nóvember 2024 með 20 þátttakendum.

11 þjálfarar útskrifaðir af KSÍ B Markmannsþjálfaragráðu

KSÍ útskrifaði 11 þjálfara með KSÍ B Markmannsþjálfaragráðu á árinu, þar af þrjár konur. Þeim fjölgaði því úr einni í fjórar, sem hafa lokið þeirri þjálfaragráðu.

Stefnt er að því að halda annað KSÍ B Markmannsþjálfaranámskeið á árinu 2025, með það að markmiði að fjölga KSÍ B markmannsþjálfurum og þannig skapa breiðari grundvöll fyrir því að halda KSÍ A Markmannsþjálfaranámskeið í náinni framtíð.

UEFA Fitness A þjálfaranámskeið

KSÍ mun í fyrsta skipti bjóða upp á UEFA Fitness A þjálfaranámskeið árið 2025.

Námskeiðið er fyrir fitness þjálfara sem eru í starfi hjá félagi og hafa áhuga á að starfa á hæsta getustigi í íslenskri knattspyrnu.

Markmannsskóli KSÍ

Markmannsskóli KSÍ var haldinn á Selfossi helgina 3.-5. janúar og æfðu þar 50 markmenn fæddir árið 2011.

Fjalar Þorgeirsson, yfirmarkmannsþjálfari yngri landsliða, stjórnaði æfingunum um helgina og fengu markmennirnir handleiðslu markmannsþjálfaranna á fjórum æfingum. Þótti helgin ganga mjög vel þar sem markmennirnir fengu góða þjálfun og skemmtu sér mjög vel.

Markmennirnir, sem komu alls staðar að af landinu, komu frá eftirfarandi félögum: Keflavík, Valur, Grótta, Fram, KR, Stjarnan, Þór, Þróttur R., Njarðvík, KA, ÍBV, Breiðablik, HK, Selfoss, Fylkir, FH, ÍA, Leiknir R., Vestri, ÍR, KFR, Höttur, Afturelding, Njarðvík, ÍBV, Völsungur, Víðir, Fjölnir, Haukar.

27 útskrifuðust með UEFA CFM

Mynd - Mummi Lú

UEFA útskrifaði í október 27 einstaklinga með UEFA CFM diplómu. UEFA heldur fjögur CFM námskeið árlega í fjórum mismunandi löndum. Þetta er í annað sinn sem námskeiðið er haldið á Íslandi í samstarfi við KSÍ. Alls útskrifuðust 18 einstaklingar sem starfa í íslenska knattspyrnuumhverfinu og 9 sem starfa hjá knattspyrnusamböndum innan Evrópu.

UEFA býður einnig upp á stjórnunarnám sem er sérsniðið að knattspyrnufólki sem hefur áhuga á að starfa við íþróttina að ferlinum loknum. Námið kallast UEFA Certificate in Football Management (CFM) – Players´ Edition og byggir á sama grunni og CFM nám fyrir stjórnendur í knattspyrnuhreyfingunni.

Hér er hægt að lesa frekar um námið á vef UEFA

Fræðsludagur fyrir félög í Bestu deild karla og kvenna

Fræðslufundur var haldinn fyrir félög í Bestu deild karla og kvenna. Dagurinn var haldinn af UEFA í samstarfi með KSÍ og ÍTF og var fjallað um Evrópukeppnir félagsliða og annað tengt þeim.

Fjölbreytt erindi voru haldin um allt frá regluverki keppna, tækninýjunga, líkt og VAR, og fjármál.

Hátt í 50 manns á vinnustofu FIFA

Vinnustofa var haldin í nóvember á vegum FIFA um stjórnun og stefnumótun.

Vinnustofan fór fram í höfuðstöðvum KSÍ og var haldin í samstarfi FIFA, KSÍ og ÍTF. Aðaláherslur vinnustofunnar voru að styrkja íslenska knattspyrnu með faglegri rekstrarstjónun og var hún miðuð að félögum í efstu tveimur dieldum karla og kvenna.

Lykilatriði vinnustofunnar voru Rekstraráætlanir og aðferir til að bæta fjármála- og stefnumótun í rekstri félaga, stjórnun félaga og deilda og hvernig má bæta samkeppnishæfni, skipulag félaga og hvernig félög geta skipulagt sig á skilvirkan hátt til að ná árangri og að lokum var Goalunit kynnt sem inniheldur nýstárleg verkfæri og lausnir sem bæta frammistöðu félaga og auka tekjur vegna leikmannasölu.

Frétt FIFA um viðburðinn

Fundur með yfirþjálfurum aðildarfélaga

Í október var haldinn fundur með yfirþjálfurum aðildarfélaga KSÍ þar sem fundarefnið var fyrirkomulag móta í yngri flokkum.

Á fundinum voru ýmis atriði til íhugunar og umræðu, m.a. keppnisfyrirkomulag, fjöldi leikja og lengd tímabils.

Fjallað um afleiðingar banns við innfylliefnum í gervigras á alþjóðlegri ráðstefnu

Fulltrúar frá KSÍ sátu fundi hjá norska og danska knattspyrnusambandinu á árinu. Á fundinum í Noregi kynntu aðilar á vegum FIFA nýja staðla fyrir gervigrös, FIFA Basic. Norðurlöndin voru einróma í sinni afstöðu að staðallinn væri líklegast óþarfur og yrði ekki notaður á Norðurlöndum.

Á ráðstefnunni sem haldin var í Silkeborg í Danmörku var meginþungi umræðunnar ennþá afleiðingar banns við innfylliefnum í gervigras. Enn sem komið er hefur ekki fundist ásættanleg lausn við öðrum tegundum innfylliefna sem þola loftslag og veður á norðurslóðum. Lausnir án innfylliefna hafa ekki enn sem komið er ekki náð að koma til móts við knattspyrnu á meistaraflokksstigi. Þróunarvinna er í gangi hjá gervigrasframleiðendum en hún hefur ekki enn skilað nægjanlega góðri vöru á markaðinn.

Hægt er að lesa frekar um þetta mál í skýrslu mannvirkjanefndar í Skýrslum nefnda.

Vefur KSÍ
Augnablik ...