Evrópukeppnir

Meistaradeild UEFA kvenna

Valur og Breiðablik tóku þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar, Valur sem Íslandsmeistari og Breiðablik eftir að hafa lent í 2. sæti á Íslandsmótinu sumarið 2023. Til að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þurfa liðin að komast í gegnum tvær umferðir í forkeppninni. Í fyrri umferðinni eru spilaðir tveir leikir, gegn sitthvoru liðinu, sem báðir þurfa að vinnast og í síðari umferðinni eru tveir leikir gegn sama liðinu. Leikið er heima og að heiman og gildir samanlagður árangur úr leikjunum tveimur.

Í fyrri umferð forkeppninnar mætti Valur ZFK Ljuboten og vann Valur sannfærandi 10-0 sigur. Í síðari leiknum mætti Valur hollenska liðinu Twente og endaði sá leikur með 0-5 tapi. Því var Valur úr leik.

Í fyrri umferð forkeppninnar mætti Breiðablik FC Minsk frá Hvíta-Rússlandi og vann 6-1 sigur. Í síðari leiknum var portúgalska liðið Sporting CP mótherji liðsins og tapaði Breiðablik 0-2 og var því úr leik.

Meistaradeild UEFA karla

Víkingur R. tók þátt í Meistaradeild UEFA eftir að hafa orðið Íslandsmeistari tímabilið 2023. Liðið mætti írska liðinu Shamrock Rovers í fyrstu umferð forkeppninnar. Fyrri leikurinn endaði með markalausu jafntefli og Víkingsvelli, en Shamrock Rovers unnu seinni leikinn 2-1 á Írlandi. Því var Víkingur R. úr leik í Meistaradeildinni, en færðist yfir í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Sambandsdeild UEFA karla

Breiðablik, Stjarnan og Valur tóku þátt í Sambandsdeild UEFA árið 2024. Þar sem Víkingur R. varð bæði bikarmeistari og Íslandsmeistari árið 2023, þá komst liðið í 4. sæti Íslandsmótsins einnig í Evrópukeppni. Liðin hófu leik í forkeppni Sambandsdeildarinnar þar sem liðin mættu mótherjum sínum tvisvar, heima og að heiman, þar sem samanlagður árangur skipti máli. Breiðablik byrjaði á því að mæta GFK Tikves frá Norður Makedóníu og vann samanlagt 5-4 sigur. Valur mætti Vllaznia frá Albaníu og vann samanlagt 6-2. Stjarnan mætti Linfield frá Norður Írlandi og vann samanlagt 4-3. Öll þrjú liðin því komin áfram í næstu umferð.

Breiðablik mætti þar Drita frá Kosóvó og tapaði samanlagt 1-3. Stjarnan mætti Paide frá Eistlandi og tapaði samanlagt 2-5 og Valur tapaði samanlagt 1-4 gegn St Mirren frá Skotlandi. Öll liðin því úr leik þetta árið.

Í forkeppni Sambandsdeildinni mætti Víkingur R. Egnatia í 2. umferð. Víkingar töpuðu fyrri leiknum 0-1 á Víkingsvelli, en unnu svo seinni leikinn 2-0 og voru komnir áfram í næstu umferð. Þar mætti liðið Flora Tallinn og gerði 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á heimavelli, en vann svo 2-1 sigur í Eistlandi. Víkingur R. mætti svo UE Santa Coloma frá Andorra í lokaumferð undankeppninnar og var ljóst að sigur í þeirri viðureign myndi fleyta Víkingum í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Þeir unnu 5-0 sigur á Víkingsvelli, en seinni leikurinn endaði með markalausu jafntefli í Andorra. Víkingar því komnir áfram í deildarkeppnina.

Leikið var eftir nýju fyrirkomulagi í fyrsta sinn í Sambandsdeildinni og var nú um að ræða deildarkeppni í stað hefðbundinnar riðlakeppni. Í stað þess að mæta þremur mótherjum heima og að heiman lék Víkingur R. gegn sex mismunandi mótherjum. Sami fjöldi leikja en fleiri andstæðingar.

Víkingar hófu leik gegn Omonoia frá Kýpur ytra og endaði sá leikur með 0-4 tapi. Því næst mætti liðið Cercle Brugge frá Belgíu á Kópavogsvelli og vann glæsilegan 3-1 sigur. Næst mættu FK Borac frá Bosníu og Hersegóvínu á Kópavogsvöll. Aftur unnu Víkingar, nú 2-0. Frábær byrjun á deildarkeppninni. Liðið ferðaðist næst til Armeníu og gerði þar markalaust jafntefli gegn FC Noah. Djurgarden frá Svíþjóð voru andstæðingarnir í síðasta heimaleik liðsins, en sá leikur tapaði 1-2. Einn leikur eftir og góðir möguleikar á að komast í umspil keppninnar. LASK frá Austurríki voru síðustu mótherjarnir og þar sóttu Víkingar 1-1 jafntefli og tryggðu sér með því sæti í umspilinu. Alveg hreint út sagt magnaður árangur hjá íslenska liðinu, en liðið mætir gríska liðinu Panathinaikos í febrúar í tveimur leikjum.

Evrópukeppni félagsliða í Futsal karla

Ísbjörninn tók þátt í Evrópukeppni félagsliða í Futsal þar sem þeir voru ríkjandi Íslandsmeistarar. Ísbjörninn var í riðli með Tirana Futsal frá Albaníu, TSV Weilimdorf frá Þýskalandi og Akaa Futsal frá Finnlandi. Ísbjörninn tapaði öllum sínum leikjum og endaði í neðsta sæti riðilsins með markatöluna 3-19.

Augnablik ...