Dómaramál
Átaksverkefni í garð dómara
KSÍ setti í gang árið 2023 sérstakt verkefni með því markmiði að hvetja fólk til jákvæðrar hegðunar í garð dómara og/eða bæta hegðun sína og láta af neikvæðri hegðun í garð dómara, hvort sem um ræðir leiki í meistaraflokki eða yngri flokkum. Annað markmið með verkefninu var á fá fleira fólk á dómaranámskeið og fjölga dómurum.
Ýmsir þjóðþekktir einstaklingar voru fengnir til að tjá sig á jákvæðan hátt á myndbandi um mikilvægi dómara og nauðsyn þess að bera virðingu fyrir dómarastarfinu. Þar má nefna forseta Íslands, forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, skemmtikrafta, fjölmiðlafólk og ungmennaráð KSÍ.
Upphitunarbolir voru framleiddir sem dómarar hituðu upp í fyrir leiki. Á framhlið bolsins stóð ,,Enginn dómari, enginn leikur” og á bakinu stóð ,,Ekki tapa þér”.
Hægt er að sjá öll myndböndin á Youtube síðu KSÍ
Metfjöldi dómarastarfa
Mynd - Mummi Lú
Árið 2023 er metár þegar kemur að mönnun dómarastarfa á KSÍ leiki. Fjöldi starfa þar sem KSÍ sá um að tilnefna dómara á leiki á síðasta ári var alls 5.305, sem er talsverð aukning milli ára og þegar horft er lengra aftur í tímann má berlega sjá hversu mikil aukningin er. Sem dæmi um leikjamagn má nefna að algengt er að skrifstofa KSÍ raði dómurum á jafnvel hundruðir starfa í sömu viku.
Ofan á þetta bætist síðan gífurlega mikil mönnun leikja sem félögin sjálf bera ábyrgð á, mörg þúsund leikir yfir árið. KSÍ skipuleggur knattspyrnumót allan ársins hring, þó meginþorri leikjanna fari fram yfir sumartímann, og hvað niðurröðun dómara varðar þá eru júlí og ágúst sérstaklega krefjandi vegna sumarleyfa dómara.
Ár | Fjöldi dómarastarfa |
---|---|
2023 | 5.305 |
2022 | 5.040 |
2021 | 4.964 |
2020 | 4.042 |
2019 | 4.651 |
2018 | 4.592 |
2017 | 4.785 |
2016 | 4.423 |
2015 | 4.735 |
2014 | 4.465 |
2013 | 4.431 |
... | ... |
2006 | 2.259 |
KSÍ býður aðildarfélögum upp á þann möguleika að bóka dómaranámskeið frá KSÍ sem haldin eru hjá félögunum. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og fjöldi nýrra dómara útskrifast sem unglingadómarar á ári hverju. Það er greinilegt að það vantar dómara í störf hjá félögunum og hafa mörg félög bókað námskeið á fyrstu mánuðum ársins 2024. Námskeiðin eru stutt en hnitmiðuð og markmiðið með þeim er fyrst og fremst að hjálpa félögunum að búa til dómarahópa til þess að manna þá fjölmörgu leiki sem eru á þeirra ábyrgð.
Pétur og Þórður Þorsteinn dómarar ársins
Mynd - Mummi Lú
Þórður Þorsteinn Þórðarson var kosinn besti dómari ársins í Bestu deild kvenna og Pétur Guðmundsson í Bestu deild karla. Þetta er annað árið í röð sem þeir eru kosnir bestu dómarar ársins.
KSÍ og FDD undirrituðu nýjan samning
KSÍ og Félag deildardómara (FDD) undirrituðu nýjan samning sem gildir frá 1. apríl 2023 til 31. desember 2026.
Við undirritun í höfuðstöðvum KSÍ létu Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ og Egill Arnar Sigurþórsson formaður FDD, sérstaklega í ljós ánægju sína með lengd samningsins.
Klara: „Dómarar eru mikilvægur hluti af leiknum og er ég mjög ánægð með þennan langtímasamning sem tryggir starfsumhverfi dómara næstu árin.“
Tveir dómarar láta af störfum
Guðmundur Ársæll Guðmundsson, Bestudeildardómari, og Oddur Helgi Guðmundsson, Bestudeildar- og FIFA aðstoðardómari létu af störfum eftir tímabilið 2022.
Á landsdómararáðstefnunni þann 18. nóvember var þeim þakkað fyrir vel unnin störf fyrir dómgæslu á vegum KSÍ.
Þeir munu þó áfram starfa að dómaramálum sem eftirlitsmenn og lærifeður í hæfileikamótun ungra dómara.
Erlend verkefni dómara
Erlendum verkefnum dómara og eftirlitsmanna á erlendri grundu fjölgaði frá því árið 2022, en hefur ekki náð aftur sömu hæðum og fyrir COVID-19.
Störfin hjá dómurum eru eingöngu bundin við störf þar sem VAR er ekki krafist og fer slíkum leikjum fækkandi. Einungis eitt íslenskt dómaratrío hefur farið í gegnum VAR þjálfun og er ljóst að það þarf að koma fleirum í slíka þjálfun.
Íslenskir dómarar dæmdu í erlendum keppnum
Íslenskir dómarar voru á faraldsfæti á árinu og dæmdu víða erlendis í keppnum á vegum UEFA. Það voru bæði dómarar og aðstoðardómarar sem störfuðu erlendis og hér að neðan má sjá lista yfir þá:
Andri Vigfússon var aðstoðardómari í undankeppni EM hjá U21 karla og í Sambandsdeild UEFA.
Bergrós Unudóttir var aðstoðardómari í Þjóðadeild UEFA kvenna.
Birkir Sigurðarson var aðstoðardómari í vináttuleik Noregs og Færeyja hjá A karla, í undankeppni EM hjá U21 karla og í Sambandsdeild UEFA.
Bríet Bragadóttir dæmdi í undankeppni EM hjá U17 kvenna og í Þjóðadeild UEFA kvenna.
Egill Guðvarður Guðlaugsson var aðstoðardómari í undankeppni EM hjá U17 karla, í Unglingadeild UEFA, í Sambandsdeild UEFA og í undankeppni EM hjá U21 karla.
Eysteinn Hrafnkelsson var aðstoðardómari í Unglingadeild UEFA og í undankeppni EM hjá U21 karla.
Gylfi Már Sigurðsson var aðstoðardómari í Unglingadeild UEFA, í vináttuleik Noregs og Færeyja hjá A karla, í undankeppni EM hjá U21 karla og í Sambandsdeild UEFA.
Guðmundur Ingi Bjarnason var aðstoðardómari í Unglingadeild UEFA og í milliriðili í undankeppni EM hjá U19 karla.
Helgi Mikael Jónasson dæmdi í Unglingadeild UEFA, var fjórði dómari í vináttuleik Noregs og Færeyja hjá A karla, dæmdi í undankeppni EM hjá U17 karla, í Sambandsdeild UEFA, var fjórði dómari í Sambandsdeild UEFA og dæmdi i undankeppni EM hjá U21 karla.
Ívar Orri Kristjánsson dæmdi á UEFA æfingamóti hjá U19 karla, í undankeppni EM hjá U21 karla, var fjórði dómari í undankeppni EM hjá U21 karla, í Sambandsdeild UEFA, dæmdi leik í Sambandsdeild UEFA og í milliriðili undankeppni EM hjá U19 karla.
Jóhann Gunnar Guðmundsson var aðstoðardómari í undankeppni EM hjá U21 karla og í Sambandsdeild UEFA.
Jóhann Ingi Jónsson var fjórði dómari í undankeppni EM hjá U21 karla og í Sambandsdeild UEFA.
Kristján Már Ólafs var aðstoðardómari í undankeppni EM hjá U21 karla.
Ragnar Þór Bender var aðstoðardómari á UEFA æfingamóti hjá U19 karla.
Rúna Kristín Stefánsdóttir var aðstoðardómari í undankeppni EM hjá U17 kvenna og í Þjóðadeild UEFA kvenna.
Patrik Freyr Guðmundsson var aðstoðardómari í Unglingadeild UEFA.
Soffía Ummarin Kristinsdóttir var fjórði dómari í Þjóðadeild UEFA kvenna.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson dæmdi vináttuleik Noregs og Færeyja hjá A karla, í undankeppni EM hjá U21 karla, í Sambandsdeild UEFA og var fjórði dómari í Sambandsdeild UEFA.
Þorvaldur Árnason var fjórði dómari í undankeppni EM hjá U21 karla og dæmdi í undankeppni EM hjá U21 karla.
Norræn dómaraskipti
Mynd - Mummi Lú
Norræn dómaraskipti hófust árið 2005 og er tilgangur þeirra að auka þekkingu og reynslu dómara. Árið 2023 dæmdu íslenskir dómarar í Danmörku, Færeyjum og Noregi.
Ísland tók í fyrsta sinn á árinu þátt í norrænum dómaraskiptum kvennamegin og er það mikið fagnaðarefni.
Soffía Ummarin Kristinsdóttir og Bergrós Lilja Unudóttir dæmdu leik NSÍ og B36 í efstu deild kvenna í Færeyjum.
Bríet Bragadóttir og Rúna Kristín Stefánsdóttir dæmdu leik FC Nordsjælland og Fortuna Hjorring í efstu deild kvenna í Danmörku.
Sigurður Hjörtur Þrastarson og Bryngeir Valdimarsson dæmdu leik B93 og Vendsyssel í næst efstu deild karla í Danmörku.
Jóhann Ingi Jónsson og Ragnar Þór Bender dæmdu leik Mjondalen og Skeid í næst efstu deild karla í Noregi.
Norskir dómarar dæmdu leik Vals og Keflavíkur í Bestu deild kvenna.
Íslenskir dómarar dæmdu á Norður Írlandi
Helgi Mikael Jónasson, Egill Guðvarður Guðlaugsson og Kristján Már Ólafs dæmdu leik Cliftonville og Dungannon Swifts í norður írsku úrvalsdeildinni. Þetta er liður í dómaraskiptum á milli landanna tveggja.
Íslenskt dómarateymi í Þjóðadeild kvenna
Mynd - Mummi Lú
Íslenskt dómarateymi dæmdi leik Færeyja og Svartfjallalands í Þjóðadeild kvenna, en um var að ræða leik í C deild keppninnar.
Bríet Bragadóttir var með flautuna í leiknum, þær Rúna Kristín Stefánsdóttir og Bergrós Unudóttir voru aðstoðardómarar og Soffía Ummarin Kristinsdóttir fjórði dómari.
Íslenskir dómarar á CORE námskeiði í Sviss
Þrír íslenskir dómarar tóku þátt í svokölluðu ,,CORE” námskeiði sem haldið var á vegum UEFA í Sviss.
Fjölmargir íslenskir dómarar hafa tekið þátt í þessu verkefni í gegnum tíðina, sem er ómetanlegt í þróun dómara á efsta stigi. Þeir Guðgeir Einarsson dómari og aðstoðardómararnir Guðmundur Ingi Bjarnason og Antoníus Bjarki Halldórsson voru fulltrúar Íslands í ár.