Árið sem leið
Glódís Perla íþróttamaður ársins 2024
Mynd - Mummi Lú
Glódís Perla var kjörin íþróttamaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna með fullt hús stiga á árlegu hófi samtakanna og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þetta var í 69. skipti sem kjörið er haldið.
Glódís Perla Viggósdóttir átti stórkostlegt ár sem fyrirliði íslenska landsliðsins þar sem liðið tryggði sér meðal annars sæti á EM 2025 ásamt því að vera fyrirliði Bayern Munchen og hafa fengið tilnefningu til Ballon d´Or.
Í 10 efstu sætum í kjöri til íþróttamanns ársins voru fjögur úr knattspyrnunni - Albert Guðmundsson var í 4. sæti, Orri Steinn Óskarsson í því 8. og Sveindís Jane Jónsdóttir í því níunda. A-landslið kvenna var í þriðja sæti í kjörinu um lið ársins og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari karlaliðs Víkings, þriðji í kjöri á þjálfara ársins.
Glódís og Orri Steinn knattspyrnufólk ársins 2024
Glódís Perla Viggósdóttir og Orri Steinn Óskarsson eru knattspyrnufólk ársins 2024 samkvæmt niðurstöðu Leikmannavals KSÍ.
Mynd - Mummi Lú
Glódís Perla sæmd fálkaorðunni
Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði A landsliðs kvenna, var á meðal 14 Íslendinga sem sæmdir voru heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag.
Í umsögn um orðuveitinguna segir "Glódís Perla Viggósdóttir knattspyrnukona, riddarakross fyrir afreksárangur í knattspyrnu".
Fyrstu skóflustungurnar að nýjum leikfleti
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ tóku fyrstu skóflustungurnar á Laugardalsvelli í fimmtudaginn 17. október. Þar með er fyrsti áfangi í uppbyggingu leikvangsins hafinn. Grasi Laugardalsvallar verður skipt út fyrir blendigrasi (svokallað hybrid-gras) og hitunarkerfi verður sett undir völlinn.
Markmiðið er að gera Laugardalsvöll leikfæran mun stærri hluta ársins en nú er. Áfanganum verður lokið fyrir landsleiki í knattspyrnu næsta sumar. Laugardalsvöllur verður byggður upp sem knattspyrnuvöllur eingöngu, og mun nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum rísa á nýjum stað í Laugardal.
Forsætisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, Reykjavíkurborg, Knattspyrnusamband Íslands og Frjálsíþróttasamband Íslands undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis í byrjun september.
Ríki og borg leggja hvor um sig allt að 250 milljónir króna í framkvæmd fyrsta áfanga og annast Knattspyrnusamband Íslands verkið.
Framkvæmdin markar fyrsta skref í uppbyggingu Laugardalsvallar sem framtíðarþjóðarleikvangs í knattspyrnu. Með uppbyggingunni vilja stjórnvöld styðja við sívaxandi afrek og árangur sem kallar á bætta aðstöðu, aðstöðu sem uppfyllir kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda til alþjóðlegrar keppni.
Viljayfirlýsing um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvangs í knattspyrnu
Fulltrúar ríkisins, Reykjavíkurborgar, KSÍ og FRÍ undirrituðu sameiginlega viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga fyrir knattspyrnu og frjálsíþróttir í Laugardal. Um er að ræða fyrsta skref að uppbyggingu tveggja aðskilinna þjóðarleikvanga utanhúss í Laugardal.
Laugardalsvöllur verður byggður upp sem knattspyrnuvöllur eingöngu, þar sem mögulegt verður að leika stærstan hluta ársins. Fyrsti áfangi í uppbyggingu leikvangsins verður að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras (svokallað hybrid-gras) og setja hitunarkerfi undir völlinn.
Samstarf við Vettvang um nýjan vef KSÍ
Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) hefur samið við Vettvang vefstofu um gerð nýs vefs KSÍ (ksi.is). Vettvangur var hlutskarpastur úr hópi nokkurra öflugra fyrirtækja sem öll lögðu inn áhugaverð og metnaðarfull tilboð.
Vettvangur hefur komið að hönnun og smíði fjölmargra stærri og smærri vefsíðna með framúrskarandi árangri og fulltrúar Vettvangs sýndu verkefninu mikinn áhuga og metnað. Innan þeirra raða er mikil reynsla og þekking, og ekki síður þekking á fótbolta og starfsumhverfi KSÍ og íslenskra knattspyrnufélaga.
Áætlað er að nýr vefur KSÍ fari í loftið í nóvember á þessu ári, og samhliða því verður nýtt mótakerfi KSÍ tekið í notkun. Með samstarfinu við Vettvang vefstofu vill KSÍ skapa nútímalegan og notendavænan vef fyrir alla þá sem fylgjast með og koma að íslenskri knattspyrnu.
Metupphæð í verðlaunafé á EM 2025
UEFA hefur tilkynnt að met verði sett í upphæð verðlaunafés á EM 2025.
Upphæðir sem þjóðir fá fyrir þátttöku á mótinu verða hærri en áður ásamt því að félög leikmanna sem taka þátt í mótinu fá meira en áður. Ábyrgst er einnig að leikmenn fái hluta verðlaunafésins.
Heildarupphæðin sem fer í verðlaunafé er 41 milljónir evra, en það er 125% hækkun frá EM 2022.
Hægt er að lesa frekar um málið á vef UEFA.
Þjónustukönnun KSÍ: Yfir 80% svarenda ánægðir
Í nóvember sendi KSÍ út stutta þjónustukönnun til allra félaga. Með slíkri könnun leitast KSÍ við að kanna viðhorf aðildarfélaganna til starfs KSÍ og þeirrar þjónustu sem KSÍ veitir félögum og þeirra fulltrúum. Sambærileg könnun er send út árlega og niðurstöðurnar þannig notaðar sem mikilvægur leiðarvísir fyrir KSÍ til að efla þjónustuna og samstarfið enn frekar. Óskað var eftir einu svari frá hverju félagi. KSÍ þakkar þeim aðildarfélögum sem svöruðu könnuninni kærlega fyrir þátttökuna.
Heilt yfir og almennt er mikill meirihluti svarenda ánægður með þá þjónustu sem KSÍ veitir aðildarfélögum, sem og stuðning og samskipti við félögin og þeirra fulltrúa. Um og yfir 80 prósent svarenda eru t.a.m. ánægðir með þjónustu KSÍ við aðildarfélög, samskipti við fulltrúa félaga, viðbrögð við fyrirspurnum, stuðning og leiðbeiningar, námskeið og fræðslu. Rétt tæplega 80 prósent eru ánægð með stjórnsýslu og skipulag KSÍ og aðeins 2,5 prósent óánægð - sem er nokkuð mikil breyting frá fyrra ári þegar 42 prósent voru ánægð með þann þátt starfseminnar. Raunar var eina spurningin í könnuninni þar sem svarendur merktu við "Mjög óánægð(ur)" þar sem spurt var um þá þjónustu sem KSÍ veitir stuðningsmönnum á leikjum landsliðanna, þ.e. í engum öðrum tilfellum var svarað með "Mjög óánægð(ur)".
Einnig bárust nokkur svör við opinni spurningu þar sem svarendur voru beðnir um ábendingar eða tillögur til KSÍ um hvað sem er varðandi starfsemi og þjónustu KSÍ. Þar var m.a. nefnt skipulag mannvirkjasjóðs, þjónusta í kringum félagaskipti milli landa, umbun sjálfboðaliða, dómaramál, leikskýrsluskráningar, og einnig var veitingasala á landsleikjum sérstaklega nefnd.
Niðurstöður
Þjónusta:
80% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
15% hlutlaus.
5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Samskipti:
82,5% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
10% hlutlaus.
7,5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Viðbrögð við fyrirspurnum:
80% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
15% hlutlaus.
5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Stuðningur og leiðbeiningar:
80% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
12,5% hlutlaus.
7,5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Námskeið og fræðsla:
80% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
20% hlutlaus.
0% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Skipulag og stjórnsýsla:
77,5% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
20% hlutlaus.
2,5% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Framkvæmdir á Laugardalsvelli:
90% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
10% hlutlaus.
0% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Þjónusta við stuðningsmenn á landsleikjum:
42,5% mjög ánægð/nokkuð ánægð.
47,5% hlutlaus.
10% nokkuð óánægð/mjög óánægð.
Fullt hús á fundi formanna og framkvæmdastjóra
Um 50 manns mættu á árlegan fund formanna og framkvæmdastjóra aðildarfélaga KSÍ, sem haldinn var í höfuðstöðvum Knattspyrnusambandsins í nóvember.
Á fundinum voru haldnar kynningar um ýmis mál. Haukur Hinriksson yfirlögfræðingur KSÍ flutti erindi um nýjar siðareglur KSÍ, flutning leikmanna milli félaga og kynnti loks samantekt á vinnu starfshópa um ýmis mál. Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ fór yfir mótamál 2025, Ómar Smárason samskiptastjóri KSÍ kynnti vinnu við stefnumótun KSÍ 2023-2026 og Þóroddur Hjaltalin starfsmaður dómaramála hjá KSÍ fór yfir VAR og möguleikana því tengdu fyrir Ísland.
Í lok fundar var svo farið með hópinn í skoðunarferð um höfuðstöðvar KSÍ og m.a. kynnti Bjarni Hannesson grasvallatæknifræðingur endurbæturnar sem eru núna í gangi á Laugardalsvelli.
Minning: Halldór B. Jónsson
Halldór B. Jónsson, fyrrverandi varaformaður KSÍ, lést þriðjudaginn 9. júlí eftir erfið veikindi. Hann var 75 ára gamall.
Halldór var einnig formaður knattspyrnudeildar Fram til margra ára og vann frábært starf fyrir Fram og íslenska knattspyrnu. Hann var formaður mótanefndar og formaður dómaranefndar til margra ára og gegndi þannig lykilhlutverki í starfi KSÍ. Halldór var sæmdur heiðurskrossi KSÍ, sem er æðsta heiðursmerki sambandsins.
Við minnumst Halldórs og allra þeirra góðu verka sem hann vann fyrir íslenska knattspyrnu. KSÍ minnist fallins félaga með hlýhug og vottar fjölskyldu og aðstandendum samúð.
Hvíldu í friði.
Minning: Svanfríður María Guðjónsdóttir
Svanfríður María Guðjónsdóttir lést 13. september síðastliðinn. Hún vann ötullega að uppbyggingu knattspyrnu kvenna á Íslandi og var fyrsta konan sem kjörin var í stjórn KSÍ. Hún átti sæti í varastjórn sambandsins 1985 og 1986.
Svanfríður hafði starfað í kvennanefnd KSÍ áður en hún var kosin í stjórn og vann hún mikið með landsliði kvenna í knattspyrnu um árabil, útvegaði æfingaleiki og var því til halds og trausts á ýmsan hátt. Einnig starfaði hún mikið í kringum kvennaknattspyrnuna í Breiðabliki á fyrstu árum hennar. Svanfríður var meðlimur í Umbótanefnd ÍSÍ fyrir konur í íþróttum um árabil og vann þar frábært starf að hagsmunamálum kvenna í íþróttahreyfingunni.
Í Meistarakeppni kvenna 2023 var í fyrsta skiptið keppt um Svanfríðarbikarinn, nýjan farandbikar til heiðurs Svanfríði.
Við minnumst Svanfríðar með hlýhug og vottum fjölskyldu og aðstandendum samúð. Hvíldu í friði.
Minning: Ellert B. Schram
Ellert B. Schram fyrrverandi formaður KSÍ lést 24. janúar síðastliðinn 85 ára að aldri. Íþróttahreyfingin og þá knattspyrnan sérstaklega átti hug og hjarta Ellerts og fékk að njóta starfskrafta hans um langt árabil.
Ellert átti farsælan feril sem knattspyrnumaður. Hann lék sem framherji fyrir KR frá 1957 til 1971, skoraði 62 mörk í efstu deild og var lengi markahæsti KR-ingurinn frá stofnun félagsins. Ellert varð Íslandsmeistari með KR fimm sinnum og bikarmeistari sjö sinnum, og var sæmdur titlinum knattspyrnumaður ársins fjórum sinnum. Hann var einnig hluti af íslenska landsliðinu frá 1959 til 1970 og lék 23 landsleiki þar sem hann skoraði 6 mörk. Eftir að leikmannsferli hans lauk, tók Ellert við sem þjálfari KR árið 1973.
Félagsstörfin voru Ellerti hugleikin og hann sat í stjórn knattspyrnudeildar KR 1960-69 og var formaður þar síðustu tvö árin. Ellert var formaður Knattspyrnusambands Íslands 1973-89 og forseti Íþrótta- og ólympíusambands Íslands 1991-2006. Þá sat hann í stjórn Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) 1982-86 og 1990-94, var einn af varaforsetum UEFA 1984-86 og gegndi áhrifastörfum þar allt til ársins 2010. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og gullmerki KR, var heiðursformaður KSÍ, heiðursforseti ÍSÍ og heiðursfélagi KR.
Þessi ferilskrá er auðvitað einstök, enda var Ellert um margt einstakur maður. Við minnumst hans og allra þeirra góðu verka sem hann vann fyrir íslenska knattspyrnu.
KSÍ minnist fallins félaga með hlýhug og vottar fjölskyldu og aðstandendum samúð.
Takk fyrir allt, Ellert. Hvíldu í friði.
Murcia í mars
A landslið karla mætir Kosóvó í umspili um sæti í B deild Þjóðadeildar UEFA í mars. Í ljósi aðstöðumála á Laugardalsvelli fer "heimaleikur" liðsins fram á Estadio Enrique Roca í Murcia á Spáni þann 23. mars næstkomandi.
Leikvangurinn í Murcia, sem tekur ríflega 30 þúsund áhorfendur, var opnaður árið 2006 með vináttulandsleik milli Spánar og Argentínu. Um er að ræða heimavöll Real Murcia CF sem leikur í þriðju efstu deild Spánar um þessar mundir, en þar fara einnig af og til fram landsleikir, og nefna má að A landslið karla lék einmitt vináttuleik á þessum leikvangi í mars 2022 þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Finnland. Estadio Enrique Roca de Murcia er staðsettur í bænum Churra, sem liggur rétt norðan við Murcia, og er leikvangurinn í u.þ.b. 7 kílómetra fjarlægð frá miðbæ Murcia.
Aldrei fleiri leikir á vegum KSÍ
Á árinu sem er að líða fóru fram 6.396 leikir á vegum KSÍ og hafa þeir aldrei verið fleiri (4.371 í karlaflokkum og 2.025 í kvennaflokkum). Um er að ræða verulega aukningu milli ára eins og sjá má á töflunni hér að neðan, sem sýnir þróun síðustu ára.
Leikár | Fjöldi leikja |
---|---|
2024 | 6.396 |
2023 | 6.080 |
2022 | 5.578 |
2021 | 5.319 |
2020 | 4.864 |
2019 | 5.439 |
2018 | 5.333 |
2016 | 5.361 |
2014 | 5.439 |
2012 | 5.403 |
2010 | 5.515 |
2008 | 4.998 |
Úthlutað til 13 verkefna úr Mannvirkjasjóði KSÍ
Tuttugu og sjö umsóknir bárust í mannvirkjasjóð KSÍ árið 2024 og er heildarkostnaður við áætlaðar framkvæmdir tæplega 1,2 milljarðar króna. Til úthlutunar úr sjóðnum í ár voru 30 milljónir.
Unnið var heildstætt mat á öllum umsóknum og þær metnar með hliðsjón af gildandi skorkorti. Þannig var unninn listi með einkunnagjöf sem er grunnurinn að tillögu til stjórnar KSÍ.
KSÍ framlengir við PUMA
KSÍ hefur framlengt samning sinn við íþróttavöruframleiðandann PUMA og munu landslið Íslands í knattspyrnu leika í PUMA-búningum til ársins 2030. Á meðal annarra knattspyrnulandsliða sem leika í PUMA fatnaði má nefna Austurríki, Sviss og Tékkland. Fyrsti samningur KSÍ og PUMA var gerður árið 2020 og því liggur fyrir að árið 2030 munu íslensku landsliðin í fótbolta hafa leikið í PUMA-búningum í 10 ár.
Flestir iðkendur í knattspyrnu sem fyrr
ÍSÍ gefur út iðkendatölfræði í lok hvers árs og gilda þá þær tölu fyrir fyrra ár. Tölur sem eru gefnar út í desember 2024 eru þannig tölfræði ársins 2023. Samkvæmt tölfræði ÍSÍ voru flestar iðkanir í knattspyrnu árið 2023, eða rúmlega 30 þúsund, en næst þar á eftir kemur golf með rúmlega 27 þúsund. Þar á eftir koma fimleikar og hestamennska.
Eimskip nýr bakhjarl KSÍ
Eimskip og Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) skrifuðu undir samstarfssamning til næstu þriggja ára og verður Eimskip því einn af bakhjörlum KSÍ og íslensku landsliðanna í knattspyrnu út árið 2027.
Eimskip mun sem bakhjarl styðja við alla starfsemi KSÍ – allt frá eflingu grasrótarverkefna um land allt til afreksstarfs og landsliða, og mun Eimskip meðal annars sjá um flutninga á búnaði fyrir knattspyrnusambandið.
KSÍ og Múlakaffi í samstarf
KSÍ og Múlakaffi skrifuðu undir samning um samstarf til næstu tveggja ára. Samstarfið felur í sér að Múlakaffi verður liðsmaður KSÍ þegar kemur að veitingaþjónustu á hinum ýmsu viðburðum.
headin
Fundað með fulltrúum UEFA
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, og Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri KSÍ, voru í höfuðstöðvum KSÍ í september og funduðu þar með formanni og öðrum fulltrúum Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA).
Hæfileikamótun N1 og KSÍ
Í Hæfileikamótun N1 og KSÍ koma saman til æfinga ungir og hæfileikaríkir leikmenn frá félögum víðs vegar af landinu. Fjölmargir viðburðir fara fram um allt land og hundruðir drengja og stúlkna fá tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Lokahnykkur í Hæfileikamótun hvers ár er svokallað Hæfileikamót. Um 60 stelpur og 60 strákar taka þátt í Hæfileikamótinu þar sem hópurinn æfir saman og lýkur svo Hæfileikamótinu með innbyrðis leikjum. Í ár fór Hæfileikamót drengja fram dagana 3.-5. maí í Miðgarði og Hæfileikamót stúlkna 13.-15. maí á N1-vellinum Hlíðarenda og á Laugardalsvelli.
Ný treyja íslensku þjóðarinnar
PUMA og KSÍ kynntu nýjar treyjur landsliða Íslands í knattspyrnu á árinu.
Keppnistreyjan sjálf (authentic version), sem leikmenn klæðast í leikjum með landsliðinu, er sköpuð með hinni nýju og framsæknu tækni PUMA – ULTRAWEAVE. Fislétt og sérunnið efnið í treyjunni gerir hana að léttustu landsliðstreyju í sögu PUMA.
Leyfiskerfið 20 ára
Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) fjallaði um það í grein á vef sínum á liðnu ári að leyfiskerfi UEFA hafi fagnað 20 ára afmæli sínu árið 2024. Markmið leyfiskerfisins er að bæta knattspyrnuíþróttina á öllum sviðum og mæta þeim stöðugt vaxandi kröfum og væntingum sem gerðar eru til knattspyrnusambanda og knattspyrnufélaga, og koma frá stuðningsmönnum, félagsmönnum, leikmönnum, þjálfurum, styrktaraðilum, fjölmiðlum, almenningi og yfirvöldum ríkis og sveitarfélaga, kröfur sem eru ekki lengur eingöngu íþróttalegs eðlis. Starfsemi félaga í fremstu röð knattspyrnunnar líkist æ meir þjónustu fyrirtækis.
UEFA ákvað að öll félög sem taka þátt í Evrópukeppni frá og með haustinu 2004 skyldu hafa útgefið leyfi frá knattspyrnusambandi sínu. Í kerfinu verða félög að mæta lágmarkskröfum UEFA og knattspyrnusambands þess lands sem viðkomandi félag leikur í. KSÍ tók upp leyfiskerfi hérlendis haustið 2003 og voru fyrstu þátttökuleyfin gefin út fyrir keppnistímabilið 2004. Margt hefur gerst síðan þá og leyfiskerfið þróast mikið, bæði leyfiskerfi KSÍ og leyfiskerfi UEFA. Í dag undirgangast félög í efstu tveimur deildum karla og efstu deild kvenna á Íslandi leyfiskerfi KSÍ og þau félög sem leika í Evrópukeppnum þurfa jafnframt að uppfylla kröfur leyfiskerfis UEFA.
Húsfyllir á kynningu um fjármál
Húsfyllir var á súpufundi í höfuðstöðvum KSÍ þar sem kynnt var samantektarskýrsla Deloitte og KSÍ um fjármál íslenskrar knattspyrnu. Í skýrslunni eru birtar greiningar á ársreikningum þeirra félaga sem hafa tekið þátt í keppni efstu deilda karla og kvenna á árunum 2020-2023.
Tekjuliðir og gjöld félaganna hafa verið greind og ýmis áhugaverð atriði borin saman. Einnig er í skýrslunni greint frá upplýsingum um kaup og sölur leikmanna, aðsókn á knattspyrnuleiki, sektarviðurlög og fleira.