A landslið kvenna

Umspil Þjóðadeildar UEFA

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Keppnisár A-landsliðs kvenna hófst í febrúar þegar liðið mætti Serbíu í umspili Þjóðadeildarinnar, en leikið var heima og að heiman. Fyrri leikurinn fór fram í Serbíu og endaði hann með 1-1 jafntefli. Serbía tók forystuna á 19. mínútu, en fimm mínútum síðar jafnaði Alexandra Jóhannsdóttir metin og þar við sat. Liðin mættust svo fjórum dögum síðar á Kópavogsvelli þar sem Ísland vann 2-1 sigur. Aftur lenti íslenska liðið undir í upphafi leiks og náði ekki að jafna metin fyrr en fimmtán mínútum fyrir leikslok þegar Sveindís Jane Jónsdóttir kom boltanum í netið. Það var svo Bryndís Arna Níelsdóttir sem skoraði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok og sæti Íslands í A deild fyrir undankeppni EM 2025 því tryggt.

Undankeppni EM 2025

Mynd - Hulda Margrét Óladóttir

Ísland var í riðli með Þýskalandi, Austurríki og Póllandi í undankeppni EM 2025. Tvö efstu lið riðilsins fara beint áfram á EM 2025, en liðin í þriðja og fjórða sæti í umspil um sæti þar. Íslenska liðið hóf leik í riðlinum gegn Póllandi á Kópavogsvelli og vann þar góðan 3-0 sigur með mörkum frá Diljá Ýr Zomers, Sveindísi Jane Jónsdóttur og sjálfsmarki Póllands. Næst ferðaðist liðið til Þýskalands þar sem Þjóðverjar komust yfir strax á 4. mínútu. Ísland sótti í sig veðrið og tókst að jafna leikinn á 23. mínútu með marki frá Hlín Eiríksdóttur. Þýska liðið hins vegar bætti við tveimur mörkum og 1-3 tap því staðreynd.

Næstu leikir riðilsins voru tveir leikir gegn Austurríki í maí/júní og var ljóst að úrslit þessara leikja myndu hafa mikil áhrif á það hvaða lið myndi fylgja Þýskalandi beint í lokakeppnina. Fyrri leikurinn fór fram í Austurríki og lenti Ísland undir um miðbik fyrri hálfleiks í jöfnum leik. Það var svo þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum að fyrirliði liðsins, Glódís Perla Viggósdóttir, jafnaði metin af vítapunktinum. Seinni leikurinn fór fram á Laugardalsvelli og í þetta skiptið var það Ísland sem skoraði fyrsta mark leiksins þegar Hlín Eiríksdóttir kom boltanum í netið. Austurríki hins vegar jafnaði leikinn nokkrum mínútum síðar og jafnt var í hálfleik. Það var svo Hildur Antonsdóttir sem skoraði sigurmarkið á 70. mínútu og þrjú gríðarlega mikilvæg stig í hús.

Því var ljóst að Ísland gæti tryggt sér sæti á EM 2025 með sigri gegn annað hvort Þýskalandi eða Póllandi. Ísland mætti Þýskalandi á Laugardalsvelli 12. júlí og vann frækinn 3-0 sigur og tryggði sér með því sæti á EM 2025. Ingibjörg Sigurðardóttir kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik með sínu fyrsta A-landsliðsmarki. Alexandra Jóhannsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir bættu svo við sitthvoru markinu í seinni hálfleik og glæsilegur sigur staðreynd. Ísland vann svo síðasta leik riðilsins gegn Póllandi 1-0 með marki Sveindísar Jane Jónsdóttur. Glæsilegri undankeppni lokið og ljóst að Ísland yrði í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið yrði í lokakeppnina.

Æfingaleikir um haustið

Ísland lék fjóra æfingaleiki á árinu. Í október fór liðið til Bandaríkjanna þar sem það mætti bandaríska landsliðinu í tveimur æfingaleikjum. Sá fyrri fór fram í Austin, Texas, og sá seinni í Nashville, Tennessee. Báðir leikirnir enduðu með 1-3 tapi Íslands, en liðið sýndi góðar hliðar í þeim báðum. Í þeim fyrri jafnaði Selma Sól Magnúsdóttir metin í upphafi síðari hálfleiks, en bandaríska liðinu tókst að skora tvö mörk á síðustu tíu mínútum leiksins og sækja sigur. Í seinni leiknum tók Ísland forystuna með frábæru marki Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur beint úr hornspyrnu. Það var ekki fyrr en 18 mínútur voru eftir af leiknum að Bandaríkjunum tókst að jafna og eftir það bætti liðið við tveimur mörkum.

Í nóvember/desember var Ísland við æfingar á Pinatar á Spáni og mætti þar Kanada og Danmörku í vináttuleikjum. Ísland mætti fyrst Kanada og endaði sá leikur með markalausu jafntefli. Nokkrum dögum síðar mætti liðið Danmörku og tapaði þar 0-2.

100 leikja áfangar

Sara Björk Gunnarsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir voru báðar heiðraðar af UEFA fyrir leik Íslands og Þýskalands fyrir að hafa leikið 100 A-landsleiki. KSÍ hafði þegar heiðrað leikmennina fyrir að leika 100 A-landsleiki, en það var gert á 74. ársþingi sambandsins sem haldið var árið 2020.

Dregið í Þjóðadeild UEFA

Dregið var í riðla fyrir Þjóðadeild UEFA í nóvember og er Ísland þar í riðli með Frakklandi, Noregi og Sviss.

Riðillinn verður leikinn í febrúar, apríl og maí/júní.

Besta staða Íslands á FIFA-listanum

Íslenska kvennalandsliðið komst í ágúst í þrettánda sæti á styrkleikalista FIFA, en það er besta staða sem liðið hefur náð. Liðið endaði svo árið í 14. sæti listans.

Augnablik ...