A landslið karla
Vináttulandsleikir
A landslið karla hóf árið á tveimur æfingaleikjum á Algarve í Portúgal. Fyrri leikurinn var gegn Eistlandi og lauk honum með 1-1 jafntefli. Mark Íslands skoraði Andri Lucas Guðjohnsen úr vítaspyrnu á lokamínútu leiksins. Seinni leikurinn var gegn Svíþjóð þar sem Svíarnir höfðu betur 2-1. Mark Íslands skoraði Sveinn Aron Guðjohnsen.
Undankeppni EM 2024
Mynd - Mummi Lú
Undankeppni EM 2024 hófst í mars. Ísland var í riðli með Portúgal, Slóvakíu, Lúxemborg, Bosníu-Hersegóvínu og Liechtenstein. Ísland hóf keppni á tveimur útileikjum. Fyrsti mótherjinn var Bosnía-Hersegóvína þar sem Bosníumenn unnu 3-0 sigur. Í næsta leik heimsótti Ísland Liechtenstein og vann þar 7-0 stórsigur, sem er stærsti sigur liðsins í mótsleik frá upphafi. Davíð Kristján Ólafsson kom Íslandi á bragðið með sínu fyrsta landsliðsmarki á þriðju mínútu leiksins. Næsta mark lét bíða eftir sér en Hákon Arnar Haraldsson kom Íslandi í 2-0 einnig með sínu fyrsta landsliðsmarki. Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson skoraði næstu þrjú mörk liðsins, tvö með skalla eftir hornspyrnu og eitt úr vítaspyrnu. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði sjötta mark Íslands á 85. mínútu. Mikael Egill Ellertsson fullkomnaði sigur Íslands með sínu fyrsta landsliðsmarki á 87. mínútu leiksins.
Í júní spilaði Ísland tvo heimaleiki á Laugardalsvelli. Fyrst var það Slóvakía sem kom í Laugardalinn. Gestirnir höfðu betur 1-2. Mark Íslands skoraði Alfreð Finnbogason úr vítaspyrnu. Næst var komið að Portúgal að mæta á Laugardalsvöll. Gestirnir unnu 0-1 sigur með marki undir lok leiks. Ísland heimsótti Lúxemborg í september. Þar mátti Ísland þola 3-1 tap. Mark Íslands skoraði Hákon Arnar Haraldsson. Þremur dögum síðar tók Ísland á móti Bosníu-Hersegóvínu og vann Ísland 1-0 sigur með marki frá Alfreð Finnbogasyni. Um miðjan október mættu Lúxemborg og Liechtenstein í Laugardalinn. Ísland gerði 1-1 jafntefli við Lúxemborg þar sem Orri Steinn Óskarsson kom Íslandi yfir með marki á 23. mínútu. Þremur dögum síðar tók Ísland á móti Liechtenstein og vann þar góðan 4-0 sigur. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði tvö marka Íslands og þeir Alfreð Finnbogason og Hákon Arnar Haraldsson skoruðu eitt mark hvor. Í nóvember heimsótti Ísland Slóvakíu þar sem heimamenn unnu 4-2 sigur. Mörk Íslands skoruðu Orri Steinn Óskarsson og Andri Lucas Guðjohnsen. Lokaleikur Íslands í riðlinum var gegn Portúgal þar sem Portúgal hafði betur með tveimur mörkum gegn engu.
Ísland hafnaði í fjórða sæti riðilsins, en fer í umspil um laust sæti á EM 2024 vegna árangurs í Þjóðadeildinni 2022. Í undanúrslitum umspilsins mætir Ísland Ísrael. Leikurinn er heimaleikur Ísrael en vegna stríðsástands verður leikurinn spilaður í Ungverjalandi. Ef Ísland vinnur sigur gegn Ísrael mætir það annað hvort Bosníu-Hersegóvínu eða Úkraínu í úrslitaleik um laust sæti á EM 2024.
Markametið slegið
Mynd - Mummi Lú
Gylfi Þór Sigurðsson bætti markamet Eiðs Smára Guðjohnsen í 4-0 sigri Íslands gegn Liechtenstein í október.
Gylfi skoraði tvö mörk í leiknum og það seinna var hans 27. mark með landsliðinu.
100 leikja áfangi
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði A landsliðs karla, spilaði sinn 100. landsleik á árinu. Áfanganum náði hann þegar Ísland mætti Liechtenstein í undankeppni EM 2024 þann 26. mars 2023. Auk þess að spila sinn 100. leik skoraði Aron Einar sína fyrstu þrennu í íslenska búningnum í sama leik.
Dregið í Þjóðadeild UEFA
Ísland leikur í B deild Þjóðadeildar UEFA í haust og verður þar í riðli með Wales, Svartfjallalandi og Tyrklandi.
Riðillinn verður leikinn í september, október og nóvember.