A landslið karla
Æfingaleikir
Í byrjun árs 2024 hélt A landslið karla til Miami í Flórída þar sem liðið spilaði tvo æfingaleiki. Fyrri leikurinn var gegn Gvatemala þar sem Ísland bar sigur úr býtum 0-1. Það var Ísak Snær Þorvaldsson sem kom Íslandi yfir á lokamínútum leiksins. Seinni leikurinn var gegn Hondúras og endaði hann með 0-2 sigri Íslands þar sem Andri Lucas Guðjohnsen og Brynjólfur Andersen Willumsson skoruðu mörk Íslands.
Umspil EM
Í mars spilaði Ísland í umspili um laust sæti á EM 2024 þar sem liðið mætti Ísrael í undanúrslitum umspilsins. Leikurinn fór fram í Ungverjalandi og lauk með 1-4 sigri íslenska liðsins. Arnór Guðmundsson skoraði eitt mark íslenska liðsins og Albert Guðmundsson var með þrennu.
Í úrslitaleik umspilsins mætti íslenska liðið Úkraínu en sá leikur fór fram í Póllandi. Leikurinn endaði með 2-1 tapi Íslands og raunin því sú að Úkraína tryggði sér sæti á EM og Ísland var úr leik. Albert Guðmundsson var aftur á ferðinni í þessum leik og skoraði mark Íslands.
Æfingaleikir
Ísland mætti tveimur stórliðum í æfingaleikjum í aðdraganda EM 2024. Í byrjun júní hélt íslenska liðið til Englands þar sem það mætti heimamönnum á Wembley. Ísland tryggði sér glæsilegan 0-1 sigur þar sem Jón Dagur Þorsteinsson skoraði sigurmark leiksins snemma í fyrri hálfleik. Til gamans má geta að enska liðið lenti í 2. sæti á EM eftir tap gegn Spáni í úrslitaleiknum. Seinni æfingaleikur Íslands þennan mánuðinn var gegn Hollandi þar sem Hollendingar unnu sannfærandi 4-0 sigur.
Þjóðadeild UEFA
Þjóðadeildin hófst í september með einum heimaleik og einum útileik. Ísland tók á móti Svartfjallalandi á Laugardalsvelli og vann 2-0 sigur - fyrsti sigur Íslands í þjóðadeildinni orðinn að veruleika. Það voru þeir Orri Steinn Óskarsson og Jón Dagur Þorsteinsson sem skoruðu mörk Íslands í leiknum. Liðið mætti síðan Tyrklandi í Izmir þar sem heimamenn unnu 3-1, Guðlaugur Victor Pálsson skoraði mark Íslands.
Í október spilaði Ísland tvo heimaleiki. Fyrri leikurinn var gegn Wales og endaði með 2-2 jafntefli þar sem Logi Tómasson skoraði eitt mark Íslands en hitt var sjálfsmark Walesverja. Seinni heimaleikur íslenska liðsins var gegn Tyrklandi og lauk honum með 2-4 tapi. Orri Steinn Óskarsson og Andri Lucas Guðjohnsen skoruðu mörk Íslands í þeim leik.
Í nóvember spilaði Ísland síðustu tvo leikina í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar og fóru þeir báðir fram á útivelli. Ísland mætti fyrst Svartfjallalandi og vann þar 0-2 sigur á heimamönnum, Orri Steinn Óskarsson og Ísak Bergmann Jóhannesson skoruðu þar mörk Íslands. Seinni leikur Íslands var í Cardiff þar sem liðið mætti Wales, og endaði sá leikur með 4-1 tapi íslenska liðsins. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði mark Íslands.
Ísland hafnaði í 3. sæti síns riðils í B deild og fer því í tvo umspilsleiki við Kósovó í mars um það hvort liðið haldi sér í B deild eða falli niður í C deild.
Vendingar í þjálfaramálum
Mynd - Mummi Lú
Jóhannes Karl Guðjónsson lét af störfum sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla þann 15. maí þegar hann tók við þjálfun danska liðsins AB. Jóhannes hafði starfað sem aðstoðarþjálfari frá árinu 2022. Þann 22. maí var Davíð Snorri Jónasson ráðinn sem aðstoðarþjálfari landsliðsins en hann hafði starfað sem þjálfari U21 landsliðs karla frá 2021.
Í lok nóvember ákvað Åge Hareide að hætta sem þjálfari A landsliðs karla. Hareide tók við liðinu í apríl 2023 og stýrði því í alls 20 leikjum. Í janúar tilkynnti KSÍ um ráðningu Arnars Gunnlaugssonar sem nýs þjálfara A landsliðs karla.
Íslenska liðið með þeim yngstu í Evrópu
Í desember birti rannsóknarhópur frá CIES Football Observatory á vegum International Center for Sport Studies pistil þar sem fram kom að íslenska A-landslið karla í fótbolta væri með sjötta yngsta meðalaldur karlalandsliða í Evrópu.
Samkvæmt greininni er meðalaldur leikmanna í íslenska landsliðinu 26,1 ár og rúmlega helmingur þeirra er 25 ára eða yngri.
Alfreð heiðraður
Mynd - Mummi Lú
Fyrir leik Íslands og Wales sem fram fór á Laugardalsvelli 11. október 2024 var Alfreð Finnbogason heiðraður fyrir sitt framlag til árangurs íslenska landsliðsins, en hann tilkynnti á árinu að hann hefði lagt landsliðsskóna á hilluna. Alfreð lék alls 73 leiki fyrir A landslið karla og skoraði 18 mörk.
Dregið í riðla fyrir undankeppni HM 2026
Dregið var í riðla fyrir undankeppni HM 2026 í desember. Ísland er þar í riðli með Úkraínu og Aserbaídsjan, og með sigurvegaranum úr viðureign Frakklands og Króatíu í mars.
Riðillinn verður leikinn í september, október og nóvember 2025.